Skólaumbætur í deiglu – inngangsorð Guðnýjar Helgu Gunnarsdóttur

©Kristinn Ingvarsson
Starfsmannamyndir

Guðný Helga Gunnarsdóttir

 

Ég hóf minn kennsluferil á miðstigi í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og þar var mikið að gerast á þessum tíma. Þar var unnið að þróunarverkefni sem fólst í því að draga úr heimanámi nemenda og var sérstökum heimanámstímum bætt við stundaskrá allra nemenda. Einng fór fram tilraunakennsla á nýju námsefni í samfélagsfræði fyrir yngsta stig og starfaði fólk við skólann sem vann með hópi námsefnishöfunda hjá menntamálaráðuneytinu að að endurskoðun náms- og kennsluhátta í samfélagsfræði og var gjarnan kallaður samfélagsfræðihópurinn. Mikil áhersla var lögð á hópvinnu í öllum greinum og myndræna útfærslu á verkefnum nemenda. Mýrarhúsaskóli var einnig leiðandi í kennslu sex ára barna sem ekki var lögbundin þá þessum tíma og þar fór fram öflugt starf undir stjórn bæði menntaðra grunn- og leikskólakennara. Í skólanum fór einnig fram tilraunakennsla á nýju námsefni í stærðfræði. Ég kenndi meðal annars nýtt stærðfræðinámsefni eftir Agnete Bundgaard. Við þá kennslu fengum við kennarar stuðning frá námstjóra og kennsluráðgjöfum sem á sama tíma unnu að því að þróa og prófa nýtt íslenskt námsefni í stærðfræði. Á fræðslufundum sem haldnir voru reglulega hittum við líka kennara í öðrum skólum og heyrðum hvernig þeir voru að takast á við verkefnið sem mörgum fannst erfitt. Tónmenntakennari skólans tók virkan þátt í endurskoðun og gerð námsefnis í tónmennt. Einnig má geta þess að Mýrarhúsaskóli varð 100 ára 1975 og var haldin vegleg afmælishátíð af því tilefni þar sem nemendur unnu að ýmsum þematengdum verkefnum sem tengdust sögu skólahalds á Seltjarnarnesi.

Framboð á námskeiðum á þessum tíma var gott. Hér er yfirlit yfir þau námskeið sem ég sótti fyrstu árin, sem og þróunarverkefni sem ég tók þátt í.

  • Ágúst 1975 – námskeið um dönskukennslu
  • Júní 1976 – Tvö vikulöng námskeið um líffræðikennslu á Stórutjörnum í Þingeyjarsýslu
  • Júní 1977 – Tveggja vikna námskeið um líffræðikennslu í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi
  • Ágúst 1978 – Byrjendakennsla – vikulangt námskeið í Heiðarskóla í Leirársveit
  • Þróunarverkefni um notkun spila í kennslu veturinn 1976–1977
  • Tilraunakennsla á líffræðinámsefninu um manninn, veturinn 1977–1978

Á námskeiðunum var kynnt nýtt námsefni sem var í þróun og áhersla lögð á breytingar á kennsluháttum. Í kjölfar námskeiðanna fengum við tækifæri til að prófa hugmyndir í eigin kennslu og jafnvel tilraunakenna námsefni. Þá hittum við höfunda og aðra kennara sem voru að takast á við það sama. Þetta voru gríðarlega spennandi tímar.

Júnímánuður 1976 á Stórutjörnum líður mér seint úr minni og ég veit að svo er um ýmsa aðra hér. Ég fór á líffræðinámskeið sem var fyrstu vikuna í júní. Þar var áherslan á líf í fersku vatni og farnar voru fjölmargar vettvangsferðir til að safna sýnum og dýrum sem síðan voru skoðuð og greind. Þarna opnaðist fyrir okkur algjörlega nýr heimur. Samtímis var þarna námskeið um íslenskukennslu og annað um samfélagsfræðikennslu. Þetta var allt svo spennandi og skemmtilegt að ég gat ekki slitið mig frá þessu. Ég fékk leyfi til að sækja næsta líffræðinámskeið líka og ég flaug suður og sótti Þóru dóttur mína sem þá var fjögra ára tók hana með mér. Hún undi sér þarna vel og tók þátt í að skoða náttúruna og umhverfið. Eina nóttina fékk hún reyndar hálfgerða martröð því hún hafði verið að skoða stóra humlu í víðsjá mest allan daginn.

Allt var þetta starf unnið undir stjórn námstjóranna og þess fólks sem vann í samstarfi við þá að þróun og endurnýjun námsefnis og kennsluhátta. Ýmsir eru því miður fallnir frá – sumir hverjir fyrir aldur fram. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn því þá gleymist örugglega einhver en við minnumst þeirra með virðingu og þökk.

