Anna Magnea Hreinsdóttir
Í nýrri skýrslu Eurydice, samstarfsvettvangs Evrópuþjóða á sviði menntamála, má greina stöðu leikskólastigsins á Íslandi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir (European Commission/EACEA/Eurydice, 2019). Í skýrslunni er meðal annars fjallað um rétt barna til þátttöku í leikskólastarfi, umönnunarbilið sem myndast milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og kostnað foreldra við leikskólagöngu barna sinna. Grunnmenntun og starfsþróun kennara er skoðuð og gerð er grein fyrir kjarna leikskólastarfs, það er hvernig umönnun, kennsla og nám er skipulagt í námskrá og hvernig samfella er tryggð í námi barna. Að auki er rætt um mat á starfi leikskóla og á námi barna og framförum. Ýmsar vangaveltur vakna við lestur skýrslunnar sem verða viðraðar hér.
Réttur barna til þátttöku í leikskólastarfi
Í skýrslunni kemur fram að gott aðgengi barna að leikskólum er forgangsatriði hjá stjórnvöldum í Evrópu. Lögð er áhersla á að börn eigi rétt á dvöl í góðum leikskólum og þá sérstaklega börn í viðkvæmri félagslegri stöð, þar sem rannsóknir hafa sýnt að þátttaka barna í leikskólastarfi eykur þroska þeirra og námsárangur. Þátttakan dregur einnig úr félagslegum ójöfnuði og minnkar muninn milli barna með ólíkan félagslegan bakgrunn og eykur líkur á að báðir foreldrar geti tekið þátt í atvinnulífi eða námi. Fram kemur að tvær leiðir hafi aðallega verið farnar í Evrópu til að tryggja rétt barna til þátttöku í leikskólum. Annars vegar hefur það verið gert með því að sjá til þess að næg rými séu til staðar fyrir öll börn með lagasetningu um slíkt, hins vegar með því að gera hluta eða alla leikskólagöngu barna að skyldunámi. Með lagasetningu um rétt barna til leikskólagöngu er verið að tryggja börnum á ákveðnum aldri þátttöku í leikskólastarfi. Rétturinn hefur í för með sér að sveitarfélög verða að tryggja börnum dvöl innan ákveðins tíma, óski foreldrar eftir því. Samkvæmt skýrslu Eurydice tryggja átta Evrópulönd börnum þátttöku í leikskólastarfi skömmu eftir að fæðingarorlofi lýkur og eru norðurlöndin Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð fjögur þeirra. Á Íslandi hafa ekki verið sett lög um aðgang barna að leikskólum en litið er á leikskóla sem fyrsta skólastigið, þó án skyldu.
Á Íslandi setja mörg sveitarfélög sér reglur um aldursviðmið við upphaf leikskólagöngu og forgang fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Fram kemur í skýrslunni að fimm Evrópulönd hafi gert síðasta ár leikskólagöngu að skyldunámi og tvö lönd hafa skyldað börn til að ganga tvö til þrjú ár í leikskóla áður en grunnskólaganga hefst. Þar sem slíkt er gert er reiknað með allt að 26 tíma lágmarksþátttöku á viku. Samkvæmt Hagstofu Íslands dvöldu börn undir þriggja ára aldri að meðaltali um 37,3 tíma á viku í leikskóla á Íslandi árið 2016, en börn eldri en þriggja ára 38,1 tíma á viku (Hagstofa Íslands, 2019). Meðaltal dvalartíma barna í Evrópu var um 28 tímar fyrir báða hópana. Er dvalartími barna á Íslandi því vel yfir meðaltali. Lengd dvalartíma barna hefur áhrif á börnin sjálf, foreldra og rekstur leikskóla. Löng dvöl barna gerir báðum foreldrum kleift að vinna fullan vinnudag eða stunda fullt nám, en umræða er meðal foreldra, leikskólakennara og fræðimanna um áhrif langs dvalartíma á félagsþroska barna og vellíðan.
