Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Grein I
Soffía Vagnsdóttir
Þessi grein er sú fyrsta af þremur sem ég skrifa til heiðurs mínum kæra vini, Ingvari Sigurgeirssyni, sem nýlega fagnaði sjötugsafmæli sínu.
Greinarnar eru samofnar, en fyrsta greinin er að hluta til byggð á erindi, sem ég flutti á skólaþingi sveitarfélaga þann 4. nóvember síðastliðinn. Hún er fyrst og fremst hugleiðing mín um þá vegferð sem skólinn hefur verið á allt frá því að foreldrar mínir voru börn og byggðu undir sína framtíð og fram til þess sem börn í skólum nútímans þurfa og ættu að læra. Samfélagið breytist og þróast og þörfin fyrir þekkingu og hæfni breytist líka. Nám er alltaf mikilvægt; það að læra eitthvað nýtt. Við lærum svo margt nýtt á hverjum degi sem ekki er endilega kennt í skólum. En við þurfum hæfnina til að vega og meta hvað er mikilvægt á hverjum tíma og hvort sá tími sem við höfum skipulagt í formlegt skólakerfi sé orðinn of stór hluti af lífi barna. Pasi Sahlberg hefur til að mynda bent á mikilvægi leiksins í lífi barna.
Þegar allt kemur til alls þá lítur maður sér nær þegar kemur að því að skoða hvernig ég hef lært það sem ég kann og hvað hefur komið sér best í lífinu. Ósjálfrátt máta ég mig við það sem ég er að reyna að leggja af mörkum inn í skólaumræðuna. Alltaf með barnið að leiðarljósi – barnið í miðjunni og hæfni þess til að skapa framtíð sína og hamingju.
Pabbi
Faðir minn hét Vagn Margeir Hrólfsson og var fæddur árið 1938. Hann var sjómaður og lést fyrir aldur fram við störf sín á sjó aðeins 52 ára að aldri. Pabbi fæddist á Hesteyri í Jökulfjörðum. Hann fluttist þaðan fjögurra ára gamall með foreldrum sínum og ári yngri systur til Ísafjarðar þar sem unga parið hefur líklega ætlað að leita nýrra ævintýra í stærri byggð sem gæti boðið upp á fleiri möguleika, aðallega hvað varðar atvinnu. Það fór þó því miður svo að faðir hans lést í sjóslysi fyrsta vetur fjölskyldunnar á Ísafirði. Pabbi var því sendur aftur norður á Hesteyri til góðs fólks sem annaðist hann. Í skólanum á Hesteyri, sem var gjöf Norðmanna til Hesteyringa, hóf pabbi svo skólagönguna, sjö ára gamall. Það er gaman að segja frá því að Hesteyrarræturnar voru sterkar, því löngu síðar eignuðust þau pabbi og systir hans ásamt mökum sínum skólahúsið á Hesteyri. Það var þegar enginn vildi lengur búa á fegursta staðnum og enginn hafði áhuga á skólanum – nema pabbi. Samt var skólaganga hans líklega sjö vetur allt í allt og lauk að mestu þegar hann var þrettán ára. Mamma sagði mér að þegar þau eignuðust skólahúsið hefði hann sýnt sér hvernig hann hefði skorið nafnið sitt með hnífi í eitt af skólaborðunum sem enn voru í húsinu. Kunnugleg saga. Á veggnum í skólanum hékk einnig kennaravöndur. Þá var þar einnig vaskafat í grind þar sem börnin þvoðu sér um hendurnar. Allt enn á sínum stað.
Móðir hans, amma mín sem ég ber nafnið af, flutti einstæð móðir til Bolungarvíkur með litlu dóttur sína og fékk svo drenginn sinn til sín ári síðar þar sem hann hélt áfram skólagöngunni.
Mamma
Mamma mín, Birna Hjaltalín Pálsdóttir, er fædd árið 1933, fimm árum á undan pabba og er enn í fullu fjöri 88 ára gömul. Hún situr aldrei auðum höndum. Starfaði lengst af sem verslunarmaður með eigin verslun, Binnubúð í Bolungarvík. Búðina opnuðu þau pabbi í einu herbergi í húsinu sínu þegar hann fékk í bakið og gat ekki róið. Þá voru góð ráð dýr, engin veikindaréttindi eða tryggingar sem hægt var að grípa til. hlupu undir bagga. Síðar juku þau umsvifin, byggðu bílskúr, stækkuðu verslunina og færðu hana í bílskúrinn, enda börnin orðin sjö og þörf fyrir öll rými í íbúðarhúsinu.
