Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Hafsteinn Karlsson
Í upphafi aldarinnar var mikil gerjun í skólastarfi. Sveitarfélögin höfðu nýlega tekið við rekstri grunnskólanna af ríkinu og víðast hvar var mikill metnaður og áhugi heimamanna á að gera skólana sína sem besta. Í Reykjavík var t.a.m. markvisst umbótastarf í gangi þar sem lagt var upp með einstaklingsmiðað og fjölbreytt skólastarf. Kennaraháskólinn var kominn vel af stað með sérstakt framhaldsnám fyrir skólastjórnendur með áherslu á faglega forystu skólastjórnenda í sínum skólum og mikilvægi þess að starf hvers skóla byggi á skýrri hugmyndafræði. Meistaranám í kennslufræðum hafði einnig fest rætur. Fjölgreindakenning Gardners var á hvers mann vörum og bók Thomasar Armstrongs um hana kom út í íslenskri þýðingu Erlu Kristjánsdóttur árið 2001. Hún opnaði augu margra kennara fyrir mikilvægi fjölbreytts skólastarfs. Einnig voru hugmyndir um samfellu skóla- og frístundastarfs, umhverfismál, jafnréttismál og möguleikar upplýsingatækninnar í námi og kennslu ofarlega á baugi. Þá voru gerðar tilraunir til að stokka upp kjarasamninga kennara m.a. í því skyni að auka möguleika á faglegu samstarfi og samvinnu kennara við undirbúning og skipulagningu náms.
Salaskóli var stofnaður árið 2001 og hann spratt því upp úr þessum frjósama jarðvegi. Eins og í öðrum skólum sem fóru af stað um svipað leyti, var mikill hugur í starfsfólki að byggja upp skólastarf sem hvíldi á hugmyndum um einstaklingsmiðað nám og fjölbreytt skólastarf. Nú eru tveir áratugir liðnir frá stofnun hans og því er fróðlegt að horfa til baka, skoða hugmyndafræði, skólaþróun og umbótastarf í skólanum á þessum tíma. Hvaða hugmyndir náðu flugi, hverjar lentu utangátta og hvað situr eftir í skólastarfinu í dag. Það er efni þessarar stuttu greinar og rétt er að hafa í huga að sá er hér heldur á penna er engan veginn óhlutdrægur í þessari umfjöllun, enda hefur hann stýrt skólanum frá upphafi.
Engum ofaukið, fyrsta starfsárið markaði leiðina
Fyrsta starfsárið var skólinn fámennur. Nemendur voru 76 í 1.–4. bekk og starfmenn 16 og níu þeirra kennarar. Skólinn bjó við góðar aðstæður í glænýjum fyrsta áfanga skólabyggingarinnar. Stutt var út í ósnortna náttúru og umhverfið að mörgu leyti ævintýralegt. Strax í upphafi var hafist handa við að móta stefnu og hugmyndafræði skólans. Þessi fámenni og áhugasami hópur starfsmanna fundaði, ræddi málin og lærði saman, en e.t.v. var þó umræðan frjóust í kennsluhléum í hinni litlu og notalegu kaffistofu skólans. Þar sátu allir við sama borðið og létu gamminn geysa. Þar voru málin leyst og þar urðu til góðar hugmyndir. Starfsfólkið kom úr ýmsum áttum og hver og einn bjó yfir þekkingu og reynslu sem skipti máli. Stundum litu fræðimenn inn, sögðu frá rannsóknum sínum og kynntu það sem efst var á baugi í alþjóðlegri skólamálaumræðu. Síðast en ekki síst voru foreldrar hvattir til að leggja eitthvað til málanna á sérstökum umræðu- og vinnufundum. Til að virkja alla skrifuðu þeir á miða það sem þeim þótti gott við skólann, það sem mátti bæta og það sem þeir vildu að yrði gert í skólanum.
Í stuttu máli var niðurstaðan sú að byggja skólastarfið að nokkru leyti á gömlum hefðum og gildum sem reynst höfðu vel í skólastarfi, en ekki síður á hugmyndum um einstaklingsmiðað og fjölbreytt nám, auk þess að horfa til nýjustu rannsókna á sviði skóla- og uppeldismála. Leiðarljós skólans var að koma til móts við sérhvern nemanda, horfa til styrkleika þeirra og mæta þeim eins og þau eru. Þeim átti að líða vel, njóta sín í skólanum og finnast þeir velkomnir. Þar væri engum ofaukið. Sama gilti líka um starfsfólkið.
