Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Lestrarlíkanið DRIVE: Aðgengileg sýn á margslungið eðli lestrar

í Greinar

Auður Björgvinsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir

 

Sumarið 2019 birtust tvær greinar í The Reading Teacher þar sem fjallað er um svokallað DRIVE líkan. Höfundar greinanna eru Kelly B. Cartwright og Nell K. Duke en þær hafa báðar verið mjög virkar á sviði lestrarrannsókna og eru meðal virtustu fræðimanna í Bandaríkjunum á sviði læsis. Í fyrri greininni fjalla höfundar líkansins um líkanið sjálft en með því er gerð tilraun til að draga upp einfalda mynd af þeim fjöldamörgu margslungnu og samofnu þáttum sem leiða til árangursríks lestrar. Í seinni greininni fjalla þeir um kennslufræðilegt gildi og áhrif sem líkanið kann að hafa á stefnumörkun varðandi lestrarkennslu. Guðbjörg R. Þórisdóttir og Auður Björgvinsdóttir, læsisráðgjafar hjá Menntamálastofnun, fengu leyfi hjá höfundum og Alþjóðlegu læsissamtökunum (International Literacy Association) til að nýta efni beggja greinanna þar sem þær töldu að efni þeirra geti varpað ljósi á hið flókna ferli og aðgerðir sem lestur felur í sér. Jafnframt fékkst leyfi til að útbúa nýja skýringarmynd byggða á líkaninu sem getur nýst við að útskýra lestrarferlið fyrir fagfólki, foreldrum og nemendum.

Til að ná fram skýrri heildarmynd varðandi inntak og þýðingu líkansins, og til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar endurtekningar, er efni beggja greinanna tekið hér saman í eina umfjöllun. Í fyrstu er fjallað almennt um líkanið en að því búnu er fjallað um fjóra lykilþætti líkansins og undirþætti þeirra. Lykilþættirnir fjórir eru: Tilgangur lestrar, textar, lesari og lestrarsamhengi. Á skýringarmyndinni má sjá hverjir undirþættirnir eru en jafnframt er fjallað ítarlegar um þá um miðbik samantektarinnar. Að lokum fjalla höfundar um þýðingu líkansins fyrir stefnumörkun og kennsluhætti þar sem þeir hvetja til þess að tekin sé upp víðari sýn á læsi og hugað vel að öllum þáttum þess við stefnumótun, námskrárgerð og kennslu.

Yfirlit yfir DRIVE líkanið

Sjá stærri mynd í niðurlagi greinarinnar eða með því að smella á þessa mynd.
Sjá stærri mynd í niðurlagi greinarinnar eða með því að smella á þessa. Böðvar Leós Jónsson teiknaði myndina.

Skammstöfunin DRIVE stendur fyrir „deploying reading in varied environments“ sem gæti útlagst „beiting lestrar í margvíslegu umhverfi“. Í líkaninu er dregin upp hliðstæða með akstri og lestri þar sem vegirnir tákna textana, ökumaður og akstur ökutækis tákna þann sem les eða lesarann og þau margþættu hugrænu ferli og þá tækni sem hann beitir við lestur. Aksturssamhengi (tilgangur ferðar, skilyrði og áfangastaður) er líkt við samhengið sem lesturinn á sér stað innan (tilgangur, aðstæður og menning). Í grein sinni vísa höfundar til annarra líkana sem hafa leitast við að útskýra lestrarferlið og nefna þar til sögunnar hið einfalda lestrarlíkan Goughs og Tummer frá 1986 (e. The simple view of reading), reipislíkan Scarboroughs frá 2001 (e. The rope model) og fjögurra leiða líkan Freebodys og Lukes frá 1990 (e. The four resources model). Höfundar benda á að einföld líkön geta verið gagnleg og hagnýt en þau geta einnig leitt til fullmikillar einföldunar við stefnumörkun og í kennslu.

Rannsóknir gefa til kynna að margir afmarkaðir ferlar eigi sér stað í huga okkar þegar við lesum og einnig að ýmsir þættir hafi áhrif á þessa ferla. Líkan sem nær til margra samvirkandi ferla og áhrifaþátta eykur líkur á að fagfólk innan greinarinnar öðlist dýpri skilning á eðli lestrar og það leiðir til upplýstari og skilvirkari stefnumörkunar og kennsluhátta. Til að þessi markmið náist verður líkanið að vera nægilega aðgengilegt og hagnýtt.