Haustið 1978 var mér falið að vinna verkefni sem tengdist stærðfræðikennslu fyrir skólarannsóknardeild undir leiðsögn og stjórn Önnu Kristjánsdóttur námstjóra. Í kjölfarið varð ég kennsluráðgjafi og síðar námstjóri í stærðfræði. Það var ómetanlegur skóli fyrir ungan kennara að fá tækifæri til að taka þátt í því starfi sem fór fram á vegum skólarannsókardeildar, fyrst árin 1978–1983 og síðar skólaþróunardeildar 1990–1992.

Við sem tókum þátt í starfi skólarannsókna- /skólaþróunardeildanna á einn eða annan hátt erum öll komin af léttasta skeiði og því fannst okkur mikilvægt að rifja upp þetta starf núna og miðla því til skólasamfélagsins í dag.

Allt starfsumhverfi skóla og kennara er vissulega gjörbreytt frá því sem áður var en kennarar kalla eftir meiri stuðningi við starf sitt og hugsanlega má draga einhvern lærdóm af því sem gert var á þessu merkilega tímabili í íslenskri skólasögu.


Guðný Helga Gunnarsdóttir er kennari að mennt. Hún hefur skrifað námsefni í stærðfræði og lengi verið ráðgefandi um stærðfræðimenntun. Guðný hefur nýlátið af störfum sem lektor í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


Aftur á aðalsíðu

Skólaumbætur í deiglu – efni frá ráðstefnu um áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar 1966-1996

Þann 12. maí 2018 var haldið í Veröld – húsi Vigdísar málþing sem var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966-1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum og má fræðast um þetta í bókinni Sögukennsluskammdegið – Rimman um sögukennslu og samfélagsfræði 1983–1984 sem gefin var út af Háskólaútgáfunni í ritstjórn Lofts Guttormssonar, sjá hér).

Þrír fræðimenn, sem þekkja vel þetta tímabil í íslenskri skólasögu, tóku að sér að varpa ljósi á starf, stefnur, strauma og áhrif deildarinnar, auk þess sem efnt var til pallborðsumræðna með þátttöku fræðimanna og fyrrverandi starfsmanna deildanna. Erindin fluttu Helgi Skúli Kjartansson (sjá hér) sagnfræðingur og menntunarfræðingarnir Gerður G. Óskarsdóttir (sjá hér) og Jón Torfi Jónasson.

Þá fluttu stutt erindi fimm fyrrverandi starfsmenn deildanna, en eitt af markmiðum málþingsis var að fá fram viðhorf þeirra til þessa starfs: Aðalheiður Auðunsdóttir (heimilisfræði), Anna Kristjánsdóttir (stærðfræði), Sigþór Magnússon (samfélagsfræði), Þorvaldur Örn Árnason (náttúrufræði) og Þórleif Drífa Jónsdóttir (mynd- og handmennt). Hægt er að nálgast fjögur erindanna með því að smella á nöfn flytjendanna.

Að málþinginu stóð hópur fyrrverandi starfsmanna í samstarfi við Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti þingið. Ráðstefnustjóri var Ólafur Helgi Jóhannsson.

Guðný Helga Gunnarsdóttir, lektor við Kennaradeild Háskóla Íslands, setti málþingið og greindi frá undirbúningi þess, en hugmyndina átti Sigurlín Sveinbjarnardóttir fv. námstjóri í dönsku. Hún vék síðan að því skólasamfélagi sem tók við henni þegar hún hóf kennslu hér á landi 1975 eftir að hafa verið um skeið við nám og störf í Danmörku. Inngangsorðin má lesa hér.

Að loknum erindum var efnt til pallborðsumræðna. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor stýrði umræðum um hvaða lærdóma mætti draga af starfi ráðuneytisdeildanna. Þátttakendur voru Anna Kristín Sigurðardóttir dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Guðmundur B. Kristmundsson fv. námstjóri í íslensku, Guðný Helgadóttir fv. deildarstjóri í menntamálaráðuneyti og Ólafur Proppé fv. rektor Kennaraháskóla Íslands og fyrrverandi formaður prófanefndar menntamálaráðuneytis.
Af tossum og táknfræði

Hafþór Guðjónsson

 

 En svo kom að skrift og stafsetningu og þá hrundi veröldin.
(Bubbi Mortens)

Hinn 12. janúar síðasliðinn birtist viðtal við Bubba Mortens í Fréttablaðinu. Í upphafi viðtalsins er vikið að skólagöngu Bubba. Hann segir:

Ég er skrifblindur. Ég var undrastrákur á bækur. Bráðger og varð snemma læs. Ég var búinn að lesa Tolstoj og Gorkí fyrir 10 ára aldur. Ég stóð mig líka vel í lestri í skóla. En svo kom skrift og stafsetning og þá hrundi veröldin. Ég var settur í geymslu í grunnskóla, tossabekkinn í Vogaskóla. Þar brotnaði auðvitað eitthvað og ég fann fyrir ótta við orð og skrif.

