Um bókina Flourishing as the Aim of Education eftir Kristján Kristjánsson
Atli Harðarson
Kristján Kristjánsson er löngu vel þekktur meðal fræðimanna sem fjalla um heimspeki menntunar. Hann er einkum kunnur fyrir skrif sín um viðfangsefni sem liggja á mörkum siðfræði og menntavísinda. Í ritum sínum um þau efni nýtir hann dygðasiðfræði Aristótelesar sem leiðarljós og bækur hans (Kristján Kristjánsson, 2007, 2015, 2018) eiga mikinn þátt í því að slík siðfræði nýtur vaxandi viðurkenningar og áhuga meðal þeirra sem fjalla um siðferðilegt uppeldi. Kristján er líka frumkvöðull í því að nota nýjustu rannsóknir í sálfræði til að varpa ljósi á viðfangsefni á sviði siðfræði eins og hann gerir í nokkrum bóka sinna (Kristján Kristjánsson, 2002, 2006, 2010, 2013).[1]
Nýjasta bók Kristjáns heitir Flourishing as the Aim of Education og hefur undirtitilinn A Neo-Aristotelian View. Í henni koma saman allmargir þræðir úr fyrri verkum hans þar sem hún fjallar í senn um sálfræðileg efni, siðfræði og skólastarf. Bókin er afar læsileg og lesandi getur vel skilið textann án þess að þekkja fyrri verk Kristjáns. Það hjálpar þó að hafa einhver kynni af heimspekilegri siðfræði og rökræðu um hlutverk og tilgang skóla.
Í bókinni rökstyður Kristján að megintilgangur skóla skuli vera farsæld nemenda eða með öðrum orðum að þeir blómstri – njóti sín til fulls og lifi góðu lífi. Eins og undirtitillinn ber með sér er hugsjónin um farsæld eða gott líf að nokkru sótt í rit Aristótelesar. En Kristján bætir þó ýmsu við þær áherslur sem algengastar eru meðal fræðimanna sem kenndir eru við Ný-Aristótelisma og styrkur bókarinnar liggur ekki síst í þessum viðbótum. Hér verður aðeins tæpt á tveimur þeirra en áður en að því kemur rifja ég upp nokkur meginatriði í kenningum Aristótelesar um gott mannlíf, heill og hamingju.
Siðfræði Aristótelesar
Í bókinni Siðfræði Níkomakkosar fjallar Aristóteles (1995) um þau lífsgæði sem mestu varða. Orðið sem hann notaði um þau er evdæmónía (εὐδαιμονία) og það er stundum þýtt með orðinu hamingja og stundum með farsæld. Seinni þýðingin er að því leyti betri að við tengjum hamingju um of við vellíðan til að það orð nái vel utan um það sem Aristóteles meinti. Það væri hægt að þýða orðið bókstaflega með orðasambandinu góður andi en í íslensku er það frátekið og hefur aðra merkingu því það er notað um vel heppnuð mannamót þar sem fer vel á með fólki.
Til að skilja það sem Aristóteles sagði um farsæld þurfum við fyrst af öllu að átta okkur á að siðfræði hans hverfist hvorki um reglur og boðorð, né um réttindi og skyldur, heldur um dygðir. Siðferðilegar dygðir eru mannkostir á borð við hófsemi, góðvild, heiðarleika, örlæti og veglyndi. Þær stuðla að því að menn geri það sem rétt er og forðist ranga breytni. Einnig eru til vitsmunalegar dygðir, eins og árvekni, gott minni, gætni í dómum og rökvísi, sem stuðla að því að menn trúi því sem satt er og forðist blekkingar. Til viðbótar við þessa tvo flokka dygða eru svo framtaksdygðir á borð við dugnað og seiglu sem hjálpa fólki á ýmsa lund þótt þær séu ekki endilega í þjónustu þess góða eða þess sanna.
Að dómi Aristótelesar og þeirra sem fylgja honum að málum getur enginn maður verið farsæll án þess að þroska með sér siðferðilegar dygðir. Illmennum getur ekki farnast vel þótt þau geti vissulega verið full sjálfsánægju og þjónað lund sinni með alls konar nautnum. Þetta er vegna þess að hugsjón Aristótelesar um gott líf innifelur fleira en góða líðan. Maður sem lifir vel og er gæfusamur í skilningi þessarar fornu speki kýs fremur að ganga uppréttur til móts við erfiðleika en að eltast við tóm þægindi. Líf sem aðeins heimskir menn og illa innrættir telja eftirsóknarvert er ekki farsælt. Gott fólk getur ekki verið ánægt með tilveru þar sem allt snýst um tóma vellíðan og því síður með gæði sem er aflað af frekju og rangsleitni.
