Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

„Við skoðum allt sem beðið er um …“ – Gróska í framboði á valnámskeiðum í grunnskólum

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson

 

Í vor heimsótti ég skóla nokkurn þar sem margt gladdi augað, svo sem öflug teymiskennsla, samvinna nemenda, skapandi skil í mörgum greinum og skemmtileg nýting á upplýsingatækninni, að ekki sé minnst á mjög jákvæð viðhorf nemenda á unglingastigi til kennara sinna („frábærir kennarar“, „geggjaðir kennarar“). En einn óvæntan skugga bar á. Nemendur, jafnt sem kennarar voru óánægðir með valgreinarnar. Þetta kom mér á óvart því mín reynsla er sú að yfirleitt séu valgreinar í hópi þeirra námsgreina sem eru í hvað mestum metum, að minnsta kosti hjá nemendum.

Í samræðum við stjórnendur fæddist sú hugmynd að setja fyrirspurn um framboð á valnámskeiðum á Skólaumbótaspjallið á Facebook, en það er hópur sem ég hef haldið utan um undarfarin ár. Þann 22. maí setti ég þar svohljóðandi færslu:

Mynd 1 – Málið reifað á Facebook.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögð fóru fram úr björtustu vonum. Upplýsingar bárust frá tugum skóla, bæði á Facebook, í einkaskilaboðum og tölvupósti. Og fjölbreytnin reyndist mikil, ég vil segja bæði gríðarleg og gleðileg.

Einn vandinn við Facebook er hversu skammlíf umræða um hvern þráð verður gjarnan – og það sem verra er, fljótlega eru færslurnar og þær upplýsingar sem þær geyma, komnar niður listann og verða fljótt vandfundnar. Í ljósi þess hversu gagnlegar þær upplýsingar sem mér áskotnuðust voru, ákvað ég að halda þeim til haga. Ég lagði drög að grein til birtingar í Skólaþráðum um leið og ég fór betur í gegnum gögnin, auk þess sem ég leyfði mér í nokkrum tilvikum að grennslast fyrir um eitt og annað. Fékk ég jafnan greið svör, sem ég vil þakka sérstaklega fyrir.

Þann 25. maí bætti ég við tveimur spurningum á Facebook með þessari færslu:

Mynd 2 – Fleiri spurningar!

Og enn fékk ég mörg, fjölbreytt og gagnleg svör og það leyndi sér ekki að margir höfðu áhuga á valnámskeiðum. Ég er því nokkuð viss um að þetta efni geti komið að notum.

Margt kom á óvart – ekki síst mikil fjölbreytni eins og fyrr var nefnt. Og það eru ekki bara fjölmennu skólarnir sem bjóða fjölbreytt námskeið. Ólöf Ása Benediktsdóttir, kennari í Hrafnagilsskóla, benti á þetta í færslu á Facebook:

Hrafnagilsskóli er með ótrúlega fjölbreytt úrval valgreina miðað við nemendafjölda. Metnaðarfullar lotur sem eru listnám, nýsköpun og tækni, hreyfing og íþróttir og sérlega metnaðarfull heimilisfræðikennsla þar sem nemendur taka slátur, steikja laufabrauð, búa til sushi og úrbeina lambalæri.

Valgreinarnar í Hrafnagilsskóla eru kenndar fjórar til sex kennslustundir í viku og nemendur velja fjórum sinnum yfir veturinn (sjá nánar hér).

Annað dæmi um  fjölbreytt framboð er í Gerðaskóla í Garði, en þar stunda um 250 nemendur nám um þessar mundir. Framboðið á valnámskeiðum þar er einkar áhugavert, sjáið þennan bækling og takið eftir fjölbreytninni. Þarna má finna tugi námskeiða um nánast allt milli himins og jarðar; táknmál, pílukast,  matargerð , pappírsbrot, tilraunir, bændur og búalið, konfektgerð, ýmsar íþróttir og skapandi starf, nýsköpun, stuttmyndagerð og um enska boltann.

