Unnur Ösp Guðmundsdóttir
Leikskólinn Grænuvellir er átta deilda leikskóli á Húsavík. Í honum dvelja um 140-150 börn frá eins til sex ára. Mikil áhersla er lögð á leikinn, útikennslu, læsi, tónlist, lýðræði og jákvæðan aga.
Á haustmánuðum 2018 höfðu aðilar úr samstarfsráði um starfsþróun samband við stjórnendur Grænuvalla og buðu skólanum þátttöku í þróunarverkefni um starfsþróun kennara, ásamt þremur öðrum skólum. Samstarfsráð er samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitafélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Listaháskóla Íslands og Skólameistarafélags Íslands. Markmið samstarfsins er aukin starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra fagstétta í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum.
Eftir nokkrar umræður var ákveðið að taka þátt í verkefninu enda bætt aðgengi að endur- og símenntun kennara utan höfuðborgarsvæðisins mjög mikilvægt að okkar mati. Sex manna teymi vann verkefnið saman en það var samsett af stjórnendum leikskólans ásamt deildarstjórum eins til sex ára barna þannig að sérfræðiþekking kennara frá öllum aldurshópum leikskólans var nýtt í stefnuna. Hópurinn var stórhuga í byrjun, ætlaði að sigra heiminn og vinna upp allt sem tími hafði ekki unnist til að gera undanfarin ár. Markmiðin voru háleit, en fljótlega komu samstarfsaðilar verkefnisins frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri okkur niður á jörðina, enda voru þessi markmið allt of viðamikil fyrir tímarammann og fjármagnið sem lagt var í verkefnið. Eftir forgangsröðun kom í ljós að ný læsisstefna var mest aðkallandi og hófst þá hugmyndavinna að henni. Hópurinn fundaði einu sinni til tvisvar í mánuði og þess á milli setti verkefnastjóri stefnuna upp eftir hugmyndum hópsins.
Í þessari grein verður fjallað um tilurð læsisstefnu Grænuvalla, þróun hennar og hvernig unnið er með hana í leikskólanum.
Svót greining
Til að meta hvar leikskólinn var staddur í læsisnámi var gerð SVÓT greining á starfsdegi sem allt starfsfólk leikskólans tók þátt í. Svótgreining er aðferð sem notuð er til að finna og flokka innri og ytri áhrifaþætti í starfinu. Styrkleikar og veikleikar tilheyra innri þáttum og ógnanir og tækifæri tilheyra ytri þáttum.
Kennarar og starfsfólk hvers árgangs unnu saman í hópum og voru eftirfarandi spurningar lagðar fyrir:
- Hvað er verið að gera?
- Hvað erum við ekki að gera sem við getum gert?
- Hvað viljum við gera?
- Hvað kemur í veg fyrir það sem við getum eða viljum gera?
Niðurstöðurnar bentu til þess að mikið væri lagt upp úr vönduðu læsishvetjandi starfi á Grænuvöllum. Gögnin voru meðal annars notuð sem grunnur í vinnu við nýja markvissa læsisstefnu fyrir hvern árgang leikskólans.
Stuðningsefni
Við gerð læsisstefnunnar og innleiðingaráætlunar var notað fjölbreytt stuðningsefni.
Orðaleikur – Orðanám í leikskóla, er námsefni ætlað börnum af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku sem annað mál en getur í raun nýst öllum leikskólabörnum vel. Orðaleikur býður meðal annars upp á fjölbreytt safn mynda, sem teiknaðar eru af Ingu Maríu Brynjarsdóttur myndlistarkonu. Myndirnar er hægt að nota á fjölbreyttan hátt og voru þær hafðar til hliðsjónar við gerð orðalista sem áhersla er lögð á í læsisstefnunni. Út frá listanum voru útbúnir orðaforðakassar sem eru inn á öllum deildum, ólíkir eftir aldri barnanna. Í kössunum eru myndaspjöld sem hanga upp á vegg mánuð í senn og voru myndir úr Orðaleik mikið notaðar við gerð þeirra, enda einstaklega fallegar, skýrar og einfaldar.