Þótt Aristóteles hafi talið siðferðilegar dygðir nauðsynlegar forsendur farsældar áleit hann ekki, eins og sumir stóuspekingar gerðu síðar, að þær dygðu einar til þess að tryggja farsæld hvernig sem veröldin veltist. Ranglæti og ofbeldi geta spillt lífi fólks þótt það eigi sjálft enga sök þar á og sama gildir um skort og þjáningar. Til að lifa góðu lífi þarf bæði að vera góður maður og búa við skapleg kjör.
En hvernig verða menn góðir að dómi Aristótelesar? Hann taldi að börn fæddust hvorki góð né slæm. Dygðirnar sem hann fjallaði um voru ekki meðfæddar þótt möguleikinn á að tileinka sér þær væri hluti af manneðlinu. Þær kröfðust uppeldis þar sem börnum væru tamdar góðar venjur og rétt tilfinningaleg viðbrögð. Þannig yrðu til fyrstu vísar að siðferðilegum dygðum.
Það er innbyggt í þessa kenningu að tilfinningar manna geti verið misjafnlega réttmætar. Aristóteles hafnaði þó engum flokki tilfinninga. Að hans dómi gátu neikvæð geðhrif eins og reiði eða öfund verið réttmæt undir sumum kringumstæðum. Við getum séð vitið í þessu með því að velta fyrir okkur dæmum: Hugsum okkur til dæmis að Ása og Signý séu vinnufélagar mínir og þær hafi lagt á sig mikið erfiði og sýnt dugnað og hugkvæmni umfram flesta aðra og fái hrós eða umbun fyrir. Undir þessum kringumstæðum er réttmætt að ég samgleðjist þeim en rangt að fyllast reiði og afbrýðisemi vegna þess að þær fái meira hrós en ég. Ef Ása vann hins vegar öll verkin og á í raun heiður af því sem vel er gert en Signý gortar af að hafa afrekað þetta allt ein og sjálf og fær bæði kaupauka og stöðuhækkun á meðan Ásu er neitað um viðurkenningu, þá er réttmætt að ég sé reiður og að Ása sé bæði reið og afbrýðisöm. Góðir menn reiðast ef til vill sjaldan. Samt er ekki hægt að vera góður maður án þess að renna í skap þegar rangindi og vaða uppi og einhver fær jafnvel verðlaun og viðurkenningar fyrir að hafa rangt við.
Siðferðisþroski hefst á því, segir Aristóteles, að börn venjast á rétta breytni og rétt tilfinningaleg viðbrögð. En honum lýkur ekki þegar einstaklingur kemst af barnsaldri. Ef vel tekst til heldur fólk áfram að þroskast ævina á enda. Eftir að fyrstu áföngum er náð gegnir viska af því tagi sem hann kallaði frónesis (φρόνησις) lykilhlutverki í þroska mannsins. Þessi gerð visku er stundum kölluð siðvit og stundum hyggindi þegar fjallað er um efnið á íslensku.
Hyggindi fela bæði í sér skilning á því hvað er mönnum til góðs og hæfni til að átta sig á hvers kyns aðstæðum sem upp koma í mannlífinu og greina hvaða gildi eru í húfi og hvert vægi skuli veita þeim. Þessi gerð vitsmuna þroskast þegar menn ráða ráðum sínum, rökræða um hvað horfi til heilla og hvað beri að varast. Að dómi Aristótelesar nær engin dygð að fullkomnast nema vitsmunir af þessu tagi komi til og hyggindin dafna heldur ekki án góðmennsku. Mynd hans af farsælli mannsævi er mynd af mannveru sem vex í senn að visku og gæsku og heldur því áfram til æviloka.
Þótt Aristóteles geri greinarmun á vitsmunalegum dygðum og siðferðilegum og telji hyggindi vitsmunalega dygð sem geri fólki mögulegt að átta sig því hvað satt er, áleit hann að hyggindi og gott siðferði nærðu hvort annað. Það er aðal góðs manns að hafa í senn viturlegar tilfinningar og beita skynseminni af ástríðu og góðum hug. Hann áleit líka að siðferðilegar dygðir fylgdust að þannig að engin ein þeirra næði fullum þroska án allra hinna.