Kapp var lagt á fjölbreytni í námi og kennslu og að ekki þyrftu allir nemendur að bauka í sömu hlutunum. Bekkir voru aldursblandaðir, m.a. í því skyni að undirstrika að fremur ætti að mæta nemendum með tilliti til þroska og áhuga en aldurs. Kennararnir unnu saman í teymum við undirbúning og skipulagningu náms. Teymisvinna var að ryðja sér til rúms um þessar mundir og ýtti undir margs konar samstarf kennara. Þeir sem kenndu sömu árgöngum deildu ábyrgð á sínum hópum og ræddu saman um aðferðir og möguleika í kennslunni. Þeir skiptu milli sín verkum í einhverjum tilvikum og stöku sinnum kenndu þeir hópum saman eða blönduðu nemendum úr mismunandi hópum þó að algengast væri að hver kennari væri með sinn hóp. Þeir undirbjuggu sig fyrir kennsluna í skólanum með samstarfsfólki sínu og fóru ekki með vinnu með sér heim. Skil á milli vinnu og einkalífs urðu því skarpari en kennarar áttu almennt að venjast. Það er óhætt að segja að teymisvinna sé einn af stóru þáttunum í þróun skólastarfs í Salaskóla og hafi markað ákveðin skil í faglegu starfi kennara og vinnuumhverfi þeirra.
Umhverfismál voru á þessum tíma ofarlega í huga starfsfólks, sorp var flokkað sem tíðkaðist ekki á þeim tíma og m.a.s. var smíðaður forláta safnkassi á skólalóðinni fyrir lífrænan úrgang. Í stað þess að senda foreldrum skilaboð á pappír, fengu þeir tölvupóst með nauðsynlegum upplýsingum. Það var nýnæmi á þessum tíma enda voru heimili alls ekki öll komin með nettengingar. Í skólahverfi Salaskóla, sem var nýbyggt, reyndust flest heimili tengd sem gaf færi á þessari leið. Tónlistarkennsla var í samstarfi við Tónlistarskóla Kópavogs og allir nemendur í 1. og 2. bekk tóku forskóla tónlistarskóla í náminu í Salaskóla. Skák var í hávegum höfð, töfl á víð og dreif um skólann og nemendur gátu setið að tafli hvort sem var í skólastofum eða á göngum. Þar sem engin aðstaða var til smíðakennslu unnu nemendur ýmis verkefni með legókubbum. Sett var upp vísindamiðstöð þar sem nemendur gátu prófað sig áfram með ýmislegt og gert tilraunir. Skólinn fékk viðurkenningu frá Samtökum iðnaðarins fyrir þessa hugmynd. Gerðar voru tilraunir með skriflegt námsmat sem einkenndist af jákvæðni og hvatningu. Þar voru styrkleikar hvers nemanda dregnir fram, ekki bara í náminu, heldur ýmsu öðru, s.s. í samskiptum, áhugamálum og daglegu lífi. Mikið var lagt upp úr góðu samstarfi við foreldra, haldnir vinnufundir með þeim, gefin út fréttabréf, tölvupóstlistar nýttir í samskiptum ásamt mjög virkri heimasíðu. Ekki voru sérstakir viðtalsdagar eða viðtalstímar fyrir foreldra, en þeim boðið upp á viðtöl við kennara eftir kennslu þegar þeim hentaði. Þess má geta að á þessu fyrsta starfsári skólans flutti skólastjóri áramótaávarp þar sem hann ræddi áherslur í skólastarfinu og hvað hann teldi skynsamlegt að gera í framhaldinu. Þetta var hugsað sem liður í faglegri leiðsögn og forystu sem er svo mikilvæg í skólastarfi. Þessi siður hefur haldist nær óslitið síðan.
Frjóar samræður og indælis erill í áranna rás
Á öðru starfsári skólans fjölgaði nemendum umtalsvert. Þrír eldri árgangar bættust við og nemendafjöldinn nálgaðist 200 í 1.–7. bekk. Starfsfólki fjölgaði að sama skapi. Verkefnin urðu fleiri, skipulag flóknara og erillinn jókst. Ekki var gefið að það sem gekk vel í fámenninu fyrsta árið gengi jafn vel með fleiri nemendum. Til að bregðast við því var sótt um styrk í Þróunarsjóð grunnskóla fyrir þetta skólaár. Sjóðurinn veitti styrk til verkefnisins „Nýr skóli á nýrri öld“ sem gekk út á að þróa áfram það sem þegar var farið af stað og stuðla enn frekar að því að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda með nýjum verkefnum.