Mamma hóf sína skólagöngu sjö ára gömul í grunnskólanum í Bolungarvík og var þar til 13 ára aldurs eins og pabbi en þá stóð skólinn frá miðjum október og fram í miðjan maí. En ólíkt pabba, sem fór á vinnumarkaðinn 13 ára gamall, fór mamma einn vetur í framhald sem þá var kallað og eftir það tók við vinna. En hún þráði að læra meira. Með stuðningi góðs fólks við foreldra hennar átti hún þess kost að fara til Reykjavíkur og setjast á skólabekk í Kvennaskólanum. Foreldrar hennar voru verkafólk sem gátu ekki greitt af námi hennar lengur en í tvö ár. Pabbi þráði líka að læra, en það kom aldrei til tals vegna fjárhagsstöðu fjölskyldunnar.
Áherslan á áætlanir og verkferla
Mamma sagði við mig ekki alls fyrir löngu að sér fyndist ómögulegt að börn læri ekki lengur ljóð og texta utanbókar að neinu viti. Þannig væri svo gott að læra íslenskuna og svo gaman að kunna falleg kvæði og söngva.
Á þessum tíma var skrifræðið ekkert að flækjast fyrir. Það var ekki eins gríðarlegt og það er í dag. Höfum við gengið til góðs í þeim efnum?
Í þeim skólum sem foreldrar mínir gengu í var hvorki gerð áfallaáætlun né eineltisáætlun. Það þurfti ekki að gera starfsáætlun, umbótaáætlun eða óveðursáætlun. Heldur ekki móttökuáætlun fyrir börn með sérþarfir. Ekki heldur starfsþróunaráætlun eða móttökuáætlun fyrir nýja nemendur. Engin áætlun um innra mat eða stefna í agamálum. Heldur ekki rýmingaráætlun eða þróunaráætlun eða hvað þetta heitir nú allt saman. Orðið verkferill var líklega ekki til. Í dag eru til verkferlar um nánast alla þætti skólastarfs. Aðkoma lögfræðinga að skólastarfi þekktist ekki og starfsheitið þroskaþjálfi var ekki til.
Í þessum skólum þekktist hvorki hvorki teymisvinna né athyglisbrestur. Ekki heldur ofvirkni (sem hugtak) eða skólaforðun, núvitund, nýsköpunarfræði eða mótþróaþrjóskuröskun.
Ef börn urðu ekki læs var leitað til ömmu og afa eða annarra fjölskyldumeðlima til að sinna heimalestri barna. Það var mikilvægast að kunna að lesa.
Hagnýting handverkskunnáttu
Hann pabbi minn kunni svo ótrúlega margt. Og öll verk fórust honum vel úr hendi. Hann kunni að flísaleggja, klippa hár, múra, dúkleggja og splæsa net. Hann kunni líka að slægja, beita, veiða fisk og spila á harmoníku. Og svo lærði hann að reka útgerð og byggja hús, bara með því að gera það. En þá voru heldur ekki alls konar eftirlitskerfi eða verndun starfsheita til. Hann var reyndar ótrúlega góður í stærðfræði og svo kunni hann að beita íslenskunni fallega, og skrifaði einstaklega vel. Hann byggði fjölskylduhúsið. Þau keyptu hústeikningu frá Bændasamtökunum og pabbi teiknaði bara sjálfur hæðina ofan á, því hann ætlaði sér að eignast mörg börn. Mamma segir að þau hafi sjö sinnum reynt að eignast tvíbura, en ekki gengið! En hópurinn fæddist á tólf ára tímabili sem var nú ágætt. Síðast en ekki síst kunni hann bara ágætlega að ala upp börn sem hann smitaði bæði af sköpunargleðinni og tónlistinni svo um munaði.
Þá er kunnátta og færni mömmu minnar ekki síðri. Í samtali mínu við mömmu nýlega kom ýmislegt fram. Hún hefur enn sterkar skoðanir þrátt fyrir háan aldur og hefur haft tíma til að fylgjast ágætlega með skólagöngu barnabarnanna þó lítinn tíma hafi hún haft til stuðnings við nám okkar systkinanna sjö, hópsins sem þau pabbi komu til manns. Það var nóg að gera í öðru, enda lengi vel ekki til rafmagnsþvottavél, þurrkari, uppþvottavél sem létti verkin, að ekki sé nú talað um ryksuguróbóta, kaffivél eða annars konar tæknibúnað.