Fjórtán ára gamall var Bubbi sendur í heimavistarskóla í Danmörku. „Þar losnaði hann að einhverju leyti undan óttanum við að setja hugsanir sínar í orð“, skrifar blaðakonan, Kristjana Björg Baldursdóttir og vitnar aftur í Bubba:

Þar var sagt við mig: Þú ert bara í toppstandi, þú þarft ekki að taka nein skrifleg próf í þessum skóla. Áherslurnar voru svo allt aðrar en ég hafði kynnst á Íslandi. Ég fékk að vera ég.

„Ég fékk að vera ég“, segir Bubbi. Kannski er það mergurinn málsins. Bubbi kemur í umhverfi þar sem honum bjóðast aðrar bjargir en skrif til að koma hugsunum sínum í orð, til að sýna hvað hann veit og hvað hann skilur; til að sýna heiminum að hann er enginn bjáni heldur flottur strákur sem les Tolstoj og Gorkí og er á leiðinni að vera afburða tónlistarmaður og skáld. Þú ert bara í toppstandi, segja þeir í Danmörku. Talaðu maður, talaðu!

Tossi. Heima á Íslandi var Bubbi álitinn tossi og settur í tossabekk í  Vogaskóla. Hann átti í erfiðleikum með skrif og stafsetningu og þá auðvitað með skrifleg próf. Og skrifleg próf voru (og eru!) helsti mælikvarðinn á kunnáttu og jafnvel námsgetu. Nemendur voru flokkaðir á þessum grunni. Þeir sem fengu lágar einkunnir á skriflegum prófum voru settir í tossabekk. Dæmdir sem annars flokks fólk. Afgangsstærðir. Og sumir brotnuðu, kannski fyrir lífsstíð. Náðu sér ekki á strik líkt og Bubbi.

Um svipað leyti (1967 – 1968) og Bubbi beið ósigur í Vogaskóla var ég kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum; þá nýútskrifaður stúdent frá MR með prýðilegar einkunnir; fyrsta flokks maður sem fékk það hlutverk að kenna annars flokks fólki, tossunum í 1.A, stærðfræði. Stærðfræði! Glatað! Fyrirfram glatað! Geta ekki lært stærðfræði, sögðum við, fyrsta flokks fólkið á kennarastofunni. Getum ekki lært stærðfræði, sögðu þeir, annars flokks fólkið í 1.A. Þegar ég tók til við að kenna þeim brotareikning fannst þeim nóg komið. Drengur rétti upp höndina:  „Hafþór, vertu ekkert að kenna okkur þetta. Við erum svo miklir tossar.“

Man ekki hvernig ég brást við en líkast til hefur atvikið hreyft við mér því orð drengsins búa með mér og koma í hug mér þegar ég les eða heyri um börn sem verða undir eða tapa áttum í skóla, til dæmis strákinn Bubba í Vogaskóla. Verð reiður, argur út í skólakerfi sem skellir skuldinni á nemendur í stað þess að líta í eigin barm.

Bubbi var settur í tossabekk í Vogaskóla. Af því að honum gekk illa á skriflegum prófum, átti í brasi með skrif og stafsetningu. Svo fór hann í skóla í Danmörku og þá var allt í stakasta lagi. Engin skrifleg próf og drengurinn í toppstandi!

Eitthvað bogið við þetta, ekki satt? Dæmdur tossi á Íslandi en drengur í toppstandi í Danmörku!

Hvað segir þessi saga okkur?

Í stuttu máli: Námsmatsaðferðir geta skipt sköpum fyrir nemendur. Nemendur sem eiga í erfiðleikum með að skrifa eiga á hættu að verða „dæmdir út leik“ þar sem skrifleg próf eru ríkjandi matsform. Þeir vita kannski heilmikið, kunna námsefnið, lásu vel fyrir prófið en klikka á prófinu sjálfu. „Lok, lok og læs, allt úr stáli, lokað fyrir Páli“ eða öllu heldur Bubba og hans líkum.

Skrifleg próf hafa verið og eru enn ríkjandi matsform. Af hverju? Jú, sumpart vegna þess að þau eru skrifleg. Svör nemenda eru þarna á blaðinu, hverfa ekki út í buskann líkt og svör á munnlegu prófi. Kennarinn getur rýnt í þau, aftur og aftur. Og hafi hann vandað til verksins, prófagerðarinnar, er líklegt að honum gangi vel matið. Hann veit að hverju hann gengur. Með árunum og svipuðum prófum frá ári til árs verður þetta ósköp þægilegt.

En það er önnur meginástæða fyrir vinsældum skriflegra prófa. Þau eru af mörgum talin gefa besta mynd af kunnáttu nemenda, hve vel þeir kunna námsefnið og jafnvel námsgetu eða greind nemenda, hve góðir námsmenn þeir eru og hve gáfaðir þeir eru. Nemendur sem koma vel út úr skriflegum prófum yfirleitt eru taldir greindari en aðrir nemendur. Jafnvel verið sýnt fram á fylgni milli útkomu á slíkum prófum og prófum sem ætlað er að mæla svokallaða greindarvísitölu fólks (Matthías Jónasson, 1967). Frábært mælitæki!