Mikilvægt er að taka fram hvað DRIVE líkaninu er ætlað og ekki ætlað að gera. Þetta er ekki líkan sem lýsir því hvernig einstaklingar tileinka sér lestur heldur því sem gerist við lestur. Þetta er heldur ekki lestrarkennslulíkan þar sem lögð er áhersla á að allir nemendur læri öll atriði líkansins eða að leggja beri jafna áherslu á þau í kennslu. Líkanið lýsir fyrst og fremst því sem gerist þegar lesið er.

Lykilþættir líkansins

Í DRIVE líkaninu er gert ráð fyrir því að lesarinn sé virkur í lestri sínum, að hann stýri og stjórni aðgerðinni með meðvituðum hætti. Önnur líkön, svo sem einfalda lestrarlíkanið og reipislíkan Scarborough, segja lítið um það hvernig lesaranum tekst að framkvæma og fella saman þau fjölmörgu ferli sem lesturinn krefst. Í DRIVE líkaninu situr lesarinn hins vegar við stýrið sem hinn stefnufasti „ökumaður“ sem stýrir lestrinum og á virkt samtal við textann. Ökumenn ákveða að ráðast í akstur á ökutæki rétt eins og lesarinn ákveður að lesa texta.

Sum atriði í líkaninu koma fólki ekki á óvart, til dæmis umskráning og beiting lesskilningsaðferða. Önnur atriði gætu virst ólíklegri til að vera þar, eins og hugarástand lesarans og eiginleikar texta. Til að ákveða hvort að tiltekin atriði ættu að vera í líkaninu, eða ekki, var einkum tekið mið af tvennu og fjöldi rannsókna hafður til hliðsjónar. Annars vegar var litið til þess hvort vísbendingar væru um orsakasamband milli viðkomandi atriðis í líkaninu og lestrar og hins vegar hvort áhrif atriðisins séu þau sömu í hvert sinn sem er lesið. Því er DRIVE líkanið tiltölulega almennt lestrarlíkan.

Í sumum lestrarlíkönum er ekki horft til tilgangs með lestrinum en í DRIVE líkaninu skiptir hann miklu máli og er líkt við ákvörðunarstað ökumanns. Mörg líkön eru einnig þannig að ekki er gert ráð fyrir að mismunandi textar hafi áhrif á lestrarferlið en í DRIVE líkaninu er þvert á móti lögð mikil áhersla á áhrif tegunda og inntaks texta á lestur. Þessi áhersla á tilgang og áhrif texta á að beina sjónum að því að lestur á sér ekki stað í tómarúmi. Allir þættir líkansins, allt frá færni lesarans til inntaks texta, tengjast menningarlegum grunni sem hefur mikil áhrif á lesturinn.

Það hve lestur er í eðli sínu flókin athöfn snýr ekki eingöngu að því hve margþættur hann er heldur einnig að víxlverkuninni sem á sér stað milli einstakra þátta lestrarferlisins. Í DRIVE líkaninu er leitast við að útskýra þessa víxlverkun eins og hægt er og má nefna sem dæmi hvernig þekkingu ökumanns á akstursleið er líkt við þekkingu lesara á inntaki texta. Ökumaður sem þekkir leiðina vel sem hann ekur á auðveldara með aksturinn en ef hann er á nýjum slóðum. Að sama skapi er auðveldara að lesa texta ef lesarinn hefur nokkra þekkingu á inntaki hans og á það ekki aðeins við um skilninginn heldur einnig umskráninguna.

Hér að neðan er gerð grein fyrir mismunandi þáttum í lestrarferlinu og líkindum með því og að aka bíl.

Áfangastaður – tilgangur lestrar

Akstur hefur alltaf tilgang og aksturslagið tekur alltaf mið af tilgangi ferðarinnar. Ef við förum í ísbíltúr erum við ekkert að flýta okkur heldur njótum akstursins og þess að vera á ferðinni; ef við þurfum að komast á bráðamóttökuna liggur okkur oft meira á og ef veðurskilyrði eru slæm vöndum við aksturinn sérstaklega. Það sama gildir um lesturinn. Við hefjum allan lestur með það fyrir augum að skilja og nýta texta í ákveðnum tilgangi, t.d. að hafa ánægju af lestrinum, afla okkur upplýsinga eða leggja efni texta á minnið. Þess vegna nálgumst við lestur á mismunandi hátt eftir því hver tilgangurinn er.