Hvert valnámskeið í Gerðaskóla er tvær kennslustundir á viku og hver nemandi er sex kennslustundir á viku í vali. Valgreinarnar eru kenndar í níu vikna lotum en nokkrar eru þó lengri. Nokkrar valgreinar eru heilsársgreinar og eins geta nemendur tekið námskeið í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hér má skoða kynningarglærur þar sem valinu í Gerðaskóla er lýst nánar.

Mesta fjölbreytni í framboði á valnámskeiðum hef ég líklega séð í Hlíðarskóla, sem er lítill skóli í Skjaldarvík, rétt fyrir norðan Akureyri og er hugsaður sem skammtímaúrræði fyrir nemendur sem hafa ekki aðlagast starfinu í heimaskólanum sínum. Þar hefur nemendum lengi verið boðið að taka ýmis örnámskeið sem m.a. hafa verið byggð á óskum þeirra. Ég heillaðist af þessu vali þegar ég kynntist því fyrst fyrir bráðum tíu árum og skrifaði um það grein í Netlu árið 2012 með Bryndísi Valgarðsdóttur skólastjóra Hlíðarskóla og Reyni Hjartarsyni kennara og áfangastjóra skólans. Framboðið á valnámskeiðum í þessum litla skóla var og er nánast með ólíkindum. Á mynd 3 má sjá yfirlit yfir þau námskeið sem voru í boði árið sem greinin var skrifuð.

Mynd 3 – Valgreinarnar í Hlíðarskóla skólaárið 2011-2012. Smellið á yfirlitið til að opna greinina í Netlu.

Nokkuð mismunandi er hversu langar valnámskeiðslotur eru í þeim skólum sem ég fékk upplýsingar um. Eins og sjá má af dæminu úr Gerðaskóla hér að ofan eru loturnar mislangar. Í Kársnesskóla í Kópavogi eru þær aðallega tvær, en heilsársnámskeið eru einnig í boði, m.a. kórstarf. Í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði eru loturnar þrjár, en í Grunnskólanum í Þorlákshöfn eru þær fjórar og fimm í Húsaskóla í Reykjavík. Um þá ákvörðun hafa  fjórar lotur segir Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn í færslu á Facebook: „Breyttum fyrirkomulagi valgreina fyrir tveimur árum og bjóðum nú upp á smiðjur sem skiptast í fjögur tímabil. Þannig geta nemendur kynnst fjölbreyttari viðfangsefnum,“ og bætir við: „Á skólaþingi nemenda kom fram mikil ánægja með valgreinar.“ Það er kannski ekki að undra, enda eru rúmlega 40 valnámskeið í boði næsta skólaár, m.a. um endurnýtingu, fjármálafræðslu, forritun, heilsurækt, húsgagnasmíði, íslenska matargerð á árum áður, kynfræðslu, menningarstarf, þar sem nemendur fá að undirbúa menningarviðburð sem þeir framkvæma í lok námskeiðs, reiðhjólaviðgerðir og sjálfstyrkingu, svo fátt eitt sé nefnt, að ekki sé minnst á námskeiðið Ofur-Huga sem svo er lýst:

Ofur-Hugi
Kennari: Guðlaug Einarsdóttir.
Kennslustundafjöldi: 1 klukkustund á viku í 9 vikur.
Lýsing: Hvað getum við sjálf gert til að láta okkur líða sem allra best? Hvað felst í sjálfsást og jákvæðri líkamsímynd? Hver eru áhrif hugleiðslu, öndunaræfinga og kaldra baða á líkama og sál? Hvað eru sánaböð og hvaða áhrif hafa þau? Hvað er dans- og hláturjóga? Hvaða áhrif getur tónlist haft á líðan? Hver er lækningamáttur náttúrunnar? Í tímunum munum við einnig kynna fyrir hvert öðru smáforrit, hlaðvörp og/eða aðferðir sem miða að því að auka lífsgæði og hamingju og auðvitað prufum við allar þessar aðferðir og finnum áhrifin á eigin skinni.
Námsmat: Virkni, áhugi, frumkvæði og þátttaka.