Orðaforðalisti Menntamálastofunnar var hafður til hliðsjónar við gerð orðalistanna en í honum eru hugtök sem æskilegt er að börn á leikskólaaldri hafi á valdi sínu (Elsa Pálsdóttir, 2017).
Hljóðaklettar Lubba fá sitt pláss í innleiðingaráætluninni en í þeim kemur skýrt fram hvaða málhljóðum börn eiga vera búin að ná tökum á eftir aldri (Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, 2011–2012).
Við studdumst einnig við lista frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands um þróun máls og tals barna (Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, e.d.).
Skimanir
Á Grænuvöllum eru notaðar fjórar skimanir og var stuðst við þær við gerð innleiðingaráætlunar og orðaforðakassa. Skimanir þessar eru lagðar fyrir öll börn í leikskólanum og er stórt hlutfall kennara með réttindi til að leggja þær fyrir. Skimanirnar eru því í langflestum tilvikum lagðar fyrir af kennurum sem börnin þekkja vel.
Efi -2 er málþroskaskimun á málskilningi og máltjáningu barna sem eru á fjórða aldursári. Hún er lögð fyrir þegar börnin eru sem næst þriggja og hálfs árs aldri.
TRAS er skimun til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna. Henni er skipt í aldursflokka tveggja til þriggja, þriggja til fjögurra, fjögurra til fimm og er skimunin lögð fyrir þegar börn eru tveggja og hálfs, þriggja og hálfs, og fjögurra og hálfs árs gömul. Ef barn hefur ekki náð öllum viðmiðum um fjögurra og hálfs árs aldur er farin ein lokayfirferð á síðasta ári þeirra í leikskóla.
MÍÓ er skimun sem hjálpar kennurum að átta sig á stærðfræðifærni barna. Hún er lögð fyrir börn á sama hátt og TRAS, einu sinni á ári þegar barnið er sem næst hálfnað með hvert aldursár.
HLJÓM 2 metur mál- og hljóðkerfisvitund barna. Hún er lögð fyrir á síðasta ári í leikskóla og hjálpar til við að finna þau börn sem eiga í hættu á erfiðleikum með lestur síðar meir. Auk þess sem hún er frábært verkfæri til að styðja við hljóðkerfisvitund barna í gegn um leikinn.
Allar skimanirnar gefa vísbendingar um námslega stöðu barna og að sama skapi auka þær tækifæri kennara á að bregðast við og vinna með þá þætti sem mælast slakir. Þá kemur læsisstefnan að góðum notum.
Læsisstefna Grænuvalla
Skólanámskrá Grænuvalla er sett upp í veggspjaldaformi og er læsisstefnan á einu þessara spjalda. Það er okkur í mun að námskráin sé fallega uppsett og auðlæsileg fyrir alla og því er hún á þessu formi. Læsisstefnan mun hanga uppi á göngum skólans þannig að hún veki forvitni hjá börnum og áhuga kennara, foreldra og annarra sem ganga um skólann.
Í læsisstefnunni segir:
Í læsi felst þekking og færni barna til að lesa í umhverfi sitt. Í læsi felst einnig leikni barna til að tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir. Læsi er mikilvægur þáttur fyrir hvern einstakling og stuðlar að lýðræði í samfélaginu.
Á Grænuvöllum vinnum við markvisst að því að auðga orðaforða barnanna og styðjumst til þess m.a. við Orðaforðalista Menntamálastofnunnar auk Orðaleiks – námsefnis fyrir leikskólabörn sem læra íslensku sem annað mál og er gefið út af Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Á öllum deildum eru orðaforðakassar með mismunandi þemum fyrir hvern mánuð og er unnið með þau á fjölbreyttan hátt í daglegu starfi. Á Grænuvöllum er umhverfið lestarhvetjandi. Börn hafa auðveldan aðgang að fjölbreyttum skriffærum, pappír og bókum til að skoða og lesa.
Við leggjum áherslu á góð samskipti, við æfum okkur að skiptast á, bera umhyggju hvert fyrir öðru og að hver einstaklingur læri að vera hluti af hópi. Einnig að hann læri að lesa í tilfinningar sínar og annarra. Við leitumst við að gera starfið sýnilegt og myndrænt fyrir nemendur til að efla sjálfstæði þeirra og öryggi. Dagskipulagið er myndrænt auk þess sem skúffur, hólf og fleira er merkt með myndum og ritmáli.