Vegir – textar

Tegundir vega – textategundir

Til eru margar gerðir vega: Steyptir vegir og bundnir slitlagi, malarvegir og hálfgerðar ófærur. Gerð vega hefur mikil áhrif á aksturinn. Sem dæmi keyrum við allt öðruvísi á holóttum malarvegi en á sléttum og breiðum malbikuðum vegi. Til eru margar tegundir texta: t.d. fræðitextar, frásagnir, leiðbeiningar, upplýsingar og áróður. Þegar við lesum þungan og flókinn texta til að læra efni hans lesum við allt öðruvísi en þegar við lesum afþreyingarefni okkur til skemmtunar. Tegund texta getur haft djúpstæð áhrif á lesskilninginn og því nálgumst við ólíkar tegundir texta á mismunandi hátt. Rétt eins og sum ökutæki henta betur ákveðnum gerðum vega eiga sumir lesarar auðveldara með að lesa ákveðna tegund texta frekar en aðrar.

Umferðarmannvirki – uppbygging texta

Vegir eru ekki aðeins mismunandi heldur geta umferðarmannvirki (t.d. umferðarljós, hringtorg, brýr og mislæg gatnamót) einnig verið mismunandi. Umferðarmannvirki hafa áhrif á akstur rétt eins og uppbygging texta hefur áhrif á lesturinn. Lesurum gengur að jafnaði betur að finna sér leið og skilja texta sem er vel uppbyggður eins og vel hönnuð umferðarmannvirki auka gott flæði umferðar.

Umferðarmerkingar – skipulag texta

Ökumenn nota umferðarmerki til að vera vel undirbúnir og rata rétta leið eftir vegakerfinu, til dæmis við akreinaskipti eða þegar gangbraut er framundan. Á sama hátt getur umbrot (t.d. fyrirsagnir og feitletrun) og innra skipulag textans gert lesara auðveldara um vik að skilja hann.

Aðrir eiginleikar vegarins – önnur einkenni textans

Aðrir eiginleikar vegarins, t.d. upphleyptar vegmerkingar, holur eða hálkublettir, hafa einnig áhrif á aksturinn og gera ökumönnum ýmist auðveldara eða erfiðara fyrir að komast sína leið. Að sama skapi geta lesarar rekist á atriði í texta sem ýmist auðvelda þeim lesskilninginn eða gera þeim erfitt fyrir. Þetta eru atriði eins og setningaskipan sem tefur fyrir umskráningu, kunnuglegur eða framandi orðaforði, fjölbreytilegt myndefni og óskýr eða illa ritaður texti sem veldur því að lesarinn neyðist til að hægja lesturinn, endurlesa og leiðrétta skilning sinn á því sem hann er búinn að lesa.

Akstursleið – inntak textans

Leiðin, sem er ekin og hægt er að skoða í rauntíma í leiðsögutæki, er eiginlegt inntak ökuferðarinnar en á sama hátt hafa textar tiltekið innihald, málefni sem þeir taka fyrir eða lýsingar á atburðum sem geta verið lesurum miskunnugleg eins og síðar verður rætt. Framsetning og innihald texta getur einnig verið margvíslegt og misflókið og sýnt hefur verið fram á að það getur haft áhrif á lestrarferlið og lesskilninginn.

Fjöldi akreina – fjöldi texta

Stundum nægir að halda sig á einni akrein en stundum þurfum við hins vegar að flakka á milli fleiri akreina til að komast á ákvörðunarstað. Að sama skapi nægir okkur oft að lesa aðeins einn texta til að ná markmiði okkar, t.d. þegar við lesum bók okkur til ánægju. Stundum verður lesari aftur á móti að fella saman upplýsingar úr fleiri en einum texta til þess að ná markmiði sínu, til dæmis þegar verið er að rannsaka tiltekið efni með því að lesa fjölbreytta fræðitexta og ýmsar heimildir sem jafnvel krefjast mismunandi nálgunar.

Ökumaður og ökutæki – lesari

Ökumaður og ökutæki tákna hugsun lesarans. Á það við um allt rófið frá tækni við lestur svo sem að bera kennsl á orð, til almennari þátta sem hafa áhrif svo sem stýrifærni (vinnsluminni, sjálfsstjórn, tilfinningastjórn og skipulagsfærni). Drive líkanið varpar þannig ljósi á það ferli sem á sér stað í huga þess sem les og hvernig víxlverkun er milli lestrar, textans og samhengis.

Þekking á akstri – ritmáls- og myndvitund 

Ökumenn verða að kunna skil á grundvallaratriðum aksturs til þess að geta lokið ökuferð með góðum árangri. Þeir verða til dæmis að vita hvar á að sitja, hvernig á að halda um stýri og hvernig á að ræsa ökutækið. Á sama hátt verða lesarar að kunna skil á grundvallaratriðum ritmáls til þess að geta lesið með góðum árangri, vita til hvers bækur eru, vita hvernig á að halda á bók og hvar þeir eiga að byrja að lesa texta. Grundvallarskilningur lesenda á eðli og tilgangi ritmáls og myndefni tengist lestrarfærni þeirra.