Hún kann að skrifa frábæran texta, rak eigið fyrirtæki í 25 ár. Hún saumar og prjónar og er sífellt að tileinka sér nýja hluti. Hún notar GSM og Facebook og tekur þátt í þjóðfélagsumræðu sem hún fylgist vel með. Hún hefur verið dugleg að leggja til samfélagsins í gegnum félagsstörf ýmiskonar og hefur tekið þátt í pólitík. Og svo var það uppeldið. Því hafði hún alla tíð gaman að sem skipti máli með stóran barnahóp.
Hún hefur spurt spurninga um skólann og jafnvel tekið stórt upp í sig. „Börn vita ekki rassgat“, sagði hún. „ Þau kunna eitthvað á tæknina en alltof lítið af svona almennri þekkingu á lífinu sjálfu. Veit ekki hvað þau kunna sem við kunnum ekki. Stærðfræði hefur breyst svo mikið, mikið komið inn í grunnskólanámið í stærðfræðinni frá því við vorum í skóla. Er ekki nóg að kunna að leggja saman, draga frá, margfalda og deila fyrir allan almenning? Mér finnst vanta mikið inn í kerfið. Fólk þarf ekki að hugsa eins mikið, svo rekur það sig á ef eitthvað er. Ef þarf að taka á einhverju þá koma pabbi og mamma og grípa inn í og taka af ómakið“, sagði hún og hélt áfram. „Maður sér ekki mikið af börnunum að gengið sé í húsverkin eða önnur almenn verk. Krakkar fá alltof mikið upp í hendurnar. Áður voru engin kerfi sem gripu mann, maður lærði að bjarga sér. Það voru hvorki til atvinnuleysisbætur, veikindaréttindi né örorkubætur.“
Fyrirmyndir
Fyrirmyndir, eins og í mínu tilviki foreldrar mínir, skipta máli. Fjölskyldan skiptir máli. Fjölskyldueiningin er mikilvæg hverju samfélagi. Hún er grunnstoðin stendur einhversstaðar. Ég tek undir það. Þess vegna þarf að styðja fjölskyldur betur. Tala um mikilvægi þeirra. Enn eitt nýyrðið í skólaumræðunni er hugtakið tengslarof. Hvað þýðir það og hvað gerum við í því? Samfélagsleg endurskoðun með fjölskylduna og skólann sem tvo lykilstólpa samfélagsins þarf að fara fram. Einhvers konar samfélagssáttmáli þarf að verða til. Þar sem er barn, þarf allt að vera best! Börnin eru framtíð hvers tíma. Mikið hefur verið rætt um hlutverk skólans í uppeldi barna og fagstéttir innan skólans hafa bent á að skil milli ábyrgðar heimilis og skóla hafi máðst. Áhugavert er að skynja að svo virðist sem þessi hlutverk hafi skýrst á Covid tíma. Eftir að aðgangur foreldra að skólunum var skertur og kennarar segjast verða fyrir minna áreiti foreldra, virðast samskiptin vera að þróast til betri vegar og fagmennska kennarans á vettvangi nýtur meiri virðingar. Þá hafa kennarar verið á fullu að þróa teymiskennslu sem styður mjög við faglegar ákvarðanir um skólastarfið og festir fagmennsku þeirra enn frekar í sessi. Þetta er auðvitað bara mín tilfinning en ekki rannsóknarniðurstaða.
Skólagangan mín, minna barna og þeirra barna
Grunnskólaganga mín var lengri en foreldra minna og grunnskólaganga barnanna minna varð lengri en mín. Grunnskólaganga þeirra barna er svo enn lengri. Hvar enda þetta? Og verða þessi börn, sem nú eru í skólakerfinu, betur undir það búin að gera heiminn betri heldur en foreldrar þeirra, ég eða foreldrar mínir? Það er auðvitað alltaf stóra spurningin. En eitt er víst að úrlausnarefni kynslóðarinnar sem nú situr í grunnskólanum verða að öllum líkindum stærri og flóknari heldur en fyrri kynslóða. Það er bókstaflega spurningin um að virkja öll skilningarvit, allan sköpunarkraft, alla þekkingu og alla samvinnu til að bjarga jörðinni!