Eða hvað?

Það er svo með flesta hluti að þeir birtast okkur á ólíkan hátt ef þeir eru skoðaðir í mismunandi ljósi eða frá ólíkum sjónarhólum. Þetta á við um skrifleg próf. Skrifleg próf líta vel út ef þau eru skoðuð í ljósi viðtökuviðhorfsins. Samkvæmt því er nám fólgið í því að taka við því sem kennt er og leggja það á minnið. Gangi það vel kemur restin af sjálfu sér. Á prófinu nær nemendinn einfaldlega í það sem hann hefur lagt á minnið og skrifar það á prófblaðið. Nema viðkomandi sé haldinn prófkvíða. Nema viðkomandi sé skrifblindur. Nema viðkomandi eigi í vandræðum með stafsetningu, svo mjög að hann skammast sín jafnvel. En þetta eru auðvitað sértilvik og þau má leysa með sérúrræðum!

En skrifleg próf líta ekki alveg eins vel út ef við skoðum þau frá sjónarhóli hugsmíðahyggju, sem virðist hafa verið að ryðja sér til rúms víða heim, m.a. hér á landi. Samkvæmt henni er nám merkingarsköpun. Að læra í skóla merkir að skapa merkingu úr því sem kennarar segja og því sem stendur í námsbókunum. Sumir hugsmíðasinnar ganga jafnvel enn lengra og segja: Svona erum við. Við erum, hvert og eitt, merkingarsmiðir; frá blautu barnsbeini erum við að myndast við að koma reglu á það sem við upplifum, gera það merkingarbært, setja það í samhengi, tengja það sem við upplifum hér og nú við það sem við höfum áður upplifað og skapað merkingu úr. Komum þannig reglu á okkur sjálf, sköpum okkar eigin innri þekkingarheim (Bruner, 1996). Mætum þannig til leiks í skóla, með okkar þekkingarheim, okkar skilning á heiminum og lífinu og tilverunni og hefjumst handa við að túlka það sem kennarinn segir og það sem stendur í námsbókunum, höldum áfram uppbyggingunni, merkingarsmíðinni, þekkingarsmíðinni. Förum svo í próf, ekki bara með það sem við höfum lagt á minnið heldur okkur sjálf, þekkingarheiminn okkar, viðhorfin, tilfinningarnar. Allt heila klabbið. Og höldum auðvitað okkar striki. Höldum áfram að túlka, skapa merkingu, að þessu sinni úr spurningunum á prófinu. Gengur misjafnlega. Sumir skilja ekki spurningarnar eða einhver orð í spurningunum. Langar að spyrja en mega ekki. Þögn! Sumir lenda í vandræðum með að koma þessu frá sér. Hafa aldrei verið góðir í að tjá sig skriflega.

Þegar merkingin kemur inn í myndina fer glansinn af skriflegum prófum. Þá fer okkur að skiljast að þau henta sumum en ekki öðrum. Og við förum jafnvel að undrast hvort þessi einhliða áhersla á skrif sé réttlætanleg. Er ekki verið að þrengja ansi mikið að nemendum með því að njörva þá niður við þetta form? Þessi spurning verður enn áleitnari þegar tekið er mið af rannsóknum sem sýna að fólki gengur alla jafnan betur að svara skriflegum spurningum ef þau fá tækifæri til að spyrja um merkingar orða eða hafa hluti við hendina, til dæmis hnattlíkan ef verið er að spyrja út í þyngdarkraft Jarðar (Schoultz, 2002). Ein lítil ábending um merkingu orðs og þekkingin streymir fram sem væri hún fljót eða foss. Lítur á hnattlíkanið, þreifar á því, lætur það snúast og þá er sem kvikni á perunni. Þetta kemur ekki óvart. Í lífinu utan skólans erum við alla jafnan á mörgum „rásum“ samtímis. Beitum ýmsum meðölum til að skilja hluti og eins ef við þurfum að útskýra eitthvað fyrir öðrum: tölum, skrifum, teiknum, skoðum myndir, sýnum myndir, sýnum hluti, notum hendur og andlit, látbragð og svipbrigði. Erum fjölhátta eða multimodal svo við beitum orðfæri félagslegrar táknfræði (sjá t.d. Bezemer og Kress, 2016).

Félagslega táknfræði má skoða sem viðleitni til að endurlýsa samskiptum fólks, draga fram í dagsljósið hluti sem ekki hafa notið athygli vegna yfirburðarstöðu tungumálsins og skerpa á þeim, sýna fram á mikilvægi þeirra þegar kemur að samskiptum fólks. Þegar við tölum saman erum við ekki bara að tala, nota hljóð. Við notum líka hendur og andlit, látbragð (gesture) og svipbrigði (gaze), hreyfum hendur og fingur, lyftum augabrúnum og hrukkum ennið. Frá sjónarhóli félagslegrar táknfræði eru slíkar hreyfingar ekkert ómerkilegri en tal og skrif. Þetta eru fullgildir táknunarhættir (modes).