Við leggjum upp með að börnin verði fær um að lesa í umhverfi sitt, við förum í vettvangsferðir þar sem við æfum okkur að nota augu og eyru þegar við förum yfir götu, skoðum skilti og aðrar vísbendingar sem umhverfið gefur okkur.
Við leggjum mikið upp úr lestri og sögum, bæði í litlum hópum og fyrir einstaklinga. Við vinnum markvisst með málörvun, stærðfræði, læsi og tilfinningar auk þess sem við leikum okkur með stafi, orð og hljóð.
Þess má geta að skólanámskráin verður endurmetin á þessu skólaári.
Markmið
Markmið með gerð markvissrar læsisstefnu er m.a. að börn á sama aldri fái sömu læsismenntun óháð deild eða kennurum. Læsisstefnan er hjálpargagn fyrir kennara svo þeir geti verið vissir um að ekkert gleymist og að allir nemendur fái þá menntun sem til er ætlast. Læsisstefnan á að vera aðgengileg og auðlesin fyrir allt starfsfólk skólans svo það geti auðveldlega gengið inn í læsisstarf á hvaða deild sem er.
Innleiðingaráætlun
Markmiðið er að læsisstefnan sé meira en falleg orð á blaði og því voru útbúnar innleiðingaráætlanir fyrir hvert aldursstig leikskólans og fær hver aldur sinn lit. Eins til tveggja ára fær fjólubláa, tveggja til þriggja ára bláa, þriggja til fjögurra ára græna, fjögurra til fimm ára rauða og fimm til sex ára börnin fá gula áætlun. Innleiðingaráætluninni er skipt eftir mánuðum og innan mánaðanna eru fjórir flokkar; talað mál og hlustun, lestur og lesskilningur, ritun og miðlun og orðakassi.
Inn í efstu flokkana þrjá var niðurstöðum úr SVÓT- greiningunni, skimununum fjórum og fleiru sem er aldursvarandi í hverjum hópi raðað. Í orðakassana fóru orð úr Orðaforðalista Menntamálastofnunar og Orðaleik og eru ákveðin þemu í hverjum mánuði. Í innleiðingarmöppunni er einnig að finna hugmyndabanka með bókum, lögum, leikjum og fleiru sem tengist þema hvers mánaðar fyrir sig. Hugmyndabankinn varð til í innleiðingarferlinu þar sem kassarnir voru skoðaðir og starfsfólk deildi hugmyndum um notkun þeirra. Inn í bankann bætast svo við hugmyndir eftir hvert árlegt mat á læsisstefnunni.
Orðaforðakassarnir
Á orðaforðaspjöldunum er teiknuð mynd og orðið skrifað fyrir neðan. Myndirnar úr Orðaleik voru notaðar eins mikið og hægt var, aðrar myndir sem eru í kössunum eru af veraldarvefnum. Aftan á spjöldunum er merki leikskólans, mánuðurinn sem nota á spjöldin og aldur barnanna. Þannig er auðvelt að raða þeim aftur ef eitthvað ruglast.
Við vinnslu verkefnisins var teyminu ljóst að spjöldin þyrftu að vera vegleg og tekin var ákvörðun um að þau yrðu prentuð í prentsmiðju á endingargóðan pappír. Spjöldin voru prentuð hjá Héraðsprenti á 300 gr pappír með glansi. Einnig voru prentuð millispjöld með mánuðunum og límmiðar. Keyptir voru litlir þrískiptir trékassar með loki og spjöldunum raðað í þá. Límmiðar voru límdir utan á kassana til að merkja þá og aðgreina.
Þegar spjöldin eru í notkun inn á deildum eru þau sett í vasateppi með plastvösum svo þau séu öllum vel sýnileg. Það er svo hvers kennara að ákveða í hvaða stundum þeir nota orðaforðaspjöldin, í samveru, hópavinnu eða öðrum stundum sem henta. Auk spjaldanna í kössunum eru spjöldin aðgengileg til prentunar fyrir kennara skólans. Þeir hafa notað þau til að búa til minnisspil, límt þau á gólfin hjá yngstu börnunum og fleira. Í hverjum mánuði fá foreldrar sendar þær myndir sem notaðar eru hjá hverjum árgangi svo hægt sé að vinna með sömu orðin heima.