Sérlega áhugavert er að sjá að skólarnir á Akureyri leggja saman krafta og bjóða námskeið sem kennd eru við samval og skólarnir hafa sameinast um.

Mynd 4 – Smellið á myndina til að sjá öll námskeiðin sem skólarnir á Akureyri hafa sameinast um.

Gaman er að segja frá því að nemendur í Þelamerkurskóla, sem fyrir þá sem ekki vita það er í Hörársveit, rétt norður af Akureyri, munu fá aðgang að þessum samvalsnámskeiðum, en um þetta segir Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir í tölvupósti til mín:

Það er frábær þróun. Þar gefst elstu nemendum kostur á að sækja valgrein í hinum ýmsu iðngreinum VMA, s.s. rafiðn, háriðn, matreiðsla, hjúkrun og framreiðsla. Valgreinin færir þeim eina einingu sem fylgir þeim inn í skólann, hefji þau nám þar að grunnskólagöngu lokinni.

Dæmi um annað samstarf um framboð á valnámskeiðum eru svokallaðar smiðjuhelgar þar sem nokkrir skólar hafa sameinast um námskeið sem kennd eru um helgar. Líklega var það Varmalandsskóli, sem nú er hluti af Grunnskóla Borgarfjarðar, sem reið á vaðið. Hugmyndin mun vera komin frá Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur, fyrrverandi skólastjóra skólans. Auk Grunnskóla Borgarfjarðar koma nemendur frá Auðarskóla í Búðardal, Laugargerðisskóla og Reykhólaskóla á námskeiðin sem haldin eru í tengslum við smiðjuhelgar.

Smiðjuhelgarnar eru haldnar tvisvar yfir skólaárið, vor og haust, og þar fást unglingarnir við hin fjölbreyttustu viðfangsefni, t.d. björgunarstarf, dans, fatahönnun, forritun, kvikmyndagerð, fjölbreyttar íþróttir, bakstur og matargerð, myndlist, ritun, smíðar og skartgripagerð, skák og spil, svo fátt eitt sé nefnt. Námskeiðin hafa alltaf verið ákveðin í samráði við nemendur. Sjá nánar um þetta fyrirkomulag í grein sem Ingibjörg skrifaði um þetta í Skólaþræði 2017.

Þrír skólar á Suðurlandi; Kerhólsskóli og Grunnskólarnir í Bláskógabyggð (Laugarvatn og Reykholt) hafa líka sameinast um smiðjuhelgar og um þær segir Íris Anna Steinarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Kerhólsskóla, meðal annars í færslu á Facebook: „ Við erum í þriggja skóla samstarfi með fjórar smiðjuhelgar fyrir 8.-10. bekk. Frábært val og nemendur stjórna miklu um hvað er í boði. Skoðum allt sem beðið er um .“ Íris Anna sendi mér ýmis gögn um smiðjuhelgarnar og fékk ég leyfi hennar og Jónu Bjargar Jónsdóttur, skólastjóra Kerhólsskóla, til að birta bréf til foreldra og nemenda þar sem Jóna útskýrir fyrirkomulag og markmið smiðjuhelganna, sjá mynd 5.

Mynd 5 – Upphaf bréfs Jónu Bjargar, skólastjóra Kerhólsskóla, til foreldra þar sem smiðjuhelgarnar eru kynntar. Smellið á myndina til að lesa allt bréfið .

Nokkrir þeir sem svöruðu mér tóku fram að gerðar hafi verið tilraunir með val á miðstigi og jafnvel á yngsta stigi. Sem dæmi má nefna Tálknafjarðarskóla sem býður nemendum sínum á öllum stigum valnámskeið. Ég hef áður kynnst nokkrum skólum sem hafa boðið valnámskeið á miðstigi með góðum árangri og líklega hef ég fyrst veitt því athygli í  Grunnskóla Ísafjarðar. Um þetta val má lesa í  grein sem Jóna Benediktsdóttir skrifaði í Skólaþræði 2018, en á Ísafirði gengur miðstigsvalið undir því skemmtilega nafni Hræringur. Sandgerðisskóli hefur einnig boðið miðstigsval, en líklega er það Húsaskóli í Reykjavík sem hvað lengst gengur í miðstigsvali, en þar eru nemendur í valnámskeiðum í átta kennslustundir í hverri viku.