Með orðinu „táknunarhættir“ skírskotar félagsleg táknfræði til leiða sem við höfum til að tákna það sem við meinum eða viljum meina. Hver táknunarháttur gefur vissa möguleika en er líka takmörkum háður. Talmál gefur vissa möguleika en hefur sínar takmarkanir. Og þetta á auðvitað við um aðra táknunarhætti, til dæmis skrif, teikningar, ljósmyndir, hreyfimyndir, látbragð, tónlist, leiklist og dans svo eitthvað sé nefnt. Það gefur því auga leið að gott getur verið að blanda saman mismunandi táknunarháttum. Þá aukast líkurnar á því að það sem ég er að meina (reyna að tjá) komist til skila, til dæmis til nemenda minna; að nemendur mínir átti sig betur á því hvað ég er að meina. Nú hafa þeir úr „mörgu að moða“ ef svo má segja. Möguleikar þeirra til að skapa merkingu (læra) hafa aukist.

Þetta vita kennarar innst inni og haga sér eftir því. Spila á „marga strengi“ í kennslunni í þeirri trú að slíkt hjálpi nemendum til skilnings. Þegar kemur að því að meta nemendur fækkar hins vegar strengjunum. Kennslan á mörgum rásum en prófið á einni rás – skriflegu rásinni. Fjölhátta kennsla – einhátta próf. Lok, lok og læs!

Er ekki tími til kominn að endurhugsa þetta fyrirkomulag? Jafnvel afnema skrifleg próf, að minnsta kosti í þeirri mynd sem nú er við lýði? Skapa ný matsform, fjölhátta próf þar sem nemendum gefst færi á að vera á ýmsum rásum og nota ýmis form til að koma þekkingu sinni á framfæri og sýna færni sína? Sýna hvað í þeim býr?

Sem betur fer virðist vera að rofa til í þessum efnum. Leiðsagnarmat er farið að ryðja sér til rúms og heimapróf þar sem „öll hjálpargögn eru leyfð“ verða algengari með hverju árinu, sýnist mér. En betur má ef duga skal.

Því heimurinn sem börnin okkar fæðast inn í er ekki bara tungumálaheimur heldur tæknivæddur táknheimur sem býður upp á margvíslega möguleika til merkingarsköpunar og þá um leið persónusköpunar, til að vaxa og dafna og finna sig í tilverunni líkt og Bubbi gerði þegar hann fór í skóla í Danmörku.

„Ég fékk að vera ég“ – sagð´ann.

Heimildir

Bezemer, J. og Kress, G. (2016). Multimodality, learning and communication. A social semiotic frame. New York: Routledge.

Bruner, J. (1996). The culture of education (bls. 53 – 65). Cambridge: Harvard University Press.

Kristjan Björg Guðbrandsdóttir. (2019). „Lét spila Abba í aðgerðinni“. Viðtal við Bubba Mortens. Fréttablaðið, 12. janúar 2019.

Matthías Jónasson. (1967). Mannleg greind. Þróunarskilyrði hennar og hlutverk í siðmenntuðu þjóðfélagi ( bls. 218 – 241). Reykjavík: Mál og menning.

Schoultz, J. (2002). Att utvärdera begrebbsförståelse. Í  H. Strömdahl (ritstj.), Kommunicera naturvitenskap i skolan – några forskningsresultat. Lund: Studentlitteratur AB.


Hafþór Guðjónsson er fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið HÍ. Hann er upphaflega lífefnafræðingur en hin síðari ár hefur áhugi hans einkum beinst að náttúrufræðikennslu og kennaramenntun. Helstu áhugasvið hans sem fræðimanns eru nám, kennaramenntun, náttúruræðimenntun og starfendarannsóknir.


 
Aðlaðandi starfsumhverfi fyrir leikskólakennara

Sigrún Sigurðardóttir og Ragnhildur Gunnlaugsdóttir

 

Í Garðabæ stendur leikskólum til boða að sækja um styrk í þróunarverkefni úr þróunarsjóði leikskóla. Markmið með sjóðnum er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi leikskólanna í bænum. Einstaka leikskólakennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við leikskóla í Garðabæ, einn leikskóli eða fleiri skólar í sameiningu geta sótt um styrk í sjóðinn. Umsóknir eru metnar af leikskólanefnd Garðabæjar með hliðsjón af tengingu verkefnis við skólastefnu Garðabæjar og skólanámskrá viðkomandi leikskóla. Auk þess er tekið mið af markmiðum verkefnisins, framkvæmdaáætlun, matsáætlun, kostnaðarmati og væntanlegum ávinningi þess fyrir skólastarf í bænum. Á síðastliðnum árum hefur átta milljónum verið úthlutað árlega úr sjóðnum til leikskóla innan sveitarfélagsins, sjá hér.