Vegna þess hvernig dygðirnar sem Aristóteles lýsir eru samofnar tilfinningalífinu er breytni bestu manna óþvinguð. Sá sem er að sönnu hófsamur þarf til dæmis ekki að halda aftur af sjálfum sér, því hann langar ekki í meira en mátulegt er. Sá sem er að sönnu hjálpsamur þarf ekki að beita sig hörðu til að leggja öðrum lið því hann langar til að hjálpa. En hjá flestum, og kannski öllum, skortir eitthvað á að dygðirnar nái þeirri fullkomnun – að þá langi aldrei að gera annað en það sem gott er. Það er kallað breyskleiki þegar menn vilja vel en láta samt undan löngun til að gera það sem þeir vita sjálfir að er rangt eða slæmt. Meðan dygðir manna eru ekki fullþroska hafa þeir stundum slíkar langanir og þurfa því sjálfstjórn til að halda aftur af sér. Aristóteles áleit að fólk sem væri fullnuma í dygðum þyrfti lítt eða ekki á sjálfstjórn að halda því það hefði engar slæmar langanir.
Tvennt sem er öðruvísi hjá Kristjáni
Kristján tekur að mestu undir þær kenningar Aristótelesar sem hér hefur verið sagt frá. Sumt er þó ólíkt og það er talið upp í lista í bókinni (Kristján Kristjánsson, 2020, bls. 168). Hér ætla ég að staldra við tvö atriði þar sem Kristján greinir á við Aristóteles. Bæði þessi atriði fá töluvert rúm í bókinni og gera umfjöllun Kristjáns um menntun til farsældar í senn raunsærri og metnaðarfyllri en önnur skrif sem ég þekki um dygðasiðfræði og skólastarf.
Annað þessara atriða er hvernig Kristján forðast að gera óraunhæfar kröfur og rökstyður að sú farsæld sem að skuli stefnt með skólagöngu þurfi ekki að fela í sér dygðir sem eru svo fullkomnar að menn langi aldrei að gera neitt misjafnt. Hann segir að menn geti lifað góðu lífi þrátt fyrir að þeir þurfi stundum að hafa taumhald á sér. Aristóteles dró upp eina mynd af mannlegri fullkomnum þar sem saman fóru hyggindi og allar siðferðilegar dygðir. Kristján bendir hins vegar á að gott líf krefjist ekki fullkomnunar og fólk geti á marga vegu haft næga mannkosti til þess að lifa vel – einstaklingar hafi ólíkt upplag og blómstri því að marga vegu. Einn hefur kannski til að bera áreynslulausa ljúfmennsku en þarf að beita sig hörðu til að gæta hófs og annar er ef til vill stálheiðarlegur en þarf stundum að taka sér tak til þess að vera ekki hryssingslegur í framkomu.
Hitt atriðið sem ég kýs að vekja athygli á í þessari stuttu umsögn varðar lotningu frammi fyrir mikilfengleika og leyndardómum tilverunnar. Þar slær Kristján ekki af þeim kröfum sem Aristóteles gerði heldur bætir við þær. Hann skýrir hugsun sína um þetta efni með dæmum meðal annars af Ólafi Kárasyni, aðalpersónunni í Heimsljósi eftir Halldór Laxness. Ólafur lifði við vond kjör og það vantaði mikið á að siðferði hans væri í lagi. En á bestu stundum lífs síns heyrði hann kraftbirtingarhljóm guðdómsins og eignaðist hlutdeild í veruleika utan og ofan við hversdagslífið. Kristján ræðir um reynslu af því tagi sem Halldór Laxness lýsir á skáldlegan hátt og segir að hún sé hluti þess góða lífs sem að skuli stefnt með skólagöngu og menntun. Hann heldur því samt ekki fram að Ólafur Kárason hafi beinlínis lifað góðu lífi, heldur að sagan af honum minni okkur á að fleiri gæði en þau sem Aristóteles gerði að umtalsefni skipti máli fyrir farsæld okkar.