Við undirbúning skólaársins voru miklar vangaveltur um list- og verkgreinakennslu, bæði skipulag og hvernig hægt væri að mæta þeim nemendum sem sýndu sérstakan áhuga og styrkleika á einhverju sviði. Að endingu var ákveðið að kenna list- og verkgreinar og reyndar ýmsar aðrar greinar samkvæmt skipulagi sem nefnt var smiðjur. Í hverri smiðju voru 12 nemendur að hámarki úr tveimur til þremur árgöngum. Fyrstu smiðjurnar voru handverkssmiðjur, legósmiðja, skáksmiðja, myndlistarsmiðja, umhverfissmiðja, valsmiðja, fjölsmiðja, blandaðar smiðjur og leiklistarsmiðja. Hver smiðja var u.þ.b. tvær kennslustundir tvisvar til þrisvar sinnum í viku í sex vikur. Eftir það skiptu nemendur um smiðju. Einnig gátu þeir valið um smiðjur. Þetta ár kviknaði hugmyndin um fjölgreindaleika sem haldnir voru í fyrsta skipti vorið 2003 og hafa verið haldnir óslitið síðan.
Reglulegir fundir með öllum foreldrum héldu áfram og rætt um ýmis mál tengd skólastarfi og uppeldismálum. Áfram var leitað eftir viðhorfum þeirra með því að allir skrifuðu á sérstakt blað það sem þeim fannst um skólastarfið. Á þessum fundum og í tali gesta kom oft fram að það væri einkar gott og notalegt andrúmsloft í skólanum. Foreldrar mættu nánast allir á fundi fyrstu árin en fjórða árið fór að draga úr mætingu. Fundirnir voru orðnir fjölmennir og ópersónulegir og það dró úr áhuga foreldra. Í janúar 2005 ákváðu stjórnendur í staðinn að bjóða foreldrum hverrar bekkjardeildar í morgunkaffi. Eins og við manninn mælt varð mæting í morgunkaffið gríðarlega góð og hefur verið allar götur síðan. Nú er foreldrum hvers árgangs boðið saman í morgunkaffi og reynist það einnig mjög vel.
Árin liðu og nemendum og starfsfólki fjölgaði hratt. Starfið í Salaskóla var áfram reist á þeim grunni sem byggður var fyrstu tvö árin. Skólahúsið var í byggingu til ársins 2009 og því í nógu að snúast hjá stjórnendum skólans. Við þessar aðstæður er hætta á að dægurmálin taki allan tíma stjórnenda og los komi á faglega forystu. Svo sannarlega komu slík tímabil í Salaskóla. Þá skiptir máli að kennarar vinni saman í teymum, kennarafundir séu nýttir í faglega vinnu og gæða endurmenntun í boði fyrir kennara. Kennarafundir í Salaskóla hafa gjarnan verið umræðufundir með einhvers konar kaffihúsafyrirkomulagi. Þar hefur starfið verið brotið til mergjar og horft fram á veginn. Kosturinn við þessa aðferð er að öllum gefst kostur á að taka virkan þátt í að móta og þróa skólastefnuna og hún verður því sameign þeirra sem vinna eftir henni.
Umræða um skipulag, stefnu og aðferðir var frjó og nærandi. Stundum komu sérfræðingar og lögðu til málanna, stundum gerði einhver kennarinn það. Og stundum var tekist á. Slíkt er bæði mikilvægt og nauðsynlegt í skólaþróunarvinnu. Nokkuð var t.d. tekist á um samkennslu aldurshópa. Gagnrýni á hana kom frá foreldrum en ekki síður frá kennurum, einkum yngri barnanna, sem töldu að erfiðara væri að sinna þeim með þessu fyrirkomulagi. Umræðan náði hámarki á sjötta starfsári skólans og í kjölfar hennar var ákveðið að hverfa frá samkennslu með aldursblönduðum bekkjum, en halda henni áfram í þemaverkefnum einu sinni í viku. Samkennslan fjaraði þó út á frekar skömmum tíma.
Skin og skúrir í þróunarvinnu
Fræðsla og endurmenntun eru ómissandi þættir í skólaþróunarstarfi. Sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa komið með innslög á kennarafundum, haldið stutt námskeið, kynnt nýjar rannsóknir eða unnið með kennurum í ákveðnum verkefnum. Þá hefur verið fast samstarf við Háskólann á Akureyri um námskeið í Byrjendalæsi og „Orð af orði“. Stundum hafa komið fræðimenn með erindi sem sjaldan rata inn í endurmenntun kennara, s.s. um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs eða stéttskiptingu á Íslandi. Þau hafa jafnan vakið mikla umræðu og athygli innan skólans. Síðast en ekki síst hafa kennarar skólans miðlað sín á milli og sagt frá því sem þeir eru að gera í sinni kennslu, sagt frá skólaheimsóknum eða frá námskeiðum sem þeir sóttu.