Innleiðing og mat
Kennarar fengu læsisstefnuna afhenta í lok september 2020 og voru beðnir um að fylla út matsblöð í október, nóvember og maí. Flestir tóku hana í gagnið strax og notuðu á fjölbreyttan hátt. Vel gekk að innleiða stefnuna í Gula hóp og var vinna með hana fljótlega orðin fastur liður í dagskipulaginu. Hópurinn lagði mesta áherslu á ritun og miðlun en vann einnig með orðaforðakassann á fjölbreyttan hátt. Spjöldunum var skipt upp á milli vikna þar sem þau voru frekar mörg í október. Börnin fengu að velja spjöld til að vinna með í hlutverkaleik en spjöld októbermánaðar voru úr nærumhverfinu. Þau völdu m.a. orðið sjoppa og undirbjuggu sjoppuleikinn vel, m.a. með því að búa til hluti fyrir hana í listasmiðjunni. Þau voru því búin að undirbúa leikinn vel áður en þau byrjuðu á honum. Sjoppuleikurinn hélt svo áfram í nokkra daga áður en þau völdu næsta spjald, sem var fangelsi. Það var sett upp á föstudegi og var látið duga að hafa þann leik í gangi einn dag. Heilsugæsla var einnig valin og var sá leikur undirbúinn á barnafundi þar sem hann var ræddur sem og í skólastund. Börnin völdu orðin sjálf, hin orðin fengu að hanga upp á vegg þar sem þau gátu velt þeim fyrir sér.
Rauði hópur einbeitti sér mest að orðaforðakassanum þar sem heimsfaraldur Covid kom í veg fyrir önnur verkefni sem áætluð voru í mánuðinum, eins og sendiferðir og fleira. Í sendiferðum fara börn fyrir kennara inn á aðrar deildir eða á skrifstofu til að sækja hluti, skila hlutum eða koma skilaboðum milli staða, annað hvort munnlegum eða skriflegum. Stundum eru börnin send með mikilvæg skilaboð milli kennara og finna þannig hvað þeirra framlag í leikskólanum skiptir miklu máli. Orðin úr orðaforðakassanum voru sett í veggteppið þar sem þau eru sýnileg. Læsisstefnan var í raun nýtt í sem flestum aðstæðum. Auk vinnu með orðaforðakassana æfðu börnin sig í að skrifa stafinn sinn á fjölbreyttan hátt, þau sporuðu hann á blað, skrifuðu í sandinn í fjöruferðum, leiruðu stafinn sinn og kubbuðu hann, einnig voru þau hvött til að merkja sér myndir sem þau teiknuðu. Orðaforðaspjöldin voru mest notuð í samverustundum en einnig voru unnin verkefni í hópavinnu tengd líkamanum, búin til púsl og lottó. Sönglagalisti með líkamsheitum var einnig notaður.
Kennarar á yngri deildum eru að vinna í að innleiða orðaforðavinnuna á markvissan hátt. Þar fer fram mikil málörvun í daglegu starfi, kennarar leggja sig fram um að setja orð á athafnir og tala við börnin, lesa, syngja og fleira. Orðin úr orðaforðakössunum eru mest notuð í samverustundum og leik.
Í lok nóvember skiluðu kennarar í tveimur elstu árgöngum mati. Í því komu góðar hugmyndir að úrbótum og breytingum. Í ritun og miðlun hjá Gula hóp (elstu börnin) var verkefni nóvembermánaðar að skrifa eftir fyrirmynd. Það nýttu þau aðallega í valinu og skólastundum með því að skrifa orðsendingar til foreldra. Orðin og orðatiltækin úr orðaforðakassanum voru útskýrð og rædd í samverustundum. Hugmynd kom upp um hvort ekki mætti tengja orð nóvembermánaðar meira við jólin og gjafir þar sem börnin á Grænuvöllum vinna yfirleitt jólagjafir til foreldra sinna í þeim mánuði. Orð eins og vingjarnlegur, virðing, hófsemi, glaðværð, hugrekki, hjálpsemi, þolinmæði, sköpunargleði, áreiðanleiki og samkennd er auðvelt að tengja við jólavinnuna og er á stefnuskránni að bæta þeim við orðaforðalistann.