Ánægjulegt var að sjá af svörunum að nemendur taka víða þátt í ákvörðunum um hvaða valnámskeið eru í boði.  Nokkrir svarenda lögðu áherslu á þetta. Anna María Proppé, deildarstjóri í Hraunvallaskóla, benti á að í skólanum sé þetta gert reglulega um leið og nemendur velja. Þeir eru spurðir hvort eitthvað vanti eða hvor þau séu með hugmyndir að vali. Jóhanna M. Þorvaldsdóttir, kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar sagði meðal annars þetta:

Já, við spyrjum unglingana okkar reglulega hvaða val þeir myndu vilja sjá/taka þátt í. Bæði tökum umræðu og óskum eftir nafnlausum hugmyndum … Einnig ef kennari er með val og það er léleg skráning þá er breytt um val og valið aftur, þannig er líka pressa á kennara að vera með val sem heilla nemendur 

Esther Ösp Valdimarsdóttir, kennari á Hólmavík, sagðist oft fara aðra leið með því að „… kortleggja áhugasvið og væntingar með nemendum og svo er reynt að finna farveg“. Og Brynhildur Sigurðardóttir, kennari í Stapaskóla benti á þetta:

Valgreinar ráðast oft af því hvað kennurum dettur í hug að bjóða og prófa að kenna. Og kennarar heyra óskir nemenda, bæði í óformlegu spjalli og með formlegum könnunum. Næsta vetur er t.d. táknmálsnám í boði fyrir nemendur Stapaskóla, og framhald í macramé og fjármálafræðsla og margt fleira  ̶  allt af því að nemendur skólans báðu um það og kennarar eru tilbúnir að prófa.

Upplýsingar um þau valnámskeið sem eru í boði hverju sinni fá nemendur í ýmsu formi. Flestir skólarnir gefa út bæklinga með yfirliti, en í nokkrum skólum hafa verið settar upp sérstakar vefsíður um valnámskeiðin. Skemmtileg dæmi um þetta er að finna á vefsíðum Árbæjarskóla og Réttarholtsskóla. Námskeiðin í báðum skólunum eru afar fjölbreytt en á mynd 6 má sjá hluta af þeim námskeiðum sem eru í boði í Réttó:

Mynd 6 – Kynning á valnámskeiðum á heimasíðu Réttarholtsskóla. Smellið á myndina til að skoða allt framboðið.

Mörg námskeiðanna í Réttarholtsskóla eru einkar áhugaverð. Athygli mína vöktu meðal annars námskeið um ræktun matjurta, málefni líðandi stundar, heimspeki, vísindi og lestur góðra bóka. Námskeiðið um bóklesturinn heitir því frumlega nafni Ekkert djók, bara bók og það kynnir kennarinn, Sigurrós Eiðsdóttir, með þessari skemmtilegu lýsingu:

Mynd 7 – Lýsing á námskeiðinu Ekkert djók, bara bók sem Sigurrós Eiðsdóttir býður nemendum í 9.-10. bekk Réttarholtsskóla.