Kennarar þurfa að geta nýtt hluta af vinnutíma sínum til að einbeita sér af krafti að þróunarvinnu í stað þess að taka þann tíma frá daglegum skyldum. Vinnan verður markvissari og líklegri til að skila meiri árangri en ella. Á tuttugu árum hefur Salaskóli fengið alls 8,5 milljónir kr. í styrki til níu þróunarverkefna frá Þróunarsjóði grunnskóla og Sprotasjóði. Auk þess hefur Endurmenntunarsjóður veitt skólanum um 3,5 milljónir kr. frá árinu 2010. Í einu tilviki var leitað til fyrirtækja eftir styrkjum til verkefnis og fengust þar um 600 þúsund krónur. Þá hefur foreldrafélagið kostað uppsetningu á hljóðveri í skólanum sem nokkrir nemendur komu svo sjálfir upp. Þó svo að þetta séu ekki stórar upphæðir þá skiptir þessi peningur máli og er hvatning til kennara og skólastjórnenda til að sinna skólaþróunarverkefnum. Góð stjórnun þróunarverkefna er afar þýðingarmikil og sá sem tekur hana að sér þarf að hafa góða þekkingu og hæfni til að halda utan um og stýra verkefnum auk tíma til að sinna því. E.t.v. er kominn tími á að skólar komi á starfi þróunarstjóra til að sinna þessum verkefnum.
Flest verkefnanna sem fengu styrk skiluðu góðum árangri og hafa stutt við og styrkt stefnu skólans. Þar má nefna verkefnið „Nýr skóli á nýrri öld“ sem unnið var á öðru starfsári skólans og fjallað var um hér á undan. Á tíu ára afmæli skólans fékk skólinn styrk til verkefnis um þemavinnu á unglingastigi. Þemavinna fékk stað í vikulegri stundatöflu nemenda, þar sem þeir unnu saman að stórum þverfaglegum verkefnum undir stjórn umsjónarkennara. Allar götur síðan hefur þemavinna verið á stundaskrá nemenda og frekar eflst með árunum en hitt. Nokkru síðar fengu verkefnin „Rafrænn skóli, nútímaskóli“ og „Notum það sem til er, vinnum saman hvar sem er“ styrk. Spjaldtölvur, símar og önnur snjalltæki voru markvisst nýtt í námi og kennslu í unglingadeild. Glögglega sýndu þessi verkefni að snjalltækin eru gott verkfæri til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Þeir fengu í hendur námstæki sem nýttust til upplýsingaöflunar, skipulagsvinnu og fjölbreyttrar úrvinnslu verkefna. Horft var til þessara verkefna þegar ákveðið var að spjaldtölvuvæða alla skóla í Kópavogi árið 2015. Árið 2018 fékkst styrkur til verkefnisins „Beint í mark“ sem er forvarnarverkefni gegn skólaforðun. Þetta verkefni er orðið fastur og ómissandi hluti af skólastarfinu og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þá nemendur sem taka þátt í því hverju sinni. Metnaðarfullt verkefni í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt var unnið á miðstigi skólaárið 2016–2017. Það skildi eftir sig nýsköpunar- og tækniver sem nýtur mikilla vinsælda í skólanum. Hluti af þessu verkefni var fjármálafræðsla sem m.a. fólst í því að sett var upp líkan af bæjarfélagi þar sem nemendur lærðu af leik hvernig á að vinna sér inn pening og vera fullgildur þátttakandi í samfélagi. Það var nokkuð dýrt í uppsetningu og hefur því ekki verið gert aftur. En hugmyndin lifir og áhuginn er enn til staðar enda var verkefnið firna gott.