Kveikjukerfi og eldsneyti – lestrarhvöt, ástundun og þrautseigja

Til að geta ekið þarf að ræsa vélina en það dugar ekki eitt og sér heldur verða ökumenn að gefa bílnum eldsneyti til að komast áfram. Á langri eða erfiðri ökuferð er eldsneytisþörf meiri en í stuttri ferð. Að sama skapi getur lestrarhvöt orðið til þess að lesari hefji lestur en til þess að halda áfram þarf skuldbindingu og þrautseigju til að mæta mögulegum hindrunum og áskorunum sem gætu komið í veg fyrir að markmið með lestrinum náist. Hvöt til lestrar og skuldbinding við markmið leiða til aukins lesskilnings og tengjast áhuga náið. Þessir þættir nýtast lesurum til að ná lestrarmarkmiðum sínum jafnvel þó að glíma þurfi við flókna og illskiljanlega texta.

Hjól – umskráningarfærni og sjónrænn orðaforði

Þegar ökumenn ákveða að aka bifreið til að komast tiltekna leið eru það hjól ökutækisins sem skila þeim áfram eftir veginum. Með sama hætti er það umskráningin og sjálfvirk þekking á orðmyndum sem gerir lesaranum kleift að finna sér leið gegnum textann. Eins og við er að búast sýna rannsóknir að lestrarkennsla með hljóðaaðferð getur stutt við þróun lesskilnings.

Dekk – aðferðir við beitingu umskráningar og sjónræns orðaforða

Hjól bílsins duga ekki ein og sér, þau þurfa að vera búin dekkjum sem skila hreyfingunni niður í veginn. Umskráning og sjónrænn orðaforði skila lesaranum heldur ekki langt í textanum ef kunnátta á aðferðum til að beita þessari þekkingu er ekki til staðar. Sem dæmi um slíkar aðferðir má nefna að skipta framandi orði upp í minni einingar til að umskrá það eða með því að bera ný orð saman við orð sem eru að einhverju leyti hliðstæð (stuðlar og rím s.s. f-ara, b-ara). Kennsla í slíkum aðferðum getur skilað sér í bættum lesskilningi.

Mynstur dekkja – hljóðkerfisvitund

Dekk ná aðeins góðu veggripi ef mynstrið á þeim er nægilega gott og aðferðir til að umskrá og bera kennsl á orð koma lesurum ekki að gagni nema þeir hafi þroskaða hljóðkerfisvitund og þá sérstaklega hljóðavitund. Sú færni gerir þeim kleift að nýta sér aðgerðir á borð við hljóðtengingu við umskráningu eða að flokka hljóð við úrvinnslu texta.

Öxlar – lesfimi

Öxlarnir tryggja gott flæði í akstrinum, að ökumaðurinn geti tekið tillit til ástands vegarins, aukið hraðann við góðar aðstæður og hægt á sér þegar misfellur eru á veginum. Í DRIVE líkaninu tákna öxlarnir lesfimina. Lesfimi gerir lesara kleift að samhæfa nákvæm og sjálfvirk orðakennsl (flæði) og tengja við lesskilninginn á grundvelli hljómfalls eða góðs lestrarlags, eins og öxlarnir tengja hjólin og dekkin innbyrðis, sem og við aðra hluta bílsins. Eins og við er að búast hefur lesfimikennsla jákvæð áhrif á lesskilninginn.

Leggir og demparar – orðaforði og orðhlutavitund

Leggir og demparar tengja hjól og öxla við aðra hluta bílsins og hindra að hann fari skoppandi eftir veginum. Á sama hátt auðveldar skilningur á orðum umskráningarferlið og tengir það við annað í lestrarferlinu. Þekking á orðaforða og aðferðum til að álykta um merkingu orða, svo og þekking á merkingarbærum orðhlutum (forskeytum, orðstofnum o.s.frv.) og hæfni til að greina slíka orðhluta (orðhlutavitund og aðferðir til að nýta þá þekkingu), myndar tengingu milli orðalestrar og merkingarmótunar og stuðlar þannig að góðum lesskilningi. Eins og við er að búast getur markviss orða- og orðhlutakennsla haft jákvæð áhrif á lesskilninginn.

Undirvagn – setningafræði

Enda þótt hjól (umskráningarfærni og sjónrænn orðaforði) og öxlar (lesfimi) tryggi að ökumaður komist áfram eftir veginum verður bíllinn að vera á undirvagni sem heldur öllum hlutum hans saman. Undirvagninn samsvarar þekkingu á uppbyggingu setninga (hlutverki orða og orðaröð) sem lesarinn nýtir sér til skilnings á texta. Þekking á setningafræði tengist lesskilningi náið og er meðal þess sem auðveldlega má fella inn í kennslu.