Rauði hópur vann meira með ritun og miðlun en hann hafði gert mánuðinn á undan og orðaforðakassinn var líka mikið notaður. Þema nóvembermánaðar var fjölskyldan með orðum á borð við móðir, faðir, langamma/afi, tvíburar/þríburar o.fl. Í Rauða hóp eru einmitt tvíburar og þótti hópnum skemmtilegt að velta fyrir sér muninum á því að vera tvíburar, systkini, systur o.s.frv. Þau hefðu viljað hafa ömmu og afa með í fjölskyldunni (þau eru í orðaforðakassa fyrir yngri börn) til að geta sett fjölskylduna upp sjónrænt. Það er lítið mál að bæta þeim við og munum við gera það á næsta skólaári. Í samverum notaði hópurinn mikið Fjölskyldubókina eftir Todd Parr (2007) en í henni er farið í ýmsar gerðir af fjölskyldum sem gaman var að skoða með börnunum. Í ritun og miðlun léku börnin sér með stafina og teiknuðu mynd af fjölskyldunni. Einnig huguðu þau að gerð jólagjafa til mæðra sinna og feðra og voru þau orð, auk foreldra, notuð markvisst í stað mömmu og pabba.
Lokaorð
Upplifun starfsfólks af þróunarverkefninu hefur verið mjög góð. Við fengum mjög góða aðstoð frá Írisi Hrönn hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Hún hjálpaði okkur mikið við að þrengja verkefnið niður í þann þátt sem okkur fannst mikilvægast að koma á laggirnar, þ.e. læsisstefnu. Hún gaf okkur hugmyndir að uppsetningu og ræddi við okkur um hvað góð læsisstefna innihéldi. Einnig aðstoðaði hún okkur á síðustu metrum lokaskýrslunnar. Þökkum við Írisi kærlega fyrir veitta aðstoð. Lokaafurð þróunarverkefnisins er glæsileg læsisstefna, innleiðingaráætlun fyrir hana og vandaðir orðaforðakassar. Áhersla teymisins við gerð læsisstefnunnar var að búa til námsgagn sem auðveldaði öllu starfsfólki leikskólans að vinna með læsi. Þegar þetta er skrifað hefur læsisstefnan verið í notkun á öllum deildum á Grænuvöllum í rúmt ár og eins og sjá má á matinu hér að ofan fer hún vel af stað. Það er okkar ósk að hún muni stækka og dafna á komandi árum.
Heimildaskrá
Elsa Pálsdóttir. (2017). Orðaforðalistinn. Menntamálastofnun.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. (e.d.). Þróun máls og tals barna. https://hti.is/index.php/is/tal/throun-mals-tals-barna.html
Parr, T. (2007). Fjölskyldubókin. Skrudda.
Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, 2011-2012. Hljóðaklettar Lubba. https://www.lubbi.is/images/hljodaklettar_lubba.pdf
Unnur Ösp Guðmundsdóttir er sérgreinastjóri leikskólans Grænuvalla á Húsavík. Hún útskrifaðist með B.Ed. gráðu sem leikskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005 og starfaði eftir það sem leikskólakennari á Hofi í Laugardalnum og deildarstjóri á Bakka í Grafarvogi og Bergi á Kjalarnesi. Árið 2015 flutti hún ásamt fjölskyldu sinni heim á æskuslóðirnar á Húsavík og hefur síðan unnið á Grænuvöllum sem leikskólakennari, deildarstjóri, verkefnastjóri og nú síðast sem sérgreinastjóri. Hún situr í gæðaráði leikskólans, sérkennsluteymi og stjórnendateymi og hefur tekið þátt í tveimur þróunarverkefnum eftir að hún hóf störf á Grænuvöllum.
Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um frjótt og skapandi leikskólastarf til birtingar í Skólaþráðum. Dómnefnd skipuðu: Anna Magnea Hreinsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir, Kristín Dýrfjörð og Sveinlaug Sigurðardóttir.
Grein birt 14. febrúar 2022