Skólinn hóf þátttöku í Byrjendalæsisverkefninu í samstarfi við Háskólann á Akureyri árið 2012. Það festi sig í sessi og háskólinn hefur haldið utan um það og stutt vel við bakið á kennurunum. Einnig má nefna ýmis verkefni tengd sérkennslu, verkefni í námsmati að ógleymdum öllum þessum smáu verkefnum sem margur kennarinn nostrar við í rólegheitum í sinni kennslu. Rétt er að hafa í huga að í skólum er yfirleitt í gangi ýmis konar þróunarstarf sem einstakir kennarar, kennarahópar eða starfsmenn standa að án þess að fá til þess styrki. Dæmi um slíkt er merkilegt þróunarverkefni sem unnið var í skólanum af kennurum 5. og 6. bekkja og hófst árið 2004. Þeir gerðu tilraunir í námsmati sem sem snérust um svokölluð samvinnupróf annars vegar og einstaklingsmiðuð próf og prófavikur hins vegar. Próf þessi voru m.a. sniðin að ólíkum þörfum nemenda og því í anda einstaklingsmiðaðs náms. Samvinnuprófin leystu nokkrir nemendur saman og þegar þeir mættu í próf fengu þeir að vita með hverjum þeir tækju prófuð. Einstaklingsmiðuðu prófin voru samin í þremur styrkleikaflokkum og öll voru þau í samræmi við markmið annarinnar. Þau voru lögð fyrir í lok annar og voru því nokkurs konar lokaverkefni. Í upphafi prófaviku fengu nemendur öll prófin sem þeir áttu að taka og höfðu eina klukkustund á dag alla vikuna til að leysa prófin og máttu gera það í þeirri röð sem þeim hentaði. Verkefnið vakti athygli og margir skólar tóku þau upp í kjölfarið.
Í þróunarvinnu er það alltaf svo að ýmis verkefni, sem farið er af stað með og hafa jafnvel fengið styrki, ná ekki flugi eða mistakast. Salaskóli hefur ekki farið varhluta af því og nefna má verkefnin „Samvinnubekkir og samstarf kennarar í 1. – 7. bekk“ og „Ritun og jafningjaráðgjöf“ en bæði fengu þau styrk frá Sprotasjóði. Hið fyrra fór af stað eftir að horfið var frá samkennslu árganga. Það skilaði sér vissulega í góðu faglegu samstarfi kennara í mismunandi árgöngum meðan á því stóð en í sjálfu sér ekki til lengri tíma. Hið síðara var mjög bundið kennurum sem að því stóðu og hélt ekki áfram eftir að þeir hurfu til annarra verkefna. Einnig er rétt að nefna utanaðkomandi verkefni sem skólinn tók þátt í um hríð eins og verkefni gegn einelti og verkefni sem snéri að umhverfismálum. Þau áttu góða samleið með skólanum í nokkur ár en svo skildu leiðir. Í Salaskóla hefur reyndin verið sú að verkefni sem koma annars staðar frá og byggja á ákveðinni stýringu skjóta ekki jafn styrkum rótum og innanhúss verkefnin.
Hvörf í kennsluháttum, spjaldtölvur koma til sögunnar
Haustið 2015 hrinti Kópavogsbær af stað verkefni sem gekk út á að allir nemendur í 5.–10. bekk fengju í hendur spjaldtölvur til að nota í náminu. Fyrr um sumarið fengu kennarar skólanna sams konar tæki í hendur til að nota í kennslu. Þar með hófst viðamikið þróunarverkefni sem hefur þegar haft talsverð áhrif á skólastarf og kennsluhætti í skólum bæjarins. Í fyrstu snérist verkefnið mikið um tækin sjálf, enda mikil ögrun fyrir börn og unglinga að fá í hendur jafn öflugt tæki. Þeir þurftu að læra að umgangast tölvuna og nota hana sem námstæki. Það gekk vonum framar og með tímanum hefur þungi verkefnisins færst af tækinu sjálfu og yfir í breyttar aðferðir í námi og kennslu. Þar reynast spjaldtölvurnar býsna hjálplegar. Öflun upplýsinga, úrvinnsla þeirra og verkefnaskil verða fjölbreyttari en áður og tækið ýtir undir skapandi vinnu og hugsun nemenda. Myndmál og hljóð fær aukið rými svo eitthvað sé nefnt. Eins og áður segir hafði Salaskóli nokkurt forskot þar sem í skólanum hafði verið unnið að tveimur þróunarverkefnum um notkun snjalltækja í kennslu árin áður en spjaldtölvuverkefnið fór af stað. Með innleiðingu spjaldtölvanna verða ákveðin hvörf í kennsluháttum í Salaskóla og að ýmsu leyti verður auðveldara að gæða námið og kennsluna þeirri fjölbreytni sem nauðsynleg er til að mæta ólíkum þörfum nemenda.
Hvernig mætum við þessum nemanda hér?