Sæti – þekking á einkennum textategunda og orðræðu

Reynsla ökumanns af akstri hvílir, í bókstaflegum skilningi, á sætum bílsins. Reynslan af lestri liggur að hluta til í þekkingu á einkennum og uppbyggingu texta. Þekking okkar á einkennum texta auðveldar okkur að vita hvers er að vænta og hvernig lesa á úr mismunandi textategundum (t.d. skáldsögum og skýringartextum) og orðræðu í textum ólíkra námsgreina. Aukin þekking lesara á einkennum ólíkra textategunda og mismunandi orðræðu getur haft jákvæð áhrif á lesskilninginn.

Þekking á skipulagi umferðarmannvirkja – þekking á uppbyggingu texta

Þekking á deiliskipulagi eða því hvernig vegir og götur liggja auðveldar ökumönnum að aka rétta leið. Á sama hátt njóta lesendur góðs af því að geta áttað sig á uppbyggingu texta og notað kunnáttuna til að rata um textann – hvort sem um er að ræða frásögn eða upplýsingatexta (t.d. lýsingar, samanburður/andstæður, tímaröð) – meðan á lestrinum stendur.

Þekking á akstursleið – þekking á inntaki texta

Flestir hafa að öllum líkindum ekið tiltekna leið og komist á leiðarenda án þess að muna hvernig það gerðist. Þegar ökumaður þekkir leiðina mjög vel krefst aksturinn nær engrar athygli en ef hann þekkir ekki leiðina þarf hann að veita akstrinum fulla athygli og getur engu að síður átt í erfiðleikum með að rata. Að sama skapi eiga lesendur miklu auðveldara með að lesa texta ef þeir þekkja efni hans vel eða samhengið sem hann er sprottinn úr.

Hugarástand ökumanns – hugarástand lesara

Hugarástand ökumannsins hefur áhrif á aksturinn. Ef ökumaður kvíðir til dæmis því að aka á hálum vegi er líklegt að hann aki varlega. Ef ökumanni liggur mikið á getur það orðið til þess að hann taki meiri áhættu í akstrinum og geri fleiri mistök. Á sama hátt getur hugarástand lesarans skipt máli og hafa ýmsar rannsóknir leitt í ljós áhrif þess á lestrarferli og árangur af lestrinum.

Álit á akstursleið – lestur með gagnrýnum huga

Þið hafið vafalaust skoðanir á ýmsu sem tengist akstri – hvaða leiðir eru greiðfærastar á ýmsum tímum dags, hvar þarf að laga vegi o.s.frv. Það er ekki aðeins einkenni góðs lesara að leita skilnings í texta heldur einnig að lesa hann með gagnrýnum augum og spyrja spurninga varðandi innihald hans: „Var endirinn góður?“ „Komu hugmyndir höfundarins skýrt fram í textanum?“ „Hvaða sjónarmið komu fram og sjónarmið hverra voru það?“

Mælaborð – skilningsvaktin

Athygli ökumanns er stöðugt vakandi fyrir skilaboðum úr mælaborðinu svo hann geti verið viss um að aksturinn gangi hnökralaust fyrir sig og ökutækið sé í lagi. Að sama skapi ná lesarar bestum árangri þegar athygli þeirra er stöðugt vakandi og þeir fylgjast með eigin lestri til þess að fullvissa sig um að þeir skilji innihaldið. Þegar skilningurinn bregst gerist það sama og þegar mælaborð í ökutæki gefur til kynna bilun: Lesarinn hægir á sér, les aftur eða notar aðra aðferð til þess að laga eða leiðrétta skilning sinn.

Útsjónarsamur ökumaður – útsjónarsamur lesari

Akstur er, eða á að vera, skipuleg athöfn. Stutt leit á Google skilar fljótt niðurstöðum varðandi tækni við akstur á aðrein, blindsvæði og önnur snúin atriði sem vert er að hafa í huga við akstur. Lestur þarf að vera skipulegur á sama hátt. Góðir lesarar nota ýmsar skipulegar aðferðir eða tækni til að styðja við skilning á texta sem lesinn er; þeir spá fyrir um framhaldið, draga ályktanir og gera sér mynd af því sem fram kemur í textanum. Kenna má þessar aðferðir og margar fleiri til að auka lesskilninginn.