Vorið 2017 sóttum við, Sigrún leikskólastjóri og Ragnhildur aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Ökrum, um styrk til að þróa starfsumhverfi leikskólans með það fyrir augum  að gera það meira aðlaðandi fyrir leikskólakennara.

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 skulu að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Samkvæmt því ættu heildarstöðugildi leikskólakennara á Ökrum að vera 9,2 en voru 4,9 miðað við stöðuna í lok árs 2016 og í lok árs 2018 voru stöðugildin 5,5 og því vantar leikskólakennara í 3,7 stöðugildi.

Markmið verkefnisins

Markmið þróunarverkefnisins, sem bar heitið „Horft til framtíðar“, var að fjölga leikskólakennurum á Ökrum og til að ná því markmiði var ákveðið að breyta undirbúningstímum leikskólakennara og þá um leið dagsskipulagi leikskólans. Ákveðið var að alla daga vikunnar færu deildarstjórar út af deildinni klukkan 14:00 og þrjá daga vikunnar færu leikskólakennarar út af deildinni klukkan 14:00. Skipulagið yrði þannig að fyrir hádegi væru allir starfsmenn inn á deildum í starfi með börnunum. Eftir klukkan 14:00 væru deildarstjórar og kennarar að vinna undirbúningsvinnu ásamt því að deildarstjórafundir, aðrir fundir og foreldraviðtöl færu fram á þeim tíma. Með þessu töldum við að minna álag yrði inn á deildum fyrir hádegi, meiri samvinna milli kennara eftir hádegi og þá um leið yrði starfið faglegra og áhugaverðara fyrir leikskólakennara.

Ferlið

Við fengum Svölu Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, til að vera verkefnastjóri yfir verkefninu. Hún fundaði með fjórum rýnihópum, einum með starfsfólki leikskólans, einum með foreldrafélagi og ráði leikskólans, einum með nemendum úr leikskólakennarafræðum og einn rýnihópur innihélt leikskólastjóra af höfuðborgarsvæðinu, kennara af menntavísindasviði, sérfræðing frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og formenn FL og FSL. Á rýnihópafundunum fór Svala yfir kosti og galla hugmyndar okkar um að deildarstjórar færu út af deildinni alla daga vikunnar klukkan 14:00 og leikskólakennararar þrjá daga vikunnar eftir klukkan 14:00.

Niðurstöður allra rýnihópafundanna sýndu að það var mikill áhugi á þessu verkefni og töldu flestir að með þessu skipulagi yrði starfsumhverfið í leikskóla meira aðlaðandi fyrir leikskólakennara en einnig faglegra inn á deildum. Mestu áhyggjurnar voru af mönnun og ábyrgð inn á deildum eftir klukkan 14:00. Með þessar niðurstöður að leiðarljósi ákváðum við að hafa ábyrgðamenn inni á hverri deild eftir klukkan 14:00 og fengu þeir greitt aukalega fyrir það. Einnig reyndum við að ráða inn afleysingu sem myndi henta nýja skipulaginu.

Undirbúningstími verkefnisins stóð yfir í eitt ár og í september 2018 var farið í að vinna eftir skipulaginu. Í nóvember var gerð könnun þar sem starfsfólkið var spurt um hvernig gengi að vinna eftir nýja skipulaginu. Meirihluti starfsmanna var ánægður með breytinguna; það var minna álag inni á deildum fyrir hádegi þar sem allir starfsmenn eru alltaf til staðar. Deildarstjórarnir voru mjög ánægðir, þeir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki í undirbúning eða geyma verkefni sem þeir voru að vinna að. Þeir bentu á að gott væri að vera allir saman í undirbúningstímanum, með því að skiptast á skoðunum og rökræða fengju þeir hugmyndir og meiri innsýn í starfið hjá hver öðrum og gætu þá um leið samnýtt verkefni. Flestir starfsmenn sem eru inn á deildum eftir klukkan 14:00 voru ánægðir með það starf sem fram fór á deildinni á þeim tíma. Á yngri deildunum eru stöðugildin 4,5 yfir allan daginn. Fram til klukkan 14:00 eru fimm starfsmenn og eftir klukkan 14:00, þegar deildarstjóri fer í undirbúning, þá eru fjórir starfsmenn eftir inn á deild. Á annarri eldri deildinni eru tveir leikskólakennarar og þrjá daga vikunnar fara þeir báðir í undirbúning út af deildinni klukkan 14:00. Við náðum að ráða inn starfsfólk eftir klukkan 14:00 en það var ekki sami starfsmaðurinn alla daga vikunnar sem gerði þetta aðeins flóknara. En þar sem þetta er nýtt höfum við þurft að aðlaga skipulagið að breyttum aðstæðum og er ekkert óeðlilegt að það taki tíma að finna rétta taktinn.