Ekki er nóg að lög og reglugerðir kveði á um að skólinn sé fyrir alla. Það þarf að koma því í framkvæmd og þar kemur til kasta starfsfólksins í skólunum. Þar verða úrræðin til og lausnirnar á þeim verkefnum sem blasa við. Sérhver skóli þarf mikið sjálfstæði til að skipuleggja starfið og búa til lausnir sem henta í hverju tilviki. Í hverjum skóla er drífandi mannskapur sem býr yfir mikilli hæfni, þekkingu og útsjónarsemi til að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. Í langflestum tilvikum er hægt að leysa öll mál í skólunum sjálfum því þar eru sérfræðingarnir. Bestu úrræðin eru yfirleitt þar. Það á því ekki við að spyrja „af hverju er þessi nemandi ekki einhvers staðar annars staðar?“. Betra er að spyrja „hvernig mætum við þessum nemanda hér hjá okkur?“ Það eru nefnilega viðhorfin sem skipta svo miklu máli í skólastarfi. Í stefnu og starfi hvers skóla þarf rauði þráðurinn að vera umhyggja og virðing fyrir sérhverjum nemanda.
Litið inn í skólann í dag
Á tuttugu árum hefur starf Salaskóla mótast og þróast í takt við þá stefnu sem varð til á fyrstu árum hans. Í dag er skólinn fjölmennur og húsnæðið frekar þröngt. Hvert sem litið er eru nemendur að störfum, í öllum kennslustofum, opnum rýmum og á göngum. Kompur og geymslur hafa breyst í hljóð- eða myndver. Nemendur vinna gjarnan saman í hópum, stórum eða smáum , að margvíslegum verkefnum. Margir eru með spjaldtölvu í höndum og aðrir blýant og bók. Einhverjir eru að vinna í hljóðveri við upptökur á hlaðvarpi eða tónlist, á ganginum hafa aðrir stillt upp stúdíóljósum og eru við myndatökur. Í smiðjunum fást nemendur við margvísleg viðfangsefni, s.s. prjónaskap, fatasaum, smíðavinnu, brauðgerð, myndlist, uppfinningar, viðgerðir, kvikmyndagerð og forritun. Í íþróttamiðstöðinni fá nemendur nauðsynlega útrás fyrir hreyfingu og læra að beita líkamanum rétt. Þverfagleg vinna er hluti af vikulegri vinnu fjölmargra nemenda og þar glíma þeir við krefjandi og fjölbreytt viðfangsefni með hópi skólafélaga. Nemendur fá jógatíma einu sinni í viku. Í salnum syngja nemendur saman, æfa leikrit eða dans.
Í upphafi greinarinnar var spurt hvaða hugmyndir náðu flugi, hverjar lentu utangátta og hvað situr eftir í skólastarfinu í dag. Þessum spurningum hefur verið svarað í greininni. Skólaþróun gengur út á að fara nýja leiðir, ótroðnar slóðir. Stundum reynast þær betri en stígarnir sem fyrir eru, stundum ekki. Þannig hefur það líka verið í Salaskóla, flest verkefnin hafa skilað sér í betra starfi. Enn er leiðarljósið það sama og fyrir tuttugu árum; að koma til móts við þarfir nemenda eins ólíkir og þeir eru. Horft er til styrkleika þeirra og reynt af öllum mætti að mæta þeim eins og þeir eru. Lagt er upp úr jákvæðum viðhorfum í garð allra nemenda og passað upp á að allir séu velkomnir og engum ofaukið.
Hafsteinn Karlsson er skólastjóri Salaskóla. Hann réð sig fyrst til kennslu skólaárið 1979–1980 og var þá í miðju BA námi í íslensku og sagnfræði. Heillaðist af starfinu, kláraði námið og bætti við kennslufræðinni. Var grunnskólakennari frá 1981 til 1986. Tók við starfi skólastjóra Villingaholtsskóla 1987 og var þar í níu ár. Réð sig þá til Selásskóla í Reykjavík næstu fimm árin og tók svo við Salaskóla þegar hann var stofnaður og hefur stýrt honum allar götur síðan. Hann er með meistarapróf í stjórnun menntastofnana frá KHÍ og er meistaraprófsverkefni hans rannsókn á kennsluháttum í íslensku og finnskum grunnskólum. Hafsteinn hefur skrifað handbækur um móðurmálskennslu, upplýsingatækni og jafnrétti. Hann var um nokkurra ára skeið formaður Samtaka fámennra skóla.
Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.
Grein birt: 29/1/2021