Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir
Mikið veltur á hverjum og einum kennara.
Kynfræðsla meira og minna tilviljanakennd.
Kynfræðslu þarf að undirbúa.
Eftirfarandi eru millifyrirsagnir úr grein Morgunblaðsins um stöðu kynfræðslu í landinu. Þetta hljómar allt saman kunnuglega, en greinin birtist 9. nóvember árið 1986. Við skulum því spóla áfram um þrjátíu og fimm ár.
Í kennslustofunni er dauðaþögn. Hópur nemenda á miðstigi grúfir sig yfir keppnisblað dagsins, orðasúpu á tíma þar sem þátttakendur keppast um að vera fyrst til að finna orðin. Skyndilega sprettur ungur drengur frá borðinu og öskrar; „ÉG FANN LEGHÁLSINN!!“. Nokkru áður hafði kennslustundin leysts upp í hlátur og vandræðalegheit þegar kennarinn gerði heiðarlega tilraun til þess að kynna nemendur fyrir helstu líffærum æxlunarkerfanna, en eftir þónokkrar æfingar hefur hópurinn náð að vinna sig í gegnum kjánahrollinn og orðin pungur, brjóst og snípur orðin þeim jafn töm og eyra, bak og litlatá.Haustið eftir þessa eftirminnilegu uppákomu var þróunarverkefni í heildstæðri kynfræðslu hleypt af stokkunum í Grunnskóla Borgarfjarðar í samstarfi við leikskólann Hnoðraból. Verkefnið hlaut yfirheitið Við, sem vísun í að málefnið komi okkur öllum við og að við öll njótum ávinningsins. Verkefnið felst í því að nemendur frá 1. til 10. bekk fái að minnsta kosti tólf kennslustundir þar sem fjallað er um jákvæða líkamsímynd og sterka sjálfsmynd auk hefðbundinnar kynfræðslu. Þessi fræðsla kemur til viðbótar við þá fræðslu sem skólahjúkrunarfræðingar veita reglulega á skólagöngu barnanna. Auk þess fá nemendur í skólahópi leikskólans Hnoðrabóls heimsóknir með styrkjandi verkefnum. Verkefnið hlaut styrk úr Sprotasjóði og er tilraun Grunnskóla Borgarfjarðar til að svara kalli nútímans um aukna kynfræðslu. Verkefni sem þetta er ekki einsdæmi á landinu enda hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir tilraunaverkefni í nokkrum skólum þar sem kynfræðsla er í öllum bekkjum.
Ég hef verið kennari síðan í mars 2011. Það sem átti að vera tímabundin afleysing er orðið að tíu ára starfsferli við Grunnskóla Borgarfjarðar, lengst af umsjónarkennari á unglingastigi. Þar sem ég hef í bakpokanum sérhæfingu í náttúrufræðikennslu dæmdist það fljótlega á mig að sinna kynfræðslu samkvæmt aðalnámskrá. Það var nokkuð flókið að halda uppi markvissri kynfræðslu á unglingastigi þegar nemendurnir höfðu ekki fengið nema sáralítinn undirbúning í efninu á yngsta og miðstigi. Margar kennslustundir fóru í vandræðalegar þagnir í kjölfar þess að kennarinn sýndi á myndum hvar snípinn væri að finna og að eðlilegt væri að fá sáðfall í svefni. Það var því markmið mitt þegar ég hóf diplómanám í kynfræði við HÍ að finna leið til þess að kynfræðslan yrði markvissari, heildstæðari og árangursríkari en áður hafði verið og án vandræðalegheita.
Lykillinn að því er nálgast kynfræðslu sem heildstæða námsgrein sem hefst strax á fyrstu árum grunnskólans og leitast við að tengja hana við sem flestar greinar grunnskólans.