Í fyrstu bók Frumspeki sinnar segir Aristóteles að menn hafi tekið að stunda heimspeki vegna þess að þeir furðuðu sig á ráðgátum „eins og hamskiptum mánans, sólinni, stjörnunum og tilurð alls sem er“ (Aristóteles, 1999, bls. 49). Samkvæmt honum var það undrunin sem fékk menn til að leita þekkingar og hann áleit að þekking væri mikilsverð lífsgæði – líka það bókvit sem ekki verður í askana látið. En Kristján segir að jafnvel þótt við höfum þekkingu og þekkingarþrá vanti samt eitthvað í líf okkar ef við látum þar staðar numið. Sú vöntun verður, segir hann, ekki bætt nema með lotningu frammi fyrir því mikla og undursamlega sem er ofar vettvangi dagsins. Kristján ræðir um náttúruvísindi í þessu sambandi og hversu gott það er mönnum að hugsa um efni á borð við óendanleikann.
Ég held að það sem Kristján segir um þetta efni sé mikilvægt og því sé of lítill gaumur gefinn. Þegar ég las bók hans komu mér í hug orð tveggja raungreinakennara sem ég átti eitt sinn viðtöl við og ég sagði frá í grein sem birtist í Tímariti um menntarannsóknir:
Annar þeirra orðaði hugsun sína um þetta efni svona: „Það veitir okkur svona dýpt og mikla lífsfyllingu að skilja hvað heimurinn er stórkostlegur og hvað þetta er allt skrítið og við erum á fleygiferð í gegnum geiminn.“ Hann talaði líka um stjörnufræði sem góðan undirbúning fyrir lífið því í henni sæju nemendur hvað veröldin er stórkostleg. Hinn náttúrufræðikennarinn ræddi um þröngsýni þeirra sem einblína á „nytjagildi“ náms og spurði í því sambandi: „Er ekkert lífsleikni nema það sem við getum gert í Kringlunni?“ Hann svaraði spurningunni sjálfur með því að segja: „Mér finnst mikil lífsleikni að geta farið út og upplifað náttúruna“ (Atli Harðarson, 2010).
Í samræmi við þetta mælir Kristján ekki aðeins með því að skólar kenni náttúruvísindi, heldur líka að þeir kenni um trúarbrögð og tilraunir manna til að höndla æðri veruleika og rækti jafnframt með nemendum ást á sannleika og háleitum hugsjónum.
Það gefur umfjöllun Kristjáns um þetta efni heimsborgaralegan svip að hann styður hana með vísun í kínverska heimspekinginn Mengzi sem uppi var á árunum 372 til 289 fyrir okkar tímatal og því nokkurn vegin samtímamaður Aristótelesar. Mengzi átti, segir Kristján, margt sameiginlegt með Aristótelesi en kunni betur að meta það himneska. Þessi heimsborgaralegi svipur fellur vel að boðskap Kristjáns en bæði í þessari bók og fyrri ritum leggur hann áherslu á það sem mannfólkið á sameiginlegt þótt það lifi við misjöfn kjör, á ólíkum stöðum og mörgum tímum.
Menntastefna til framtíðar
Menntastefnan sem Kristján setur fram í Flourishing as the Aim of Education er að sumu leyti nýstárleg en hún er líka að sumu leyti sígild. Hann bendir á að fyrr á öldum hafi skólastarf stefnt að góðu siðferði og farsælu lífi, og fálæti um slík markmið sé fremur nýleg firra. Þetta held ég að sé hárrétt og að þorri skólamanna á fyrri tíð hefði tekið undir það sem Sveinbjörn Egilsson (1968, bls. 21) sagði í ræðu við skólasetningu í Bessastaðaskóla árið 1819: „Vér lærum ekki til að verða lærðir, heldur til að verða góðir.“
Það sem Kristján segir um farsælt mannlíf og hvernig skólar geti stuðlað að því er þörf áminning um að hugsa hátt og hugsa stórt þegar hugað er að námskrá og skólastefnu. Um sumt hefði ég viljað að hann hefði fleiri orð og ég vona að hann skrifi meira um efnið. Ein af þeim spurningum sem mér finnst að þurfi ítarlegri umfjöllun er spurningin um hvort farsældin sem að er stefnt sé einkum farsæld nemendanna sjálfra – hvort námið eigi að gagnast þeim sjálfum eða öðru fólki.
Menntun á efri skólastigum þjónar augljóslega hagsmunum annarra en nemendanna sjálfra. Rafvirkjanemar þurfa til dæmis að læra ýmislegt um öryggi og frágang á raflögnum vegna þess að það er öðru fólki til góðs að komið sé í veg fyrir slys og eldsvoða. Kennaranemar læra ýmisleg fræði vegna þess að þau gagnast börnum sem þeir munu síðar kenna.