Ávinningur

Leikskólinn Akrar lagði til myndirnar

Við teljum að áviningur leikskólans af þessu fyrirkomulagi sé mikill, leikskólakennarar geta unnið saman eftir kl. 14:00 að hinum ýmsum verkefnum sem koma að leikskólastarfinu, haldið  samráðsfundi milli deilda, deildarstjórafundi, tekið foreldraviðtöl, unnið að innra mati leikskólans og öðrum verkefnum sem koma inn á þeirra borð. Einnig teljum við að þetta verkefni sé gott fyrir leikskólasamfélagið í Garðabæ. Ef allir leikskólar í Garðabæ ynnu eftir þessu myndi það auðvelda samræmingu faglegs starfs, t.d. fundi, handleiðslu deildarstjóra  og almenna fræðslu.

Um höfunda

Sigrún Sigurðardóttir er leikskólastjóri í leikskólanum Ökrum í Garðabæ. Hún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1981 og lauk eins árs námi við framhaldsdeild FÍ í stjórnun árið 1996.  Árið 2007 lauk hún 30 eininga Dipl.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði. Hún hefur starfað sem leikskólastjóri í rúm 27 ár. Sigrún hefur setið í leikskólaráði/menntaráði Reykjavíkur, stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun og einnig í stjórn FSL.

Ragnhildur Gunnlaugsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Ökrum. Hún er leikskólakennari í grunninn og lauk meistaragráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf frá Háskóla Íslands í febrúar 2018. Einnig lauk hún 11 vikna námi frá Háskólanum á Bifröst 2013 sem bar heitið Sterkari stjórnsýsla. Ragnhildur hefur unnið í leikaskóla í rúm 25 ár.

 

 

 

 

 
Að ræða viðkvæm álitamál við nemendur

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

 

Menntamálastofnun hefur gefið út tvær rafrænar handbækur um viðkvæm álitamál í skólastarfi. Önnur ber yfirskriftina Viðkvæm álitamál og nemendur (Teaching Controversial Issues) og er einkum ætluð kennurum. Hin nefnist, Stjórnun á tímum ágreinings og átaka (Managing Controversy), og er handbók fyrir skólastjórnendur. Handbækurnar voru upphaflega unnar í tengslum við Aðgerðaáætlun um tilraunaverkefni um lýðræði og mannréttindi, í samvinnu við Evrópuráðið og Evrópska efnahagsbandalagið. Norræna ráðherranefndin styrkir íslensku útgáfuna. Handbókunum er ætlað að taka á þeim erfiðleikum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál í skólum.

Hvers vegna eru viðkvæm álitamál umdeilt kennsluefni?

Viðkvæm álitamál eru mál sem valda miklum ágreiningi um gildismat og hagsmuni og oft þrætum um fyrirliggjandi staðreyndir. Þau eru gjarnan flókin og engin auðveld lausn í sjónmáli. Þau vekja sterkar tilfinningar og hafa þá tilhneigingu að skapa eða styrkja skil á milli manna og viðhalda tortryggni og vantrausti. Ef setja á þessi álitamál í skólana vakna alls kyns kennslufræðilegar vangaveltur, eins og til dæmis hvernig vernda eigi viðkvæma nemendur með ólíkan bakgrunn og menningu, hvernig koma megi í veg fyrir átök innan kennslustofunnar og hvernig kenna eigi umdeilt efni á hlutlausan hátt  án þess að taka gagnrýna afstöðu. Þetta vekur einnig spurningar um faglegt frelsi og hlutverk kennara varðandi hugmyndir þeirra og skoðanir.

Viðkvæm álitamál í íslenskum skólum

Verkefnið Viðkvæm álitamál og nemendur á fullt erindi í íslenska skóla. Hlutverk framhaldsskóla er skv. 2. grein að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
Framhaldsskólar eiga m.a. að leitast við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar.

Grunnskólum er samkvæmt lögum ætlað að efla víðsýni nemenda. Í markmiðsgrein grunnskólalaga (2. gr.) segir að grunnskólinn eigi, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Í formála að Aðalnámskrá grunnskóla skrifaði þáverandi menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að skólar væru í raun einu stofnanir samfélagsins sem gætu tryggt öllum uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum (apríl 2013).

Vinnubúðir í Útey, Noregi

Að  íslensku útgáfunni standa Bryndís Haraldsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Linda Heiðarsdóttir og Jón Páll Haraldsson. Hópnum gafst kostur á að sækja vinnubúðir fyrir kennara, skólastjórnendur og fulltrúa skólamálayfirvalda á Norðurlöndunum um verkefnið Teaching Controversial Issues í maí 2017. Vinnubúðirnar sem voru á vegum Wergeland stofnunarinnar í Ósló voru haldnar í Útey, Noregi. Útey lætur engan ósnortinn og óhjákvæmilegt er að setja sig í spor þeirra sem voru í eynni 22. júlí 2011. Hroðaverkin í Manchester gerðust á meðan á dvölinni stóð og öllum mátti vera ljóst að sama kvöld væru skólastjórnendur í Englandi skipuleggja hvernig skólar gætu best tekið á móti nemendum sínum morguninn eftir.