Stýrifærni og ökumaður – stýrifærni og lesari

Akstur og lestur eru hvort tveggja dæmi um flóknar athafnir þar sem góðrar stýrifærni er krafist. Stýrifærni er æðri vitsmunafærni sem gerir okkur kleift að beina hugsunum okkar, tilfinningum og atferli í eina átt við lausn ýmissa verkefna, allt frá því að keyra heim til vinar eða skilja texta. Ökumenn beina athyglinni til að mynda lipurlega frá einu atriði til annars til þess að geta sinnt akstrinum á fullnægjandi hátt, rétt eins og lesarar færa athygli sína stöðugt milli umskráningar og merkingar textans. Það er ekki skrýtið, að nemendur með slaka stýrifærni (vinnsluminni, sjálfsstjórn, tilfinningastjórn og skipulagsfærni), eigi í erfiðleikum með að nýta sér öll ferli sem eru forsenda góðs lesskilnings en þeim erfiðleikum má mæta með kennslu.

Aksturssamhengi – lestrarsamhengi

Baksýnisspegill – samhengi þess sem búið er að lesa/Aðalljós – samhengi við það sem á eftir að lesa 

Góðir ökumenn gera sér ekki einungis grein fyrir því sem gerist þar sem þeir eru staddir nákvæmlega, heldur eru þeir bæði meðvitaðir um það sem er fyrir aftan og sést í baksýnisspeglinum og það sem er fram undan og ljósin lýsa upp. Á sama hátt gera góðir lesarar sér grein fyrir merkingu þess sem þeir eru að lesa og samhengi þess við aðra hluta textans/textanna; það sem þeir hafa þegar lesið og það sem þeir búast við að komi næst.

Skilyrði við akstur – skilyrði við lestur 

Veðurskilyrði hafa mikil áhrif á akstur. Hálir vegir og hellirigning gera ökumönnum erfitt fyrir. Að sama skapi hafa skilyrði við lestur áhrif. Dæmi um það er að hávaði og önnur truflun í umhverfinu, t.d. tónlist eða skortur á dagsbirtu og símtöl, hafa áhrif á lesturinn og geta truflað lesskilninginn.

Akstursumhverfi – lestrarumhverfi

Akstur á sér stað við alls konar skilyrði sem hafa áhrif á aksturinn hverju sinni. Ef ekið er utanbæjar þar sem umferð er lítil gerir það aðrar kröfur til ökumanns en akstur í þéttri borgarumferð. Á sama hátt hefur umhverfið eða samhengið áhrif á það hvernig við nálgumst lesturinn. Við gætum t.d. lesið texta með mismunandi augum eftir því hvort við erum stödd í trúarlegri byggingu eða í bókmenntatíma í skólastofu.

Umferðarreglur – lestrarmenning 

Umferðarreglur eru mismunandi eftir löndum. Á Íslandi er ekið á hægri vegarhelmingi en í Bretlandi þeim vinstri. Sömuleiðis eru til reglur varðandi það hverjir mega aka bíl og á hvaða tímum má aka. Lestur er einnig bundinn menningarlegum áhrifum og túlkun lesara er oft háð menningu hans eða þekkingu hans á annarri menningu.

Hvaða þýðingu getur DRIVE líkanið haft fyrir stefnumörkun og kennsluhætti?

Líkanið lýsir lestrarferlinu en ekki þróun lestrarfærni eða náms. Sé líkanið hins vegar útvíkkað með því að bera saman ökukennslu og lestrarkennslu getur það varpað ljósi og haft áhrif á stefnumörkun, starfsþróun og viðteknar venjur í kennslu. Líkt og góð ökukennsla krefst góðs ökukennara, krefst góð og fullnægjandi lestrarkennsla góðs lestrarkennara. Ef nemandi þarf að læra að aka dugar ekki fyrir hann að búa við gott vegakerfi og hafa aðgang að góðu og öruggu ökutæki – hann þarf góðan ökukennara til að kenna sér á hvort tveggja. Að sama skapi dugar það ekki fyrir ólæsan nemanda að alast upp í læsu samfélagi og hafa aðgang að bókum – hann þarf góðan lestrarkennara sem kann sitt fag. Er það von greinahöfunda að með DRIVE líkaninu öðlist kennarar skilning á margslungnu eðli lestrar sem hafi áhrif á kennsluhætti og leiði til aukins árangurs nemenda.

Starfsþróun kennara er ævilöng og standa þeir sífellt frammi fyrir áskorunum sem þeir verða að takast á við. Bilið á milli rannsókna á sviði læsis og kennsluhátta er vel þekkt og sjálfsagt á þetta einnig við um rannsóknir og kennslufræði sem liggur til grundvallar ökukennslu og ökunámi. Engu að síður verða kennarar að leggja sig fram um að nota raunprófaðar aðferðir í kennslu og þá skiptir góð og skipulögð starfsþróun höfuðmáli. Því verða stofnanir sem mennta kennara og þeir sem sjá um stefnumörkun í menntamálum að tryggja kennurum vandaða grunnmenntun og starfsþróun, bæði hvað innihald og framkvæmd varðar (t.d. í gegnum góðar vinnustofur, þátttöku í lærdómssamfélagi og handleiðslu).