Og talandi um kerfin
Í dag er byggt og byggt og byggt. Við keppumst við að vinna langa vinnudaga til að kaupa fokdýrt húsnæði. Við keppumst við að koma einstaklingnum nánast frá getnaði inn í kerfin; ungbarnaleikskóli, dagforeldri, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli, aftur og aftur háskóli, vinnustaðurinn, íþróttafélögin, öll hin félögin og að lokum elliheimilið. Svo koma allir þreyttir heim og nota herlegheitin (heimilið) sem þeir eru að vinna fyrir allan daginn, í nokkra klukkutíma. Svo eru margir að drepast úr kvíða, áhyggjum, álagi, stressi og jafnvel kulnun. Þá höfum við allskonar kerfi sem grípa. Eru það þá réttu kerfin? Liggur ekki einhver samfélagsskekkja þarna?
Við í skólakerfinu höfum fengið ýmislegt í fangið sem hefur fylgt samfélagsþróuninni. Ég held að við séum mörg sammála um það, sem erum orðin eldri, að það sé nauðsynlegt að spyrja gagnrýninna spurninga um hvort við séum á réttri leið. Lenging skóladagsins, lenging skólaársins og ekki síst um hvað skuli kenna. Erum við á réttri leið með þetta allt? Er ef til vill nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur á tímum eftir stærstu áskorun á okkar tímum, Covid 19, að endurskoða þörfina fyrir hvers konar nám og þekking, hæfni og færni þarf að vera til staðar? Í raun eru þetta þeir þrír grunnþættir sem ættu að vera þráðurinn í öllu námi.
- Tengslin við okkur sjálf og bjargir í daglegu lífi
- Tengslin við náttúruna og ábyrg umönnun hennar
- Tengslin við hvert annað og heiminn, mannkynið
Er okkur ekki óhætt að fara að spyrja börnin þessarar einföldu spurningar: Hvað viltu læra elskan mín og hvernig get ég stutt þig í því? Börn sem hafa aðgengi að gríðarlegu magni upplýsinga og fræðslu hafa jafnvel mótað sér skoðanir á mönnum og málefnum, á því hvað þau vilja gera í framtíðinni og hvar þau vilja reyna að hafa áhrif. Það er greinilegt að yngri kynslóðir láta sig loftslagsmálin varða og þau standa í mótmælaaðgerðum þegar kemur að mannréttindamálum. Er okkur ekki óhætt að hlusta meira á hvað þau hafa fram að færa?
Að lokum – tengingin við nám, innan skóla og utan. Ég hef áttað mig á því að allt það sem hefur reynst mér best í lífinu er komið frá sambýlinu við foreldra mína og systkin og uppeldisaðstæður í Bolungarvík. Það veganesti hefur nýst mér í gegnum lífið, í meðbyr og mótlæti. Nám innan skólakerfisins hefur auðvitað víkkað sjóndeildarhringinn og aukið þekkingu á einu og öðru, en þegar allt kemur til alls er það kjarninn í uppeldinu, leiknum, ágreiningnum, sköpuninni og gleðinni í systkinahópnum og nálægðin við náttúruöflin og atvinnulífið í þorpinu sem lagði grunninn. Veganestið var lífsgleði, frelsi, sjálfsbjargarviðleitni, hugmyndasköpun, hjálpsemi, virðing, frumkvæði, dugnaður, seigla, félagsfærni, samfélagsleg hugsun, heiðarleiki, samkennd, forvitni, ævintýraleit, að fylgja hjartanu og síðast en ekki síst, tónlistin.
Grein II fjallar um ástríðuna og þörfina fyrir að hlusta á nemendur.
Heimildir
Sahlberg, P. og Doyle, W. (2019). Let the children play. How more play will save our schools and help children thrive. New York: Oxford University Press.
Soffía Vagnsdóttir er skrifstofustjóri fagskrifstofu grunnskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hún útskrifaðist sem tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983, lauk árið 2013 meistaranámi í menningarstjórnun frá háskólanum á Bifröst og meistaranámi í Evrópufræðum frá sama skóla árið 2019. Hún hefur starfað sem kennari og skólastjóri, var fræðslustjóri á Akureyri í tæp fjögur ár en hefur síðustu þrjú árin starfað hjá Reykjavíkurborg.
Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.
Grein birt: 7/2/2021