Það gildir ekki aðeins um sérhæft nám til starfsréttinda að nám og kennsla þjóni hagsmunum annarra en nemendanna. Ég býst til dæmis við að ökukennarar reyni að innræta sextán ára ungmennum gætni og tillitssemi, bæði til þess að þau komist sjálf heil heim úr ökuferðum og til þess að þau skaði ekki annað fólk. Eins er sumt nám sem er hluti af skólagöngu ungmenna augljóslega í annarra þágu. Þetta gildir til dæmis um skyndihjálp. Það væri afkáralega sjálfhverft ef einhver vildi læra hjartahnoð vegna þess hvað það væri mikil hamingja fyrir hann sjálfan að bjarga öðrum. Ef fólk lærir þetta með réttu hugarfari þá læra það í annarra þágu.
Mig grunar að þetta sem gildir augljóslega um skyndihjálp gildi að nokkru marki um margt annað sem fólk lærir í skólum. Eigi farsælt líf að vera meginmarkmið skólagöngu, eins og Kristján segir, og eigi þetta markmið að ráða námskrá og starfsháttum skólanna, þarf þá ekki að huga að því hverjir skuli njóta farsældarinnar? Nú kunna einhverjir að hugsa sem svo að þetta megi einu gilda, því sé fólk farsælt í krafti þess að hafa gott siðferði þá hljóti farsæld eins að koma öðrum til góða. Það er þó munur á einstaklingshyggju um menntun, sem segir að hún gagnist einkum nemandanum sjálfum, og félagshyggju um menntun, sem felur í sér að einstaklingur menntist ekki aðeins sjálfs sín vegna heldur líka til þess að láta gott af sé leiða fyrir aðra. Þessi munur birtist til dæmis í því hvernig þeir sem bera ábyrgð á skólum geta svarað nemendum sem spyrja hvers vegna þeir þurfi að læra þetta eða hitt. Eiga þeir að segja nemendum að þeir læri aðeins sjálfs sín vegna eða að námið eigi að stuðla að farsælu samfélagi og vera öllum til góðs? Á einkum að hugsa um hvað er gott fyrir nemendurna sjálfa eða á jafnframt að huga að hamingju maka og barna sem þeir munu eignast síðar á lífsleiðinni, vinnufélaga, allra samborgara og jafnvel allra jarðabúa?
Ég ætla ekki að svara þessum spurningum hér heldur ljúka þessum pistli í þeirri von að hann veki áhuga á bókinni. Ég mæli hiklaust með henni og vona að hún hafi áhrif á skólastefnu og skólastarf.
Rit
Aristóteles. (1995). Siðfræði Níkomakkosar (íslensk þýðing Svavar Hrafn Svavarsson). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Aristóteles. (1999). Frumspekin I (íslensk þýðing Svavar Hrafn Svavarsson). Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag.
Atli Harðarson. (2010). Skilningur framhaldsskólakennara á almennum námsmarkmiðum. Tímarit um menntarannsóknir, 7, 93–107.
Atli Harðarson. (2014). Education and Enlightenment: The Philosophy of Kristján Kristjánsson. Í Gabriel Malenfant (ritstj.), Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy (bls 151–166 ). Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.
Kristján Kristjánsson. (2002). Justifying Emotions: Pride and Jealousy. London: Routledge.
Kristján Kristjánsson. (2006). Justice and Desert-Based Emotions. Aldershot: Ashgate Publishing.
Kristján Kristjánsson. (2007). Aristotle, Emotions, and Education. Aldershot: Ashgate Publishing.
Kristján Kristjánsson. (2010). The Self and Its Emotions. Cambridge: Cambridge University Press.
Kristján Kristjánsson. (2013). Virtues and Vices in Positive Psychology: A Philosophical Critique. Cambridge: Cambridge University Press.
Kristján Kristjánsson. (2015). Aristotelian Character Education. London: Routledge.
Kristján Kristjánsson. (2018). Virtuous Emotions. Oxford: Oxford University Press.
Kristján Kristjánsson. (2020). Flourishing as the Aim of Education: A Neo-Aristotelian View. London: Routledge.
Sveinbjörn Egilsson. (1968). Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
[1] Hér er aðeins vísað í nokkrar af bókum Kristjáns en hann er einnig höfundur mikils fjölda greina í fræðilegum tímaritum. Stutt yfirlit um skrif hans til 2012 ásamt lýsingu á þeim aðferðum sem hann notar er í bókinni Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy (Atli Harðarson, 2014).
Atli Harðarson (atlivh@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://notendur.hi.is/atlivh/