Valnámskeiðin í Árbæjarskóla í Reykjavík eru ekki síður athyglisverð. Þar hafa stjórnendur og kennarar meðal annars lagt áherslu á að bjóða námskeið sem tengjast lífsleikni. Um þetta framboð hafa Kristján Sturla Bjarnason, kennari við skólann, og Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri, skrifað greinina Óraunhæfir draumar, óhefðbundin lífsleiknikennsla og öðruvísi valgreinar sem birtist  í Skólaþráðum 2021. Þessi námskeið fengu nýlega hvatningarverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Nokkrir þeirra sem svöruðu erindi mínu á Facebook bentu á tiltekin áhugaverð námskeið. Nefna má björgunarsveitaval í Öxarfjarðarskóla, en námskeið um starf björgunarsveita eru í boði í nokkrum skólum, sem er til fyrirmyndar. Þá má nefna sjálfboðavinnu, eins og t.d. var reynt í  Þelamerkurskóla fyrir nokkrum árum en hér má t.d. lesa um nemendur í 7.-10. bekk sem völdu sér að kenna íbúum á öldrunarheimili á spjaldtölvur.

Agla Snorradóttir, kennari við  Bláskógaskóla í Reykholti, ákvað að gera tilraun til að virkja áhuga nemenda á tölvuleikjum með því að bjóða upp á rafíþróttaval. Þar var lykilhæfni höfð að leiðarljósi, m.a. sjálfstæði í vinnubrögðum, hæfni til að nýta margvíslega miðla og bera ábyrgð á eigin námi. Og verkefni nemenda voru ekki af verri endanum:

 1. Skrá sig og fylgjast með fréttabréfi Rafíþróttasambands Íslands
 2. Finna út hvernig maður stofnar rafíþróttafélag í skólanum, t.d. með því að skoða hvað aðrir hafa verið að gera og hvernig þeir starfa.
 3. Stofna félagið – búa til reglur (lög) og merki félagsins
 4. Kjósa í stjórn félagsins formann-ritara-gjaldkera (ef þess þarf)
 5. Skrá félagið í rafíþróttasambandið og/eða fá að vera deild innan UMFBisk
 6. Búa til félagatal
 7. Spila leiki, setja sér markmið og halda dagbók yfir árangur
 8. Kannski verður hægt að taka þátt í keppnum, en það fer eftir því hvernig gengur að koma félagi á stofn og skrá það til að öðlast þátttökurétt.

Og ekki er leiðinlegt að geta sagt frá því að áhugi nemenda var slíkur að búið er að stofna Rafíþróttafélagið Biskupa og ganga í  Ungmennafélag Biskupstungna og Rafíþróttasamband Íslands. Þá er stefnt að þátttöku í Unglingalandsmóti Íslands í sumar. Einnig hafa foreldrar komið til starfa og eru orðin virk í félaginu.[1]

Fyrir nokkrum árum var ég að vinna með nokkrum skólum í Húnaþingi og kynntist þá valnámskeiði í skólanum á Hvammstanga (Grunnskóla Húnaþings vestra) sem byggðist á því að nemendur ímynduðu sér að þeir væru að reka ferðaskrifstofur sem skipuleggja útivistarferðir. Þetta voru tveggja til þriggja daga ferðir og gerð var krafa um nákvæma tímaáætlun, greinargerð um hvaða staði átti að heimsækja og dagleiðir, sem og hvaða matur var í boði hverju sinni. Þá þurftu að koma fram upplýsingar um allan útbúnað og huga þurfti að öryggismálum. Námskeiðið  kennir Magnús Eðvaldsson, íþróttakennari við skólann, og að ráði varð að við skrifuðum saman grein um þetta áhugaverða námskeið sem birt var í Skólaþráðum 2018 undir heitinu Nemendur selja útivistarferðir – verkefni á lærdómsríku valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra.

Og ekki má gleyma Skrúfukvöldunum sem Alexander Kárason, foreldri barna í Varmárskóla, býður upp á í bílskúrnum hjá sér fyrir nemendur (aðallega drengi) sem finna sig ekki í hefðbundnu vali. Þetta merkilega og þarfa framtak var kynnt í einum þætti af Landanum í RUV.