Í skýrslu Eurydice er einnig fjallað um hvernig Evrópuríkjum gengur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu barna. Bilið er þekkt sem umönnunarbilið en flest Evrópulöndin búa við slíkt bil þegar fæðingarorlofi lýkur áður en búið er að tryggja börnum rétt til leikskólagöngu. Mikill munur er á lengd fæðingarorlofs og upphafs leikskólagöngu í Evrópulöndunum, sum þeirra leggja áherslu á að börn fái umönnun heima og hvetja til þess t.d. með greiðslum til foreldra. Önnur lönd leggja áherslu á jafnrétti kynja á vinnumarkaði með því að sjá til þess að öll börn hafi aðgang að leikskóla eftir að fæðingarorlofi lýkur. Mikilvægast er þó að skapa samfellu milli kerfa. Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á lagaramma Evrópuríkja til að tryggja aukinn aðgang barna að leikskólum. Fram kemur í skýrslu Eurydice að Evrópuríkjum hefur ekki tekist að tryggja almennan aðgang barna yngri en þriggja ára að leikskólum en þátttaka barna eldri en þriggja ára er yfir 95% í flestum Evrópulöndum. Það sama á við um Ísland en 64,6% barna yngri en þriggja ára aldri sækja leikskóla á Íslandi og 97,4% barna eldri en þriggja ára. Er það með hæstu þátttöku barna í leikskólum í Evrópu.
Fram kemur í skýrslunni að lögð er áhersla á að lækka kostnaðarþátttöku foreldra í leikskóladvöl barna með það fyrir augum að jafna aðgengi óháð félagslegum bakgrunni. Kostnaðarhlutdeild foreldra hefur farið lækkandi á undanförnum árum á Íslandi. Í flestum Evrópulöndum greiða foreldrar fyrir dvöl yngstu barnanna en kostnaður þeirra lækkar við þriggja ára aldur og er ekki greitt fyrir dvöl elstu barnanna í flestum Evrópulöndum. Ísland er eitt þeirra fáu landa sem reikna með kostnaðarhlutdeild foreldra alla leikskólagönguna. Þess skal getið að þegar ekki er greitt gjald fyrir leikskóladvölina þurfa foreldrar oft að greiða fyrir fæði. Víða eru leikskólagjöld tekjutengd eða tengd fjölda systkina með afslætti eftir því sem börnin eru fleiri og víða er systkinaforgangur veittur, þar á meðal hér á Íslandi.
Vel menntað starfsfólk leikskóla
Mikilvægi aukinnar fagmennsku starfsfólks leikskóla er rætt í skýrslu Eurydice, þar sem sýnt hefur verið fram á jákvæð tengsl menntunar starfsfólks leikskóla og gæði starfsins. Með vel menntuðu starfsfólki aukast gæði samskipta og viðfangsefna í leikskólum sem leiðir til aukins árangurs í námi barna. Ólíkar kröfur eru gerðar til grunnmenntunar starfsfólks leikskóla í Evrópu. Í mörgum Evrópulöngum bera teymi starfsfólks ábyrgð á hópi barna, fremur en að einn kennari sinni hópnum. Sum lönd hafa sett sömu lágmarks menntunarkröfur á öll störf, önnur gera greinarmun á störfum kennara og leiðbeinenda eins og gert er á Íslandi.
Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnanda nr. 87/2008 er gert ráð fyrir því að leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari sé aðeins veitt þeim sem lokið hefur meistaraprófi í leikskólakennarafræðum. Í sömu lögum kemur fram að 2/3 hlutar að lágmarki stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara. Sú hefur ekki verið raunin á landsvísu þau ellefu ár sem liðin eru frá setningu laganna, en árið 2017 var 25% starfsfólks leikskóla á Íslandi með leikskólakennaramenntun og 11% með aðra uppeldismenntun á háskólastigi (Hagstofa Íslands, 2019). Fram kemur í skýrslu Eurydice að í flestum Evrópulöndum er gerð krafa um bakkalárgráðu að lágmarki, en á Íslandi og í Portugal er krafist meistaragráðu. Í mörgum löndum er gerður greinarmunur á því hvort unnið sé með yngri börnum eða eldri og eru minni menntunarkröfur gerðar til starfsfólks sem vinnur með yngri börnum. Engar menntunarkröfur eru gerðar til leiðbeinenda sem á Íslandi eru samkvæmt lögum 1/3 af þeim sem starfa með börnum en í reynd allt að 2/3 þar sem skortur er á leikskólakennurum.
Fyrstu skref kennara í starfi í leikskóla eru mikilvæg og þörf er á stuðningi við nýja kennara. Launað starfsnám á lokaári námsins gefur þeim tækifæri til að vinna flest þau störf sem kennarar vinna undir leiðsögn reyndra kennara, þar sem þeim er veittur stuðningur og endurgjöf. Slíkt fyrirkomulag er þó ekki víða í Evrópu en var innleitt á Íslandi frá og með haustinu 2019 (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2019).
Í skýrslunni kemur fram að mikilvægt þykir að starfsfólk leikskóla stundi markvissa starfsþróun sem felst í að afla sér nýrrar þekkingar, öðlast færni í kennsluaðferðum og dýpka skilning sinn á menntun ungra barna. Því ætti starfsþróun að vera klæðskerasniðin að hverjum starfsmannahópi og gerð að skilyrði fyrir áframhaldandi starfi í leikskóla.
Námskrá og gæði starfsins
Samkvæmt skýrslu Eurydice er Ísland í hópi þeirra Evrópulanda sem hafa sett námskrá fyrir bæði yngri og eldri börn í leikskóla. Liggur styrkleiki Íslands í sameiginlegri aðalnámskrá fyrir öll skólastig sem á að tryggja samfellu í námi barna frá leikskóla til og með framhaldsskóla. Gæði leikskólastarfs ráðast af því hvernig samskipti og umönnun fer fram í daglegu starfi, hvernig þörfum barna er mætt og á hvaða hátt vellíðan, nám og þroski þeirra er tryggður. Gott jafnvægi milli umönnunar og menntunar leggur grunn að vitsmuna-, félags- og líkamsþroska barna og hjálpar þeim að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Fjölbreytt viðfangsefni og kennsluaðferðir stuðla að markvissum árangri og er Aðalnámskrá leikskóla sá rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið sem unnið er eftir (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.
Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum, skólum, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla og segja má að aðalnámskrá sé samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál. Í mörgum Evrópulöndum byggja sveitarfélög skólastefnur sínar á aðalnámskrá með ítarlegri útfærslu á framkvæmd skólastarfsins og sérstöðu sveitarfélagsins. Byggja leikskólar síðan skólanámskrá sína á aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu viðkomandi sveitarfélags. Leikskólar eru hvattir til að móta sér sérstöðu í skólanámskrá (Lög um leikskóla nr. 90/2008). Skólanámskrá leikskóla á að taka mið af áhuga barna og sjónarmiðum og skal hún unnin í samvinnu við leikskólakennara, annað starfsfólk, börn og foreldra. Með þátttöku og samræðum þessara aðila mótast helstu áherslur og viðmið í starfi leikskólans. Skólanámskráin er því eins konar sáttmáli um hvaða leiðir hver leikskóli ætlar að fara í starfsaðferðum og samskiptum til að efla menntun barna og stuðla að starfsþróun og fagmennsku innan leikskólans. Skólanámskráin tekur til alls þess sem unnið er með börnunum í leikskólanum og birtist í öllu daglegu starfi hans.
Fram kemur í skýrslu Eurydice að námskrár Evrópuríkja innihaldi marga sameiginlega þætti. Má þar helst nefna áherslu á félagsfærni, líkamsþroska, sköpun, málörvun, sjálfbærni og heilbrigði. Sameiginlegar áherslur fyrir eldri börn í leikskólum eru að læra að læra, borgaravitund, stærðfræði og læsi en það eru þeir þættir sem helst falla undir formlegt nám. Ísland er eitt þeirra sjö landa sem fjalla ekki sérstaklega um formlegt lestrarnám í leikskólum, þó svo að lögð sé áhersla á málörvun og samskipti. Það er sameiginlegur skilningur allra Evrópuríkja að leikur sé mikilvægasta námsleið barna.
Skýrsla Eurydice sýnir einnig að lögð er áhersla á þátttöku foreldra í námi barna sinna. Sjónarmið foreldra og framlag þeirra til leikskólastarfs er mikilvægur liður í því að hafa heildarsýn á velferð og vellíðan barna. Formleg aðkoma foreldra að starfi leikskóla er lögfest á Íslandi í foreldraráði leikskólans og er hlutverk þess að gefa umsagnir til leikskóla og fræðslunefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans (Lög um leikskóla nr. 90/2008). Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur einnig umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.
Hópastærð barna hefur töluverð áhrif á hversu árangursrík leikskóladvöl þeirra er og hefur áhrif á mönnun leikskóla, stjórnun þeirra og ekki síst gæði starfsins. Fámennir barnahópar tryggja að hvert barn fái nægilega athygli sem er mikilvægt fyrir félags- og tilfinningaþroska ungra barna, líkamlega vellíðan og alhliða nám þeirra. Náin samskipti kennara og barns hjálpa börnum að öðlast öryggi og dregur úr kvíða bæði fyrir börn og kennara. Fram kemur í skýrslunni að flest Evrópulönd hafa sett sér viðmið um þessi atriði sem gefa góða mynd af þeim kröfum sem gerðar eru til kennara. Ýmist eru sett viðmið um barnafjölda á kennara eða fjölda barna í hóp/á deild. Viðmið þessi taka mið af aldri barna og dvalartíma. Fram kemur að hámarksfjöldi yngstu barnanna í hóp sé 12-16 börn en 23-25 börn eldri en fjögurra ára. Misjafnt er hversu margir starfsmenn sinna hópunum og hvaða kröfur eru gerðar til menntunar þeirra. Átta börn á kennara virðist þó vera gegnumgangandi viðmið. Einhver lönd í Evrópu gefa leikskólum sjálfræði í að ákveða barnafjölda á kennara og fjölda barna í hóp og er Ísland nefnt sem eitt þeirra, þar sem núverandi reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 segir að leikskólastjóri, að höfðu samráði við sveitarstjórn eða nefnd sveitarfélags sem fer með málefni leikskóla í sveitarfélaginu, tekur ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Í reglugerðinni segir jafnframt að ákvörðun um fjölda barna og skipulag skólastarfs skuli taka mið af samsetningu barnahópsins, dvalartíma barna dag hvern, aldri þeirra og þörfum, samsetningu starfsmannahóps og umfangi sérfræðiþjónustu. Til að ná markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrár skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvert barn á hverri deild þar sem meginhluti umönnunar, náms og uppeldis fer fram.
Í 29 Evrópulöndum nægir að ná ákveðnum aldri til að hefja skólagöngu í grunnskóla. Ísland er meðal þeirra og eitt þeirra landa sem seinka ekki skólagöngu barna vegna sérþarfa eða fötlunar heldur veitir fremur frekari stuðning við nám þeirra og kennslu. Lögð er áhersla á undirbúning fyrir grunnskólanám í 14 evrópulöndum. Hann felst yfirleitt í því að barn þarf að hafa náð ákveðinni færni til að vera tilbúið til að ganga í grunnskóla sem oftast felst í því að barnið sé tilbúið tilfinningalega, andlega og líkamlega til að standast þær kröfur sem grunnskólinn setur. Víða í Evrópu hafa tengsl skólastiga og samfella í námi verið rannsökuð, meðal annars hér á landi og hafa sveitarfélög og skólar formgert samstarf leik- og grunnskóla til að auka samfellu og líkur á að þátttaka á nýju skólastigi gangi vel. Upplýsingagjöf á milli skólastiga hefur verið færð í reglugerð á Íslandi og ætlast er til þess að upplýsingar um nám barna fari á milli kennara úr leikskólum í grunnskóla (Reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla nr. 896/2009). Að auki hefur samreknum leikskólum og grunnskólum fjölgað hér á landi þar sem börn eru í kunnuglegum aðstæðum í leikskóla- og grunnskólagöngu sinni.
Mat á námi barna og starfsemi leikskóla
Allar Evrópuþjóðir hafa komið sér saman um að skráningar og athuganir séu megin aðferðir í mati á námi barna á leikskólaaldri. Skýrsla Eurydice sýnir að það er eina aðferðin sem notuð er í helmingi landanna. Upplýsingum um nám barns er safnað í ferilmöppu þess, en hún inniheldur safn verka barnsins og námsferils þess (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013). Börnin taka virkan þátt í að safna gögnum í þessar möppur og fjalla um þau. Fjölbreyttar leiðir eru við gerð og utanumhald ferilmöppu en tilgangur hennar er að efla ígrundun og mat á námi og þroska barns en einnig að gefa upplýsingar um framfarir þess og líðan. Mikilvægur liður í gerð ferlimöppu er ígrundun og mat á framförum barnsins í samvinnu starfsfólks, barnsins og fjölskyldu þess. Ferilmappa getur sagt sögu barnsins, hvað það getur og kann. Hún gefur einnig upplýsingar um áhugasvið þess, kunnáttu og hæfni. Það er því ekki útbreidd framkvæmd að meta nám barna í leikskóla eftir fyrirfram gefnum viðmiðum eða stöðlum. Tólf Evrópuþjóðir mæla þó með því að meta nám barna með tékklistum en oftast þó með öðrum aðferðum. Í flestum löndum er skráning og athugun sem byggir á tékklistum aðeins ein þeirra matsaðferða sem mælt er með. Einungis fimm evrópulönd nota stöðluð próf.
Skýrsla Eurydice sýnir að ein leið til að þróa gæði leikskólastarfs er mat á starfseminni. Það er gert í þeim tilgangi að meta árangur starfsins, taka út gæði skólans og koma með tillögur að úrbótum. Á Íslandi eru gerðar kröfur í lögum og reglugerð um að hver leikskóli eigi að leggja mat á árangur og gæði skólastarfsins. Innra mat á að byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni. Mikilvægt telst að starfsfólk, foreldrar, börn og foreldraráð taki þátt í mati eftir því sem við á. Virkt innra mat á að vera samofið daglegu starfi leikskólans og skapa forsendur fyrir markvissri skoðun á árangri, leiðum að markmiðum og aukinni ábyrgð leikskóla á eigin starfi. Leikskólar eiga að birta niðurstöður mats og umbótaáætlun á heimasíðu sinni eða með öðrum opinberum hætti. Slíkar kröfur eru ekki gerðar víða í Evrópu en þar sem það er gert er reiknað með að innra mat sé framkvæmt reglulega. Á Íslandi er einnig gerð krafa um að leikskólar sýni fram á tengsl innra mats við skólanámskrá, starfsáætlun og stefnu sveitarfélagsins um leikskólastarf.
Þátttaka foreldra og barna í innra mati er talin mikilvæg og sýnir skýrsla Eurydice að foreldrar taka oftar þátt í innra mati en börnin. Flest Evrópulöndin eru með leiðbeiningar um hvernig haga á þátttöku foreldra í mati á starfi leikskóla og er oftar reiknað með þátttöku foreldra og eldri barna í mati á leikskólum en yngri barna. Þær aðferðir sem algengt er að nota til að kanna mat foreldra á leikskólastarfi eru viðtöl, spurningakannanir, rýnihópar í leikskólunum eða með aðstoð utanaðkomandi matsaðila. Eru foreldrar helst spurðir um samstarf og samskipti við starfsfólk, um öryggisatriði, gæði náms og umönnunar og um almenna ánægju með leikskóladvöl barns síns.
Á Íslandi er gert ráð fyrir þátttöku barna í mati á leikskólastarfi í lögum um leikskóla, aðalnámskrá og reglugerð um mat á leikskólastarfi. Fram kemur í skýrslu Eurydice að fimmtán Evrópulönd setja leiðbeiningar um hvernig þátttöku barna skal háttað og er leikskólum í sjálfsvald sett hvernig þeir standa að því. Hefur mikil þróun átt sér stað í aðferðum sérstaklega hönnuðum með það í huga að efla þátttöku barna í mati á starfi leikskóla og á eigin námi m.a. í rýnihópum, með ljósmyndum og í leik. Benda rannsóknir til þess að þátttaka barna í mati á leikskólastarfi geti meðal annars aukið sjálfsálit barnanna og innsýn þeirra í þátttöku í lýðræðislegum vinnubrögðum (Anna Magnea Hreinsdóttir, 2009, 2012; Clark og Moss, 2001). Að hlusta á börn getur haft áhrif á viðhorf foreldra þeirra og starfsfólks til getu barnanna og innsæis þeirra, og getur til dæmis leitt til þess að skipulag rýmis sé breytt. Þannig er mikilvægt að álit barna verði vegvísir til aðgerða og að sjónarmið þeirra séu tekin alvarlega og að þau leiði til aukins skilnings á reynslu þeirra og til breytinga á leikskólastarfi.
Lokaorð
Skýrsla Eurydice staðfestir að Ísland er með sterka umgjörð um leikskólastigið sem telst fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Er þátttaka barna í leikskólastarfi útbreidd og dvelja þau hvað lengstan dag í leikskólum hér á landi. Einnig eru gerðar ríkar menntunarkröfur til starfsfólks þó svo að í dag séu einungis fjórðungur þess með leikskólakennaramenntun. Námskrá er leiðbeinandi og hefur sameiginlega grunnþætti á öllum skólastigum, sem eykur samfellu í námi barna. Mat á námi barna og starfsemi leikskóla er lögbundið og framkvæmt reglulega og með markvissum hætti. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku foreldra og barna í skipulagi og framkvæmd skólastarfsins í góðu samstarfi við starfsfólk leikskóla. Þeir sem að leikskólastarfi hafa komið á síðustu áratugum hafa lagt grunninn að sterkri umgjörð og sett háleit markmið um starfsemina sem við getum öll verið stolt af. Nú bíður okkar það verkefni á næstu árum að ná þessum markmiðum með því að laða að leikskólanum vel menntaða kennara og búa börnum og kennurum gott starfsumhverfi.
Heimildir:
Anna Magnea Hreinsdóttir. (2009). „Af því að við erum börn“: Lýðræðislegt umræðumat á menntun barna og þjónustu fjögurra íslenskra leikskóla. Reykjavík: Háskóli Íslands, Menntavísindasvið.
Anna Magnea Hreinsdóttir. (2012). „Hver hlustar?“: Raddir barna og áhrif þeirra á leikskólastarf. Í Jóhanna Einarsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir (ritstjórar), Raddir barna (bls. 75–99). Reykjavík: Háskólaútgáfan og Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna (RannUng).
Clark, A. og Moss, P. (2001). Listening to young children. London: National Children’s Bureau and Rowntree Foundation
European Commission/EACEA/Eurydice. (2019). Key Data on Early Childhood Education and Care in Europe – 2019 Edition. Eurydice Report. Luxembourg: Publications Office of the European Union. Sjá https://publications.europa.eu/en/publication-detail/-/publication/5816a817-b72a-11e9-9d01-01aa75ed71a1/language-en/format-PDF/source-102611557
Hagstofa Íslands. (2019). Starfsfólk í leikskólum eftir menntun 1998-2017. Sótt af: https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__skolamal__1_leikskolastig__1_lsStarfsfolk/SKO01303.px
Lög um leikskóla nr. 90/2008
Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnanda nr. 87/2008
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík: Höfundur.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2013). Þemahefti um námsmat í leikskólum. Reykjavík: Anna Magnea Hreinsdóttir.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2019). Aðgerðir í menntamálum kynntar – nýliðun kennara. Sótt af: https://www.samband.is/frettir/skolamal/adgerdir-i-menntamalum-kynntar-vardandi-nylidun-kennara
Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald nr. 893/2009
Reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla nr. 896/2009
Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009
Anna Magnea Hreinsdóttir annamagnea@borgarbyggd.is er sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar. Hún lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola, Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún hefur unnið sem leikskólastjóri og rekið leikskóla í tugi ára. Hún var leikskólafulltrúi Garðabæjar í áratug og sér nú meðal annars um leik- og grunnskóla Borgarbyggðar.