Á yngsta stigi í verkefninu Við er lögð áhersla á jákvæða líkamsímynd og samskipti auk grunnþekkingar í líffræði. Nemendur fara þannig í gegnum æfingar sem efla þá í að virða sín mörk og annarra, læra helstu heiti á líffærum, læra um getnað og meðgöngu auk kynþroskafræðslu. Á miðstigi er mikil áhersla lögð á kynþroska og kynfræðina, þ.e. að nemendur geri sér grein fyrir muninum á kynhneigð og kynvitund auk þess sem farið er í gegnum æfingar til að efla færni í ákvarðanatöku og eflingu sjálfsmyndar. Á unglingastigi er áhersla lögð á kynheilbrigði í víðasta skilningi, áhrif samfélagsins á kynhegðun auk jafnréttisfræðslu. Til viðbótar við það sem hefur verið talið upp hér að ofan er einnig hinsegin fræðsla, en til þess að hún skili sem bestum árangri er henni fléttað inn í alla þætti kynfræðslunnar. Þegar fjallað er um getnað á yngsta stigi er fjallað um margskonar fjölskylduform. Á miðstigi er fjallað um kynvitund og kynhneigð og til dæmis hafa nemendur á unglingastigi fengið möguleika á valgreinunum; Hinsegin saga, Kynjafræði og Kynin öll í fjölmiðlum. Auk þessarar fræðslu verður boðið upp á fræðslu til starfsfólks og foreldra reglulega yfir tímabilið. Helstu hindranirnar hafa verið námsefni þar sem það sem gefið hefur verið út síðustu ár hefur oftar en ekki verið miðað að unglingum og þá fyrst og fremst tilheyrt kynlífs- hluta fræðslunnar. Stór þáttur verkefnisins hefur því verið hugmyndavinna, þýðingar og staðfæringar á námsefni sem þjónar tilgangi verkefnisins.
Því miður standa kennarar oft ráðþrota frammi fyrir því hvernig er best að koma til móts við fróðleiksþyrstan nemendahóp. Námsefnið er oft á tíðum einsleitt og illa uppfært til nútímans og fræðsla til kennara er lítil sem engin. Þessi litla fræðsla skilar sér í óöryggi í kennslustofunni og hræðslu við að takast á við málefni sem eru viðkvæm. Einnig er oft óvissa um viðbrögð foreldra við fræðslunni þar sem málefni af þessu tagi eru oft misjafnlega opinskátt rædd á heimilum. Til að friða þessar raddir get ég sagt að viðbrögðin hafa verið langt um betri en ég þorði að vona. Bæði hafa stjórnendur Grunnskóla Borgarfjarðar verið jákvæðir gagnvart verkefninu frá fyrstu tilraunum sem ég tel vera lykilatriði ef árangur af þróunarverkefni á að skila sér til lengri tíma litið. sem þessu á að haldast innan skólakerfisins. Viðbrögð foreldra hafa verið jákvæð en mikilvægast er að nemendur hafa fengið í hendurnar verkfæri sem þeir nýta sér út í lífið, ekki einungis þegar kemur að kynheilbrigði, heldur einnig þegar kemur að sjálfsmynd, líkamsímynd og samskiptum við aðra.
En hvað hefur þá breyst síðan í greininni góðu frá 1986? Jú, það veltur mikið á hverjum og einum kennara. Við erum fá sem gefum okkur í þessa kennslu og samstarfið mætti vera meira. Skortur á námsefni fyrir öll stig grunnskólans gerir verkið líka erfiðara viðfangs. Kynfræðsla er enn of tilviljanakennd, þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um mikilvægi hennar í aðalnámskrá grunnskóla. Og síðast en ekki síst er þetta fag sem þarf góðan undirbúning nemenda og kennara. Nemendur sem eru vanir opinskárri umræðu og heiðarlegum svörum frá kennara sem þekkir efnið vel, eru nemendur sem munu vonandi standa betur vörð um sín mörk og annarra en fyrri kynslóðir.
Í framtíðinni vona ég svo innilega að kynfræðsla verði sjálfsagður þáttur í skólastarfi, til viðbótar við þá fræðslu sem skólahjúkrunarfræðingar veita, en ekki afgangsstærð sem er bjargað fyrir horn með þemadögum og tilviljanakenndum plástrum. Til þess þarf vilja, ekki bara kennara til að kenna fagið, heldur líka vilja skólayfirvalda á öllu landinu til að standa vörð um kynfræðsluna. Verkefnið Við er eitt af vörðunum í átt að slíku skólasamfélagi.
Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir er kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar. Hún lauk B.Sc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 2009, kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri 2010, M.Ed gráðu í kennslufræði náttúrufræðigreina frá Háskóla Íslands 2013 og diplómu í kynfræði frá Háskóla Íslands 2018. Þóra Geirlaug hefur kennt við Grunnskóla Borgarfjarðar frá 2011, lengst af á unglingastigi.
Grein birt 10.desember 2021