Loks er að nefna svokölluð áhugasviðsverkefni, en þeim hef ég  kynnst í nokkrum skólum, meðal annars Grunnskóla Borgarfjarðar og Grunnskóla Snæfellsbæjar. Í heimsókn í síðarnefnda skólann fyrir nokkrum árum var ég leiddur í snillismiðju skólans og kynntur fyrir nokkrum nemendum og viðfangsefnum þeirra, en þeir voru að fást við sjálfvalin áhugasviðsverkefni í samstarfi við kennara sinn, Hugrúnu Elísdóttur. Ég varð beinlínis heillaður af því sem ég sá og heyrði og skráði þetta hjá mér:

 • Stúlka að læra japönsku upp á eigin spýtur og önnur frönsku
 • Drengur að undirbúa að elda fyrir fjölskyldu sína í eina viku
 • Stúlka að lesa sér til um anórexíu og önnur að æfa sig á ukulele
 • Þrír drengir að gera við tölvu og aðrir tveir að gera upp gamla vespu
 • Stúlka að taka viðtöl við íþróttafólk og þjálfara
 • Drengur að læra fluguhnýtingar með aðstoð afa síns
 • Tveir drengir að vinna að kvikmynd um sjómennsku: Hafa farið niður í bát og tekið viðtöl við skipverja um störf þeirra, í fiskvinnsluna að ræða við framkvæmdastjórann og næst ætla þeir á fiskmarkaðinn

Áhugaverðar útfærslur á vali má sjá í Langholtsskóla, en þeim lýsir Björgvin Ívar Guðbrandsson, einn af unglingastigskennurum skólans, með þessum hætti í færslu á Facebook:

Við erum ekki með valgreinar í unglingadeild Langholtsskóla. Nemendur búa sér til svokölluð 15% verkefni og við reynum að styðja við þau eftir bestu getu í vinnunni. Á kynningum sem ég sat í dag voru kynnt verkefni eins og læra spænsku, hanna og sauma kjól, læra á gítar, læra á bassa, koma upp heimahljóðveri og semja og taka upp lag, búa til matreiðslubók. Sem sagt nemendur hafa allt um það að segja hvað þau læra. Þetta er vetur tvö í þessu fyrirkomulagi.

Svipuð útfærsla hefur viðgengist í Seyðisfjarðarskóla þar sem nemendur hafa valið sér viðfangsefni út frá eigin áhuga og sett sér markmið. Þeir hafa til dæmis fengist við málaranám, húsgagnasmíði, hljóðfæranám og  laga- og textagerð.[2]

Heiðrún Hámundar, tónlistarkennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi, sendi mér upplýsingar um áhugasviðsval innan tónmenntar, en hún hefur í nokkur ár haft áhugasviðsval innan tónmenntarinnar í 6. og  7. bekk. Krakkarnir geta valið að taka þátt í hljómsveit, syngja  í míkrafón,  leika á ukuele og að skapa tónlist í tölvum og spjaldtölvum, svo eitthvað sé nefnt. Hópskipting ræðst því af áhugasviðsvali þeirra hverju sinni.

Ég aflaði ekki sérstaklega upplýsinga um námsmat á valnámskeiðum, en víða kom þó fram að byggt væri á hæfniviðmiðum í Aðalnámskrá grunnskóla (2013), en gjarnan gefið lokið eða ólokið, í stað bókstafa.

Hvers vegna valnámskeið?

Eins og sjá má af þessu yfirliti er mikil fjölbreytni í framboði á valnámskeiðum í mörgum grunnskólum. Freistandi er að fara betur í saumana á þessu framboði og skoða t.d. hlut list- og verkgreina, flokkun námskeiðanna eftir sviðum eða tengsl þeirra við nærsamfélagið. Kannski freistar einhvers, t.d. meistaraprófsnema, að rannsaka valnámskeiðin; tilurð þeirra, viðhorf og þátttöku nemenda, kennsluaðferðir eða námsmat. Sjálfum finnst mér þetta afar dýrmætur og mikilvægur þáttur í skólastarfi.