Við skoðun á DRIVE líkaninu verður strax ljóst að of þröngt sjónarhorn í lestrarkennslu dugar ekki. Þeim sem halda því fram að nóg sé að kenna barni hljóðaaðferðina og þá sé þetta komið má líkja við ökukennara sem leggur áherslu á að nemandinn kunni á hjólabúnaðinn en sleppir öðrum mikilvægum atriðum sem skipta máli fyrir akstur. Góð ökukennsla felur í sér að hugað er að öllum þáttum aksturs og hið sama gildir um góða lestrarkennslu þar sem huga þarf að öllum atriðum lestrarferlisins svo nemandinn geti orðið vel læs.

Þegar kennsla er skipulögð með hliðsjón af flóknu líkani, s.s. DRIVE líkaninu, má vera ljóst hversu fjölþætt lestrarkennsla verður að vera. DRIVE líkanið beinir jafnframt sjónum að þáttum í lestrarferlinu sem oft er ekki sinnt. Nýlegar rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á mikilvægi stýrifærninnar (e. executive function) sem fellur undir æðri hugarstarfsemi, s.s. vinnsluminni, hvatastjórnun og sveigjanleika í hugsun (e. cognitive flexibility). Stýrifærnin gerir okkur kleift að stýra hugsun, tilfinningum og hegðun við framkvæmd flókinna viðfangsefna, hvort heldur sem er að aka bíl eða skilja texta. Hið sama gildir um áhugahvöt og skuldbindingu/þrautseigju við lausn viðfangsefna en hvort tveggja er vel rannsakað með tilliti til lesskilnings. Mikilvægt er því að huga að öllum þáttum lestrarferlisins við stefnumörkun, gerð námsskrár, kennslu og námsmat en ekki aðeins að einangruðum þáttum sem þegar hafa fengið mikið svigrúm í umræðunni, s.s. lesfimi.

Í ökunámi þarf ökuneminn að fá bóklega og verklega kennslu ásamt nægum tækifærum til þjálfunar og svo á eftir að læra margt eftir að hann fær ökuréttindin. Eins og lesarinn! Í lestrarkennslu gildir hið sama en oft hættir okkur til að eyða of miklum tíma í innlögn á kostnað þjálfunar eða öfugt. Þarna þarf að tryggja jafnvægi en þó að hafa í huga að þarfir nemenda geta verið ólíkar. Samlíkingin við ökunámið getur einnig glætt skilning okkar á mikilvægi þess að þjálfa og leiðbeina lesurum. Þetta gerist þegar nemandinn sér að mestu um að lesa en kennarinn veitir stuðning og leiðsögn, líkt og ökukennarinn sem situr í farþegasætinu á meðan neminn ekur. Rannsóknir hafa sýnt að kennarar sem ná góðum árangri eru duglegri að leiðbeina en aðrir. Okkur dettur ekki hug að ökuneminn geti orðið að góðum ökumanni nema hann fái góða leiðsögn og endurgjöf við þjálfun og sömu lögmál ættu að gilda í lestrarkennslu. Því þurfa þeir sem sinna kennaramenntun, starfsþróun, námskrárgerð og stefnumótun að tryggja að kennarar geti veitt nemendum kennslu, leiðsögn og þjálfun svo þeir geti náð settu marki í lestri.