Guðrún Ebba, Jón Páll, Bryndís og Linda í Útey maí 2017

Viðkvæm álitamál og nemendur, handbók fyrir kennara

Kennarahandbókinni er ætlað að hjálpa kennurum að sjá mikilvægi þess að virkja ungt fólk í umræðu um viðkvæm álitamál og efla sjálfstraust og hæfni kennara til að gera þetta að reglubundnu viðfangsefni einkum þó með því að:

  • Skapa öruggt svæði, griðastað í skólastofunni þar sem nemendur geta rætt ýmis álitamál opinskátt og óhræddir.
  • Nota kennsluaðferðir og leiðir sem stuðla að opinni umræðu þar sem virðing ríkir.

Viðkvæm álitamál geta komið upp á öllum skólastigum, í öllum skólagerðum og í hvaða námsgrein sem er. Viðkvæm álitamál verða hins vegar ekki eingöngu rædd innan kennslustofunnar, heldur koma þau upp annars staðar í skólanum, á göngunum, í matsalnum, á skólalóðinni og kaffistofu starfsfólks. Í handbókinni Viðkvæm álitamál og nemendur eru margar handhægar leiðbeiningar og ýmsum kennslufræðilegum spurningum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál með nemendum velt upp. Eins og t.d. hvernig hægt sé að bregðast við óskum nemenda um að fá að vita hvað sé rétt eða satt þegar ekki liggja fyrir áreiðanlegar bakgrunnsupplýsingar eða hvernig hægt er að vernda og taka tillit til nemenda sem tengjast málefninu persónulega.

Stjórnun á tímum ágreinings og átaka, handbók fyrir skólastjórnendur

Handbókin Stjórnun á tímum ágreinings og átaka fyrir skólastjóra er byggð á kennarahandbókinni. Í henni eru tillögur um hvernig skólastjórar geta tekið frumkvæði í að stjórna og bregðast við viðkvæmum álitamálum innan skólans sem utan. Bókin skiptist í níu kafla. Hver þeirra fjallar um ólík svið skólastarfsins sem geta haft áhrif á það hvernig umræðum um ágreining og viðkvæm álitamál er stjórnað. Í köflunum eru dæmisögur úr evrópskum skólum og bent á gagnlegar leiðir. Í hverjum kafla eru líka spurningar sem skólastjórar geta notað til að ígrunda eigin hugmyndir og stöðu innan skólans.

Námskeið þar sem farið er yfir efni handbókanna

Flestir gera sér í hugarlund hversu vandasamt það getur verið að ræða viðkvæm, flókin og umdeild málefni við nemendur eins og til dæmis hryðjuverk, sjálfsvíg eða #metoo hreyfinguna einkum ef haft er í huga það sem segir í 13. grein grunnskólalaga að nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans.

Kennarahandbókin, Viðkvæm álitamál og nemendur, er þannig sett upp að nota megi hana í kennaramenntun og í endurmenntun fyrir kennara. Hún á því bæði að geta nýst á námskeiðum fyrir kennara og eftir atvikum sem kennsluefni. Hópurinn sem stendur að  íslensku þýðingunni býður skólum upp á námskeið til að fylgja verkefninu eftir. Námskeiðið hentar bæði kennurum og skólastjórnendum á öllum skólastigum, og öllum þeim sem vilja ná tökum á því að fjalla um viðkvæm álitamál með börnum og unglingum.

Leiðbeinendur á námskeiðunum eru: Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Páll Haraldsson og Linda Heiðarsdóttir.

Áhugasamir hafi sambandi við Guðrúnu Ebbu gudrun.ebba.olafsdottir@rvkskolar.is og Lindu Heiðarsdóttur Linda.Heidarsdottir@rvkskolar.is

 

Guðrún Ebba ásamt höfundum handbókanna þeim David Kerr (t.h.) og Ted Huddleston (t.v.) á ráðstefnu í Ósló í nóvember 2018

 

Um höfund

Guðrún Ebba Ólafsdóttir kennir lífsleikni og ensku við Laugalækjarskóla. Hún útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1980 og lauk diplómanámi í starfstengdri leiðsögn vorið 2015. Guðrún Ebba var um árabil í forystu Kennarasambands Íslands, m.a. sem varaformaður en var einnig fyrsti formaður Félags grunnskólakennara. Guðrún Ebba hefur setið í fjölmörgum nefndum og ráðum og haldið námskeið og erindi. Hún stýrði nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra skipaði til að endurskoða grunnskólalögin sem síðar voru samþykkt á Alþingi 2008. Haustið 2011 kom út saga hennar, Ekki líta undan, sem hún skráði ásamt Elínu Hirst. Guðrún Ebba situr m.a. í ráði Rótarinnar.