Vonandi halda valnámskeið áfram að gerjast og þróast; möguleikarnir eru óþrjótandi. Fyrir nokkru hafði mennta- og menningarmálaráðuneytið uppi ráðagerðir um að skerða val í grunnskólum. Því var mótmælt kröftuglega sem vonandi verður til þess að látið verði af þeim áformum. Þvert á móti þarf að auka val og annan sveigjanleika í skólastarfi, að ekki sé minnst á samráð við nemendur og foreldra og ábyrgð þeirra. Ekki þarf að leita lengi til að finna rannsóknir sem sýna fram á að það að gefa nemendum val í námi hefur jákvæð áhrif á námsáhuga; fleiri nemendur sökkva sér betur í námið (e. deeper engagement), úrlausnir þeirra verða betri og þeir læra meira (Fisher og Frey, 2018; McClung o.fl., 2019; Patall o.fl. 2010; Waterschoot o.fl., 2019).

Minnt skal á að í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) er kafli um valgreinar (bls. 50), en þar er að vísu fyrst og fremst miðað við val á unglingastigi:

Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa (bls. 50).

Val nemenda og þátttaka í mótun eigin náms á að sjálfsögðu að vera ríkur þáttur í skólastarfi á öllum stigum, einnig á yngri stigum. Og því má ekki gleyma að í þessum efnum eru leikskólar líklega í fararbroddi. Ég minnist þess ekki að hafa komið í leikskóla nema að þar hafi val barnanna um viðfangsefni verið fastur liður í daglegu starfi og víða mikil áhersla á það lögð. Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) er beinlínis sagt að börn skuli hafa „val um verkefni og vinnubrögð“ og að þau skuli hafa „áhrif á leikskólastarfið“ (bls. 26).

Ég hef kynnst nokkrum skólum þar sem sérstök áhersla hefur verið lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi og þátttöku þeirra í ákvörðunum um það. Lengst hefur verið gengið í tveimur fámennum skólum, annars vegar Grunnskólanum á Bakkafirði, þar sem stór hluti námsins fór fram í gegnum verkefni sem nemendur völdu og mótuðu frá grunni (sjá Ingvar Sigurgeirsson, o.fl., 2013) og í Brúarásskóla í Jökulsárhlíð þar sem byggt var á svipuðum kennsluháttum (Ingvar Sigurgeirsson, 2016) og nemendur glímdu á hverju skólaári við mörg frjáls verkefni. Aðspurður um þýðingu þess að fá að ráða einhverju um nám sitt sagði einn drengjanna í síðarnefnda skólanum: „Það er gott að geta valið það sem maður VILL læra.“ Betur verður þetta varla orðað.

Hér er Ágúst Tómasson kennari í Vogaskóla að kynna nemendum áhugavert valnámskeið um fluguhnýtingar.

Tafla 1 – Yfirlit um framboð á valnámskeiðum í nokkrum skólum.

Skóli

Framboð á valgreinum

Árbæjarskóli Valgreinar 2021-2033
Árskóli Valgreinabók
Gerðaskóli Valgreinar 2021-2022
Garðaskóli Valgreinar
Giljaskóli Valgreinar 2020-2021
Grunnskólinn í Þorlákshöfn Kynningabæklingur fyrir valgreinar í 8.-10. bekk, 2021-2022
Grunnskólinn á Ísafirði  Upplýsingar um val á mið- og unglingastigi.
Hagaskóli Valgreinabæklingar frá Hagaskóla fyrir næsta skólaár:

9. bekkur
10. bekkur

Hrafnagilsskóli Valgreinar á unglingastigi veturinn 2020 – 2021
Hraunvallaskóli Valnámskeið
Hörðuvallaskóli Val á unglingastigi
Kársnesskóli Valgreinar
Lágafellsskóli Valgreinar
Oddeyrarskóli Valgreinar
Réttarholtsskóli Hópakerfi og valgreinar 2021-2022
Tálknafjarðarskóli Valgreinar í Tálknafjarðarskóla
Varmárskóli Valið
Víðistaðaskóli  Val í 8.-10. bekk
Víkurskóli Námsval 2020-2021: 8.-10. bekkur
Öldutúnsskóli  Valgreinar

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.