Í hugum flestra leiðir orðið „lestrarnám“ hugann að barni við upphaf grunnskólagöngu sem er að hefja sitt lestrarnám en DRIVE líkanið gerir okkur kleift að skilja hvers vegna betra er að líta á lestrarnám sem ævilanga iðju. Líkt og við lærum ýmislegt um akstursmenningu löngu áður en við lærum að aka bíl sjálf, lærum við ýmislegt um lestur áður en formlegt lestrarnám hefst. Börn sem fylgjast með því hvernig haldið er á bók og veita ritmáli í umhverfinu athygli eru þegar farin að læra að lesa. Ef við berum saman núverandi hæfni okkar sem ökumenn við hæfnina rétt eftir að við fengum ökuskírteinið er ljóst að okkur hefur farið mikið fram. Lífið býður sífellt upp á nýjar aðstæður þar sem við aðlögum og bætum ökuhæfni okkar enn frekar og hið sama gildir um lestur. Eftir því sem viðfangsefni og kröfur í námi verða meiri verður þörfin fyrir flóknari lestrarfærni aðkallandi og því er mikilvægt að lesarar fái leiðsögn og þjálfun til að takast á við þær áskoranir sem ný og margslungnari viðfangsefni bjóða upp á. Þannig þurfa nemendur að fá þjálfun í aðferðum sem hjálpa þeim að takast á við lestur í námsgreinum (e. content area literacy) og síðar við lestur í faggreinum (e. disciplinary literacy). Höfundar greinanna hvetja því til víðtækari sýnar á læsiskennslu þar sem ekki eingöngu er horft til byrjendakennslu í lestri, eins og nú er nokkuð títt, heldur verði stefnumörkun að fela í sér þann skilning að læsi verði til á löngum tíma og að það verði að fá að vaxa og dafna, með stuðningi góðrar kennslu og þjálfunar, í takti við þroska og kröfur í námi og leik.

Það getur verið nokkuð einstaklingsbundið hversu fljótir ökunemar eru að ná tökum á ökutækinu og hversu vel þeim gengur að lesa umferðina. Akstur krefst samhæfingar margra aðgerða og bæði leiðsögn og þjálfun þurfa að taka mið af styrk- og veikleikum ólíkra ökunema. Hið sama gildir um lestrarkennslu. Lesari getur átt í erfiðleikum með að umskrá orð en búið yfir góðum orðaforða, bakgrunnsþekkingu á viðfangsefni og þekkt margar aðferðir til að efla lesskilning sinn. Annar lesari getur verið mjög fljótur að umskrá en búið yfir slökum orðaforða, lítilli bakgrunnsþekkingu og kunnað fátt til að hjálpa sér við að skilja texta. Líklegt er að ökukennari myndi leggja sig fram um að leiðbeina og þjálfa það sem þarfnast þjálfunar og hið sama ætti að gilda um lestrarkennslu og þjálfun. Það er hins vegar ekki alltaf raunin því stundum fá allir nemendur, sem þarfnast stuðnings, sömu íhlutun án þess að rýnt sé nákvæmlega í hvar skórinn kreppir. Þetta er vandinn sem getur hlotist af of einföldum skilningi og sýn á eðli lestrar en bæði stjórnvöld og kennarar verða að átta sig á því að ekki dugar að sníða öllum sama stakkinn í þessum efnum. Því getur skilningur á eðli lestrar, eins og það birtist í DRIVE líkaninu, ýtt undir skilning á mikilvægi þess að lestrarkennsla og íhlutun taki mið af ólíkum þörfum nemenda. Þannig er hægt að auka líkur því að okkur takist að gera alla nemendur vel læsa því gott læsi er eitt besta tækið til að jafna tækifæri nemenda til framtíðar.

Mynd: Böðvar Leós Jónsson.

Heimildir

Cartwright, K. B. og Duke, N. K. (2019). The DRIVE model of reading: Making the complexity of reading accessible. The Reading Teacher, 73(1), 7–15.

Duke, N. K. og Cartwright, K. B. (2019). Implications of the DRIVE model of reading: Making the complexity of reading actionable. The Reading Teacher, 73(1), 123–128.

 


Auður Björgvinsdóttir lauk kennaranámi frá Kennaraháskóla Íslands 2005 og MA í lestrarfræði frá Háskólanum á Akureyri 2017. Hún hefur kennt við  Álftanesskóla frá árinu 2004 og sinnt bæði umsjónar- og sérkennslu. Síðustu ár hefur hún auk kennslu gegnt stöðu verkefnastjóra læsismála í skólanum og unnið að ýmiskonar þróunarstarfi m.a. tengt fræðslu fyrir foreldra um lestur og lestrarkennslu. Veturinn 2019 – 2020 starfar hún einnig í læsisteymi Menntamálastofnunar.

Guðbjörg R. Þórisdóttir lauk mastergráðu í lestrarfræðum frá Andrews University í Michiganfylki 1993 og starfaði við umsjónarkennslu í tíu ár til að læra allt um það hvernig það er að vera umsjónarkennari. Haustið 2007 hóf hún störf í Holtaskóla í Reykjanesbæ þar sem hún starfaði sem verkefnisstjóri og deildarstjóri stoðþjónustu ásamt því að taka þátt í viðamiklu skólaþróunarstarfi innan sveitarfélagsins. Guðbjörg hefur verið með fjölbreytt starfsþróunarnámskeið á sviði læsis fyrir starfandi kennara en starfar nú fyrir læsisverkefni Menntamálastofnunar.


Grein birt 12. maí

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp