Sigþór Magnússon
Ég hóf kennslu í Mýrarhúsaskóla, ný útskrifaður, haustið 1973. Strax sumarið eftir fór ég, eins og títt var um kennara þá, á nokkur námskeið. Það var að koma út nýtt námsefni í stærðfræði, samfélagsfræði og fleiri námsgreinum. Mig, eins og fjölda annara kennara, hungraði eftir þessu nýja námsefni. Komandi vetur var ég, karlkennarinn, að fara að kenna öðrum og þriðja bekk. Líklega vakti það athygli því í lok þessara námskeiða var ég spurður hvort ég vildi tilraunakenna námsefni fyrir þessa aldurhópa í samfélagsfræði og stærðfræði. Ég sló til og þar með hófst í raun háskólanám mitt í kennslufræðum.
Fljótlega einbeitti ég mér að samfélagsfræði þar sem ég vann með Kristínu Tryggvadóttur og Sigríði Jónsdóttur. Fyrr en varði dró Sigríður mig inn í hóp sem var að semja og móta námsefni fyrir yngstu börnin. Seinna unnum við Ragnar Gíslason ásamt Ingvari Sigurgeirssyni að kennslubók um Landnám Íslands. Þetta var leið mín inn í samfélagsfræðihópinn. Næstu árin lærði ég óhemjumikið af því að vinna með þessu fólki. Ekki hvað síst þegar ég fór að komast á vinnuvikur hópsins þar sem Wolfgang Edelstein og seinna Monika Keller fræddu og kveiktu elda forvitni og frjórra hugmynda. Þau kynni leiddu meðal annars til þess að ég fór að þreifa mig áfram með aðferðir sem eiga að stuðla að því að efla siðferðisþroska (e. moral development). Ég lagði klípusögur fyrir nemendur og notaði samræðu- og spurningaaðferðir við lausnaleit. Samvinna á þessu svið með Sigrúnu Aðalbjarnar var mér ómetanleg.
Haustið 1981 fluttum við hjónin til Hornafjarðar þar sem ég var skólastjóri og fjarlægðist ég þá aðeins samfélagsfræðihópinn. Ég var svo staddur á löngu ferðalagi í Bandaríkjunum þegar samfélagsfræðihópurinn var leystur upp og því var nafnið mitt ekki á því mótmælaskjali sem var undirritað um það leyti. Hrólfur Kjartansson sagði mér síðar að líklega hefði það haft áhrif á að Ragnhildur Helgadóttir menntamálaráðherra tók áhættuna á að ráða mig sem námstjóra þegar ég sótti um það starf.
Þegar ég tók að mér námstjórn á þessari bannfærðu námsgrein haustið 1985 var búið að setja á laggirnar nefnd tíu valinkunnra manna til að móta fagið. Hún fundaði mánaðarlega í eitt ár án þess að þar yrði veruleg niðurstaða önnur en að klippa texta út úr drögum að námskrá í samfélgasfræði sem þá lá fyrir. Mér fannst þetta gert frekar ómarkvist efnislega en til styttingar. Á meðan, nefndin starfaði voru hendur mínar að mestu bundnar varðandi námsefnisgerð en þó var hægt að ýta af stað nýju námsefni í mannkynsögu og Gunnar Karlsson hélt áfram að skrifa Íslandssögu sína, Sjálfstæði Íslendinga. Ég fór engu að síður um landið á kennaraþing og kynnti þar samfélagsfræðinámsefnið. Ég fann verulega fyrir því að það þurfti að halda þessu námsefni á lofti. En um leið reyndi ég að finna málamiðlun milli þess og þeirra óljósu hugmynda sem voru á sveimi um hvað ætti að koma í staðinn. Það þurfti til dæmis að hafa fyrir því að koma því til leiðar að yfirheiti námsgreinarinnar yrði samfélagsgreinar en ekki bara landafræði og saga.
Námstjórar voru oft kallaðir til samstarfs við aðila utan skólasamfélagsins. Þannig var eitt sinn óskað eftir samvinnu okkar með Amnesty International um að koma á lítilli ráðstefnu um friðarfræðslu. Mér var falið verkefnið og fór ég til fundar við þetta góða fólk. Við lögðumst yfir málið og settum upp skipulag. Ég bar það síðan undir Hrólf.
„Nei, Sigþór minn, þetta gengur aldrei,“ sagði Hrólfur og ég varð agndofa.
„Ragnhildur heimilar aldrei að ráðuneytið taki þátt í friðarfræðslu,“ hélt hann áfram.
„En… hvar stendur það?“ spyr ég.
„Þetta er bara svona þú getur ekki tekið þátt í þessu fyrir hönd ráðuneytisins.“
Mér varð ljóst að þetta væri útrætt. Mér fannst skítt að öll vinnan væri fyrir bý og að þetta góða málefni fengi ekki eðlilega umfjöllun. En þá fékk ég eina af mínum betri hugmyndum og bar hana undir samstafsmenn mína. Engu var breytt nema einu orði.
Síðan fór ég aftur á fund Hrólfs.
„Jú,“ sagði hann og kímdi, „við getum tekið þátt í þessum fundi um mannréttindamál.“
Hrólfur vissi að það hljómaði ekki eins og komúnismi í eyrum Ragnildar.
Á þessum árum var mikið rætt um samþættingu og samruna greina og hvort breytinga væri þörf. Oftar en ekki var niðurstaðan líkt og ég hef párað vonsvikinn hjá mér í lok einhvers fundar:
Við höfum fundið fína leið,
fagið verður númer eitt.
Björgum oss úr bráðri neyð,
breytum okkur ekki neitt.
Á Hornafjarðarárum mínum hafði Guðmundur Magnússon fræðslustjóri beðið mig um að aðstoða starfsmenn við tvo fámenna skóla í umdæminu. Í hvorugum skólanum var faglærður kennari og enginn með reynslu úr fámennum skóla. Þeir voru því að reyna að skipa um 30 börnum úr 7 árgöngum í bekkjarkerfi. Ekki var gert ráð fyrir neinni samkennslu því þeir sem áttu að sjá um kennsluna þekktu hana ekki, og voru undrandi á að það tímamagn sem þeir höfðu til kennslu gekk ekki upp. Vaknaði þar áhugi minn á stöðu fámennra skóla.
Þegar mér var ljóst að námstjórahendur mínar væru meira og minna bundnar meðan nefndin stóra væri að störfum stakk ég upp á því við Hrólf að mitt þróunarverkefni væri að kynna mér stöðu þessara fámennu skóla sérstakalega. Varð það úr og á næstu mánuðum heimsótti ég fjöldan allan af fámennum skólum á landinu. Ég heillaðist af fjölbreytileikanum. Þó svo ég hafi í byrjun bara séð mikinn vanmátt þá kynntist ég fljótlega skólamönnum í fámennum skólum sem voru meðal þeirra framsæknustu á landinu.
Var nú ákveðið að blása til námskeiðs fyrir kennara fámennra skóla og komu þá til liðs við mig þau Guðmundur Ingi Leifsson fræðslustjóri Norðurlands vestra og Sigurlín Sveinbjarnardóttir námstjóri í dönsku. Við undirbjuggum og héldum viku námskeið að Skógum og fengum til liðs við okkur Gunnar Skjölberg, norskan skólastjóra til að segja okkur frá stöðu slíkra skóla í Noregi.
Í stuttu máli má segja að þetta námskeið og ferð íslenskra skólamanna úr fámennum skólum til Noregs skömmu síðar hafi orðið til þess að efla mjög hug þessa skólafólks. Síðar voru stofnuðu Samtök fámennra skóla sem unnu afar ötult starf í meira en 10 ár. Þetta þróunarverkefni var okkur Hrólfi afar kært og nefndi hann það oft sem dæmi um hvernig deildin gæti sett verkefni af stað sem síðan lifði góðu sjálfstæðu lífi.
Annað verkefni sem ég tók að mér var að móta hugmyndir um stefnumörkun skóla og starfsáætlun en ég hafði unnið slíka áætlun – Námsvísi -, með kennurum mínum á Hornafirði. Mikil umræða var um hvað slík áætlun ætti að heita og hvernig hún ætti að vinnast. Ég skrifaði því fyrstu leiðbeiningar ráðuneytisins um þetta efni og bar hún heitið Starfáætlun skóla – tæki til stefnumótunar í ágúst 1988. Skólanámskrárhugtakið var í mótun og ég var þeirrar skoðunar og er enn að hugtakið skólanámskrá væri yfirheiti yfir allar útgefnar áætlanir, reglur og stefnumörkun hvers skóla en á þessum tíma var á stundum sett heitið skólanámskrá á bæklinga sem voru einungis upptalning á því sem taka ætti til náms í hverjum árgangi. Það vildi ég kalla námsvísi eins og margir gerðu.
Reynsla mín af skólastjórn veitti mér nokkra sérstöðu í skólaþróunardeildinni. Oft á tíðum leit ég á skólastarfið frá því sjónarhorni. Þetta leiddi til ófagbundinna verkefna. Í góðri samvinnu við Margréti Harðardóttur tókum við saman heftin Valdakerfi grunnskólans 1988 og Fámennir skólar – niðurstöður úr könnun, sem kom út 1990.
Á þessum árum ræddum við oft framtíð deildarinnar og var ljóst að stefnt væri að því að minka hana verulega eða leggja jafnvel niður. Eftir einn slíkan fund hef ég párað hjá mér í kaldhæðni.
Feikilega var ég feginn
að fundarmönnum skildist eitt.
Að nú er delidin nokkurn veginn
næstum orðin ekki neitt.
Svo var það stóra verkefnið; að koma nýrri aðalnámskrá í eina bók, sem við öll í deidinni tókum virkan þátt í að móta. Ég fekk fljótlega það hlutverk að samræma uppsetningu frá hinum ýmsu greinum og las þær allar vel í gegn. Almenni hlutinn var mér hugleikinn og margar stundir sátum við Ingólfur Guðmundsson námstjóri yfir þeim texta. Það var lærdómsríkt að vinna að textagreiningu með Ingólfi og njóta, oft á tíðum, hans djúpu hugmynda frá fjölmörgum sjónarhornum.
Í þessari vinnu allri kom sjónarmið mitt sem fyrrum skólastjóri oft fram í því að ég vildi að tekin væri af tvímæli um hver væri kjarninn í því sem nemendur ættu að læra og kennarar skyldu kenna. Þannig taldi ég að svigrúmið yrði skýrara og auðveldara fyrir nemendur að fara milli ólíkra skóla, því grunnurinn væri sá sami. Það var því grimmd örlaganna sem réði því að þegar Skólamálaráð Kennarasambandsins skilaði af sér umsögn um drög að aðalnámskrá 1989 kom það í minn hlut að fara að þeirra óskum, yfir dröginn og skipta út öllu sem sagði ber að eða skal gera. Mér fannst og finnst enn að það hafi skaðað þessa námskrá.
Námstjóraferill minn hófst í tíð Ragnhildar Helgadóttur en ári síðar kom Sverrir Hermannsson og á eftir honum Birgir Ísleifur Gunnarsson, allt sjálfstæðismenn. Á fjórða árinu varð alþýðubandalagsmaðurinn Svavar Gestsson ráðherra.
Vinstri menn höfðu þær ranghugmyndir að námskráin hefði verið samin í einhverjum hægri anda. Á eftirminnilegum fundi með Svavari Gestssyni ráðherra og hans fólki tókst okkur starfsmönnum skólaþróunardeildar að sannfæra þau um að svo væri alls ekki og þess vegna var hægt að snarast í að ljúka þessu heildarverki, þ.e. aðalnámskrá grunnskóla í einni bók. Ég er stoltur af því, að hafa átt þar hlut að máli.
Starf mitt í skólaþróunardeildinni var mér dýrmæt reynsla og vinátta og samstarfsgleði starfsmanna þar, öflugt vegarnesti.
Sigþór Magnússon útskrifaðist sem kennari 1973 og kenndi næstu ár við Mýrarhúsaskóla og síðan Hólabrekkuskóla. Hann starfaði með samfélagsfræðihópnum við gerð kennsluleiðbeininga og námsbóka frá 1975 þar til hópurinn lagðist af. Auk starfa í menntamálaráðuneytinu hefur hann verið skólastóri við Hafnarskóla í Hornafirði, Klébergsskóla á Kjalarnesi og Breiðholtsskóla í Reykjavík. Hann hefur verið virkur í stéttarfélagi kennara og skólastjóra og var meðal ananrs formaður Skólastjórafélags Íslands um skeið.