Aðalnámskrá leikskóla 2011 /2011.

Bryndís Valgarðsdóttir, Reynir Hjartarson og Ingvar Sigurgeirsson. (2012). Að taka flugið: Þróunarstarf í Hlíðarskóla á Akureyri. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://netla.hi.is/greinar/2012/alm/005.pdf

Fisher, D. og Frey, N. (2018). Raise reading volume through access, choice, discussion, and book talks. The Reading Teacher72(1), 89-97. doi:10.1002/trtr.1691

Ingibjörg Inga Ingadóttir. (2017). Smiðjuhelgar í Grunnskóla Borgarfjarðar. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2017/05/29/smidjuhelgar-i-grunnskola-borgarfjardar/

Ingvar Sigurgeirsson. (2016). „Það er gott að geta valið það sem maður VILL læra.“ – Um Brúna – þróunarverkefni í Brúarásskóla.  Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2016/12/27/thad-er-gott-ad-geta-valid-thad-sem-madur-vill-laera-um-bruna-throunarverkefni-i-bruarasskola/

Ingvar Sigurgeirsson í samstarfi við Starfsfólk Brúarásskóla. Það er gott að geta valið það sem maður VILL læra“ – Um Brúna – þróunarverkefni í Brúarásskóla. Skólaþræðir – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun.  http://skolathraedir.is/2016/12/27/thad-er-gott-ad-geta-valid-thad-sem-madur-vill-laera-um-bruna-throunarverkefni-i-bruarasskola/

Ingvar Sigurgeirsson, María Guðmundsdóttir, Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir. (2013). Leikur að möguleikum: Umbótastarf í Grunnskólanum á Bakkafirði. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. https://ojs.hi.is/netla/article/view/2423/1308

Ingvar Sigurgeirsson og Magnús Eðvaldsson. (2018). Nemendur selja útivistarferðir – verkefni á lærdómsríku valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2018/09/23/nemendur-selja-utivistarferdir-verkefni-a-laerdomsriku-valnamskeidi-i-grunnskola-hunathings-vestra/

Ingvar Sigurgeirsson,  María Guðmundsdóttir og Bylgja Dögg Sigurgeirsdóttir. (2013). Leikur að möguleikum: Umbótastarf í Grunnskólanum á Bakkafirði. Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://netla.hi.is/greinar/2013/alm/003.pdf

Jóna Benediktsdóttir. (2018). Val á miðstigi í Grunnskólanum á Ísafirði. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2018/05/08/val-a-midstigi-i-grunnskolanum-a-isafirdi/

Kristján Sturla Bjarnason og Guðlaug Sturlaugsdóttir. (2021). Óraunhæfir draumar, óhefðbundin lífsleiknikennsla og öðruvísi valgreinar. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2021/03/19/oraunhaefir-draumar-ohefdbundin-lifsleiknikennsla-og-odruvisi-valgreinar/

McClung, N. A., Barry, E., Neebe, D., Mere-Cook, Y., Wang, Q. og Gonzalez-Balsam, M. (2019). Choice Matters: Equity and Literacy Achievement. Berkeley Review of Education, 8(2). https://doi.org/10.5070/B80037656

Patall, E. A., Cooper, H. og Wynn, S. R. (2010). The effectiveness and relative importance of choice in the classroom. Journal of Educational Psychology102(4), 896. https://doi.org/10.1037/a0019545

Waterschoot, J., Vansteenkiste, M. og Soenens, B. (2019). The effects of experimentally induced choice on elementary school children’s intrinsic motivation: The moderating role of indecisiveness and teacher–student relatedness. Journal of experimental child psychology, 188, 104692. https://doi.org/10.1016/j.jecp.2019.104692

Neðanmálstilvísanir

[1] Byggt á upplýsingum frá Öglu Snorradóttur

[2] Byggt á upplýsingum frá Svandísi Egilsdóttur skólastjóra Seyðisfjarðarskóla.


Ingvar Sigugeirsson er fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.


Grein birt: 31/5/2021

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp