Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Stefna í menntamálum – horft til Kanada

í Greinar

Sævar Þór Helgason

 

Það er margt spennandi að gerast í menntamálum á Íslandi og mörg tækifæri. Til þess að leggja mat á þróunina og gera sér grein fyrir því hvaða tækifæri eru áhugaverðust er mikilvægt að velta því fyrir sér hvaða augum skynsamlegast er að líta menntun og í kjölfarið meta um hvað umræða um menntamál snúist eða eigi að snúast. Páll Skúlason, heimspekingur og lengi rektor Háskóla Íslands sagði eitt sinn um íslenska menntakerfið:

Menntakerfið íslenska er fyrst og fremst réttnefnt fræðslukerfi, sem merkir einfaldlega að menntunin, sem það veitir, er fólgin í tiltekinni kunnáttu. Í skólum eiga nemendur að læra. Þeir eiga að læra að lesa, skrifa og reikna og öll önnur fræðsla byggir á þessum grunni. Og það sem er óumdeilt – en er hins vegar umdeilanlegt … – er að öll fræðslan sé og eigi að vera menntandi, þ.e.a.s. eigi að stuðla að þroska nemenda, gera þá hæfari sem manneskjur til að heyja lífsbaráttuna og njóta lífsins. (Páll Skúlason, 1987, bls. 340)

Í ljósi þessarar gagnrýnu skoðunar Páls beini ég sjónum að þremur mikilvægum atriðum. Í fyrsta lagi renna nafngiftir kerfisins stoðum undir þessa skoðun; löngum hefur verið talað um fræðslukerfi, fræðslulög og almenningsfræðslu. Í öðru lagi rennir margt í skipulagi og áherslum menntunar, einkum í prófakerfinu með áherslu á einkunnir, mat eða mælingar, stoðum undir þetta sjónarmið. Í þriðja lagi má þá spyrja, að því marki sem dómur Páls stenst, hvort hann eigi í einhverjum mæli enn við. Menntakerfið okkar sé ennþá aðallega fræðslukerfi með áherslu á tiltekna þekkingu.  Frá árinu 1987 hafa hugmyndir manna um skólastarf eða menntakerfið kannski ekki breyst svo mikið, en þó hafa vissulega verið samþykkt ný lög um grunnskóla og þrisvar sinnum hafa verið gefnar út aðalnámskrár á þessum tíma. Það er engin spurning að sú síðasta boðar talsverðar áherslubreytingar hvað varðar inntak skólastarfs sem koma til móts við það sjónarmið sem Páll er í raun að kalla eftir, það er að skólastarfið verði raunverulega menntandi.

Það er mikilvægt að hugsa um menntun og framtíð. Saga barnafræðslu í skyldunámsskóla á Íslandi er ekki löng og þær breytingar sem  orðið hafa á samfélagsháttum síðastliðna áratugi eru miklar. Þekking einstaklinga í nútímanum er ekki endilega meiri en áðurfyrr, en hún er önnur og aðgengi að upplýsingum og margskonar þekkingu er langtum auðveldara en áður. Það er meðal annars áhugavert að velta fyrir sér hvernig eða jafnvel hvort margvísleg tækni sem er í boði nýtist í skólum. Örar breytingar bæði á inntaki og starfsháttum samfélags og atvinnu, ekki síst tengt tæknimálum, fléttast inn í alla kima lífs okkar og eru oftast langt á undan breytingum í menntakerfinu.

Þess vegna er tímabært og brýnt að samfélagið spyrji sig og rifji upp: „Hver eru markmið menntunar?“ Er menntastefna á Íslandi háð duttlungum stjórnmálamanna sem vilja reisa sér bautasteina til dæmis í formi aðalnámskrár? Eða mótast menntastefna okkar af hugmyndum sem byggja á ígrundaðri umræðu um markmið annars vegar og vitneskju um alls kyns hraðar breytingar hins vegar? Getur verið að þau vandamál sem starfsfólk í menntakerfinu stendur frammi fyrir, séu mörg tilkomin vegna lausna og hugmynda fyrri kynslóða, sem kunna að vera úreltar?

Fyrirmynd frá Alberta fylki í Kanada

Það er áhugavert að horfa til annarra þjóða og velta fyrir sér hvað  vel er gert í menntamálum. Ég geri hér eitt dæmi að sérstöku umfjöllunarefni. Í Alberta fylki í Kanada hafa kennarasamtök fylkisins tekið  frumkvæði með vinnubrögðum sem eru um margt til fyrirmyndar og opna ýmsar nýjar gáttir. Innlendir og erlendir fræðimenn, sérfræðingar í menntamálum voru kallaðir til og málin krufin og nýjar áherslur lagðar. Þau sjónarhorn og viðfangsefni sem kennarasamtökin hafa sett á oddinn, beindu athyglinni að samskiptum á milli fólks, margmenningu og þeim breytileika sem henni fylgir. Einnig var lögð áhersla á að byggja á fagmennsku þeirra sem vinna í kerfinu og að því lykilatriði að þróun menntunar og skólastarfs snúist um breytingar.

Þrír rauðir þræðir í stefnu þeirra eru jöfnuður, traust og stuðningur. Þegar kemur að nánari útfærslu hugmyndanna, með tilliti til breytinga á skólastarfi, horfa þeir til þriggja sviða sem þróunin innan skólans á að miða við. Það er nám nemenda, starf skóla og kennara og þriðji þátturinn eru þau atriði menntunar sem snúa að samfélaginu og þátttöku í því. Í þessum þriðja þætti eru tengslin við samfélagið með samráði við fjölda aðila og kynningum til þeirra sérstaklega mikilvæg.

Til þess að skýra hugmyndir sínar hafa samtökin sett þessi þrjú lykilsvið fram í töflu undir heitunum: nám, kennsla og samfélag. Síðan er þríþætt eðli þróunar undirstrikað;  það verði sífellt að gera eitthvað nýtt, en samt sem áður á vitaskuld að halda áfram mörgu af því sem gert er fyrir, og að nýjabrumið krefjist þess að eitthvað verði að leggja af. Það kann að vera erfiðast. Hverju sviðanna þriggja er því skipt í þrennt undir yfirskriftinni: Haldið áfram að … Byrjið að … og Hættið að… . Sem dæmi má nefna að lagt er til að haldið verði áfram að leggja áherslu á jafnræði sem hreyfiafl opinbera menntakerfisins og að treysta mati kennara og skólastjórnenda á námi nemenda.

Áhersla er lögð á að hætt verði að líta á nemendur sem viðföng skólakerfisins, en að frekar verði litið á þá sem samstarfsaðila. Að sama skapi séu kennarar hvattir til að þróa námskrár í gegnum faglega símenntun. Stutt verði við frekari þróun sérfræðiráða innan kennarasambandsins með það að markmiði að styðja við þróun námskrár og kennsluhátta. Það má ekki gera lítið úr faglegri dómgreind kennara með innleiðingu miðstýrðs mats og annarra átaksverkefna heldur  þarf að leggja áherslu á að byggja upp faglega ábyrgð meðal kennara. Tryggja á að þróunaráætlanir skóla séu kynntar í samfélaginu og hætta að viðhalda óvissu um meginstefnu innan menntamálaráðuneytisins. Í þessu felst framsýni, raunsæi og jafnframt gegnsæi. Það er ekkert farið í felur með að breytingar geta verið erfiðar og þeim fylgja oft átök. Þetta passar ágætlega við íslenskan veruleika, við þurfum eins og allir aðrir að velja og hafna.

Lögð er áhersla á að inntak náms og kennslu sé þvert á námskrá, þverfagleg. Þegar nemendur útskrifast  úr skóla  kunni þeir: Að læra, gagnrýna hugsun, að þekkja og leysa vandamál, meta upplýsingar, vinna að nýsköpun, að skapa sér tækifæri,  fjöllæsi (e. multimodal literacy), að tjá sig og vinna með öðrum, að skýra út menningarlegan mun á heimsvísu, að þekkja hæfileika sína og lífsleikni.

Jöfnuður þarf að vera drifkraftur þróunar og framkvæmdar menntastefnu svo að nemendur með mismunandi bakgrunn fái haldbæra góða menntun. Jöfnuður er meira en jöfn tækifæri eða aðgengi að lærdómi; það þarf að einstaklingsmiða fræðsluna til að búa öllum jöfn tækifæri til náms. Í fyrstu töflunni eru fjallað um nám nemenda.

Þegar ég rýni í alla þættina í starfinu sem kynntir voru, þá tel ég að mest spennandi sé að gaumgæfa hvað eigi að fá forgang í nýjum verkum, en jafnframt er ekki síður mikilvægt að skoða og ræða hvaða verklag, viðhorf eða viðfangsefni verði að leggja af. Stuðningur við kennara er mikilvægur, byggja þarf á framlögðum gögnum og taka þannig upplýstar ákvarðanir við breytingar.

Starf allra sem að skólunum koma á að meta reglulega. Fagleg þróun, vinna skóla að námskrám og eflingu kennsluhátta, mat á færni og félagsnet innan samfélagsins styðja við nám og eru meðal lykilforsendna fyrir þróun samfélagsins og skiptir því miklu máli að vanda til þeirra verka.

Í þessari menntastefnu Albertafylkis er megináherslan á nemandann og lærdómssamfélagið, minni áhersla á efnið. Kastljósið er á lærdóm og inntak. Breytt skuli frá stífum stundaskrám eða námsáætlunum og námskrám til meiri sveigjanleika. Lögð verði  áhersla á leiðsagnarmat, mögulegt sé að minnka prentað efni og fleiri form efnis verði notuð við námið. Einnig er lögð áhersla á fjölbreytt læsi, meðal annars stærðfræði og skilning sem grunn að þróun færni. Að sanngirni og áreiðanleiki verði í fyrsta sæti og menntamál drifin áfram af gildismati sem fólk er sammála um að séu grunnatriði. Til verði menntastefna sem ekki er kvikað frá.

Menntastefna á Íslandi

Núverandi menntastefna á Íslandi byggir á sex grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun sem  koma fram í aðalnámskrá grunnskóla eru að mínu mati mjög mikilvægir (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 16). Ekkert er nýtt undir sólinni var einhvern tíma sagt. Andri Snær Magnason sagði í bók sinni Draumalandið (2006):

Hugmynd æðir yfir heiminn og sýkir menn sem leggja allt að veði. Þeir vita innst inni að ef þeir bíða fer hugmyndin annað. Eða enn verra: Líklega er hugmyndin á þeirri sömu stundu að angra einhvern annan. Hugmynd er harðstjóri, sá sem býr við ógnarstjórn hugmyndar opnar blöðin á hverjum morgni með  hnút í maganum og óttast að sjá að einhver annar hafi landað henni.

Hugmyndin að námskránni íslensku hefur ekki orðið til í einhverju tómarúmi og margt líkt var að gerast í námskrárþróun í heiminum þegar vinna við íslenska aðalnámskrá fór fram. Evrópusambandið gaf til að mynda út menntaáætlun með mikilvægum lykilþáttum árið 2006 þar sem meðal annars átti að huga að borgaravitund byggða á skilningi og virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði, auk umburðalyndis og virðingar gagnvart öðru fólki og menningarheimum. Grunnþættir eða lykilfærniþætti menntunar í Svíþjóð voru kynnt 2010 (sjá m.a. Patrick Hernwall, 2010). Þar áttu lykilfærniþættir að snúast um: móðurmál, erlend tungumál, stærðfræði og efni henni tengt, tæknikunnáttu, sérstaklega að nýta internet,tölvur og tölvutengd tól. Einnig var lögð áhersla á námstækni, að vera upplýstur og meðvitaður um samfélag sitt og heiminn, lífsleikni, frumkvæði, samhygð, virðingu og samvinnu. Að auki gagnrýnin hugsun, menning og sköpun.

En með því að nota þessi yfirgripsmiklu og mikilvægu regnhlífarhugtök sem ná yfir flest sem snertir þroska einstaklings og þátttöku hans í mannlegu samfélagi getur málið orðið flókið í framkvæmd.

Framtíðin snýst að miklu leyti um aðgengi. Nám og kennsla verður margslungið félagslegt atferli þar sem  tjáning og samskipti skipa sífellt veigameiri sess. Við vitum ekki hvaða ný tæki eða tækni verður tiltæk í framtíðinni. Það er til dæmis líklegt að línuleg sjónvarpsdagskrá heyri sögunni til innan tíðar. Segja má að svipuð staða sé í menntamálum. Nám og kennsla breytist frá því að vera línuleg í það að verða bundin aðstæðum, en samt hvorki háð tíma né rúmi. Sjónvarpið var einstefnumiðill – og á vissan hátt verður það áfram, en kennsla verður áfram og í auknum mæli styðjandi og leiðsegjandi og jafnframt sveigjanlegri. Þar verður samvinna og samræða einnig fyrirferðamikil. Í kjölfar snjallsíma- og spjaldtölvuvæðingar sem  fór á flug strax  árið 2010 hefur orðið til ný hugmyndafræði í skólastarfi sem gerir ráð fyrir að allir hafi með sér sín eigin verkfæri, einkum tölvur. Á ensku kallast þetta, „Bring Your Own Device, BYOD“. En er skólinn þá að leiða til jöfnuðar? Hafa allir nemendur aðgang að tækjum? Það er ekki ljóst, og er jafnvel ólíklegt. Þá verður að horfast í augu við það. Það er mikilvægt að fólk vinni náið saman með skýra framtíðarsýn sem allir skilja á sama hátt og geri sér grein fyrir hvað í henni felst í raun. Það skiptir máli að fólk hafi væntingar; til hvers annars, til náms og menntunar nemenda. Hafi tækifæri til að ígrunda starf sitt og ræða starfið og starfshætti við samstarfsfólkið.

Ísland í dag

Í júní 2014 gaf Mennta- og menningarmálaráðuneyti út Hvítbók um umbætur í menntun. Þar er talsvert rætt um mikilvægi samráðs þeirra sem  láta sig menntun varða og jafnvel gengið svo langt að lýsa góðri reynslu af þess háttar samstarfi í öðrum löndum.

Erlendis hafa menn víða öðlast þekkingu og reynslu í umbótum á menntakerfinu. Farsælast þykir að setja fá en metnaðarfull markmið, sem viðtæk samstaða næst um og vinna má markvisst að til langframa. (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2014, bls. 3)

Í Hvítbókinni segir jafnframt að hún eigi að skapa grundvöll til umræðu og aðgerða. Ætlunin sé að kalla alla til sem láta sig menntun varða til þess að leggja hönd á plóg. Þetta sjónarmið er að mínu mati til fyrirmyndar, ekki síst að kalla framkvæmdaraðila stefnunnar, kennarana, til virks samráðs um mótun hennar, þótt það virðist ekki hafa verið gert. Kennarasambandið bendir á þess brotalöm:

Fyrir ári gaf menntamálaráðherra út Hvítbók um umbætur um menntun með áherslu á læsi, námstíma og starfsmenntun og í kjölfarið voru stofnaðir verkefnahópar til að gera tillögur um aðgerðir á þessum þremur sviðum. KÍ óskaði eftir formlegri þátttöku í þeirri vinnu sem menntamálaráðherra varð ekki við (KÍ. Hvítbókarvinna 2015).

Þetta er mikið umhugsunarefni. Bæði OECD í sínum skýrslum og rannsóknir á starfi kennara og skóla er hamrað á miðlægu hlutverki kennara. Það er lykilatriði að treysta skólunum og kennurunum þar. Þeir eigi að framkvæma stefnuna og þeir þekkja best allra til hins daglega skólastarfs og  verði þess vegna að eiga hlutdeild í mótun hennar.

Eru margar leiðir að sama marki?

Einn þeirra sérfræðinga sem  kom að vinnu kennarasamtakanna í Alberta, Stephen Murgatroyd (2014), telur að í raun standi flest menntakerfi sem taka þátt í alþjóðlegri þróun menntunar frammi fyrir tveimur ólíkum menntastefnum; stefnum sem berjist um hylli þeirra sem ráða ferð.

Annars vegar er það sem kalla mætti á íslensku hnattræna umbótastefnuna, en á ensku hefur hún gengið undir heitinu, GERM (Global Education Reform Movement) á meðal gagnrýnenda hennar. Aðalsmerki hennar eru miklar væntingar og nám fyrir alla í gegnum internetið. Það felist í einstaklingsmiðuðu námi með grunnfögum, stöðlum, prófum og prófamiðuðu umhverfi og ábyrgð. Þar sem gerðar eru stöðugar breytingar og stefnan er byggð á  gagnasöfnun bæði um einstaklinga og skóla. Segja má að menntaumbætur sem flokkaðar eru undir þetta heiti, hafi komið fram á sjónarsviðið um 1980 og hafi náð fótfestu innan margra menntakerfa. Þær hafa  sennilega verið mest áberandi í Bandaríkjunum, á Englandi, í Ástralíu, en þó víðar. Það er ákveðin kaldhæðni í því að nota skammstöfunina, GERM eða „sýkill“, en í nafngiftinni felst hörð gagnrýni. Þær hugmyndir sem þarna eru spyrtar saman spegla saman hagsmuni alþjóðlegra stofnana og einkafyrirtækja og umbætur í menntamálum eða ákveðna stefnumótun í menntamálum. Að mati þeirra gagnrýnenda sem Murgatroyd talar fyrir er besta leiðin til að forðast „sýkilinn“ að undirbúa kennara og stjórnendur skólanna vel undir krefjandi starf. Á Íslandi og í Finnlandi verða allir kennarar að hafa meistaragráðu í kennslufræðum eða í þeim námsgreinum sem þeir kenna. Fleiri lönd, meðal annars hin Norðurlöndin fikra sig í þessa átt. Það tryggir að kennarar séu vel undir það búnir sem þeir gera í kennslustofunum og þeir skilji vel hvernig  hægt er að breyta námi og kennslu. Skólastjórnendur eru einnig sérfræðingar, þeir geta leitt breytingar í menntamálum og  verndað skóla og skólakerfið frá skaðlegum „sýklum“ (Sahlberg, 2012).

Stephen Murgatroyd kynnir hins vegar stefnu, sem hann talar fyrir, sem er byggð á jöfnuði. Jöfnuður  er drifkraftur menntakerfisins og honum fylgir breið námskrá þar sem lögð er áhersla á að rækta frumkvöðla og nýsköpun. Námsmat er öðruvísi en almennt tíðkast og er aðallega leiðbeinandi, en áhersla ekki lögð á dóm eða samanburð. Kennarinn og kennslan verða í brennidepli, frekar en fyrirmæli stjórnvalda og með því er kallað eftir trausti allra hlutaðeigandi aðila – skóla, heimila og samfélags. Í trausti felst gagnkvæmni og rík áhersla er lögð á faglega ábyrgð. Mikilvægt er talið að læra af fyrri athöfnum, þ.e. reynslunni og menntastefnan mótast þannig á grundvelli rannsókna.

Hvað á að gera? Hver eru næstu skref?

Þurfum við hér á landi að taka afstöðu og velja hvora leiðina við viljum fara? Það er að mínu mati óskynsamlegt að búa til tvo afdráttarlausa kosti. Menntamál eru alltof margslungin til þess að umræða um menntastefnu sé, eða geti verið svarthvít, þannig að maður sé annað hvort alfarið með eða á móti tilteknum hugmyndum eða útfærslum. Flestir eru á einu máli um mikilvægi menntakerfisins, en það er ekki jafn augljóst hvernig á að viðhalda því, hvað þá að endurnýja það.

Menning og viðhorf eru sterkir áhrifaþættir sem koma í ljós þegar við skoðum og ræðum verkefni skólanna og breytast ekki í einu vetfangi. Það þarf að leggja stöðuga vinnu í endurskoðun markmiðanna eins og felst í orðum Páls Skúlasonar hér að framan. Það þarf að skoða kerfið í heild og ræða af yfirvegun hvað er vel gert, hvað má gera betur og hverju við skulum draga úr eða hætta. Við eigum öll okkar sögu, persónulega og félagslega, reynslu og bakgrunn sem gerir okkur að þeim manneskjum sem  við erum. Starfsemi skólanna er í eðli sínu flókin og menntun á að efla mennsku okkar. Styrkja okkur sem einstaklinga og samfélagsborgara og búa undir fjölbragðaglímur framtíðarinnar. Það er óskandi að sameiginleg reynsla og bakgrunnur geti sameinað okkur í að taka næstu skref í átt að bættu menntakerfi. Ekki að þessari þrautargöngu ljúki nokkurn tíma. Vonandi mun  íslenskt menntakerfi og menntastefna stuðla að þroska nemenda, gera þá hæfari sem manneskjur til að heyja lífsbaráttuna og njóta lífsins í óræðri framtíð. Menntun er verkefni sem við fáumst við út lífið. Menntun þarf að byggja á trausti allra hlutaðeigandi, metnaðarfullri, framsækinni og ögrandi hugsjón með kennara og skólastjórnendur í framvarðarsveit umræðunnar um menntun og framtíð.

Heimildir

Andri Snær Magnason. (2006). Draumalandið. Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Reykjavík: Mál og menning.

ATA. The Alberta Teachers‘ Association. (2015). Renewing Alberta‘s promise: A great school for all. Sótt 5.10.15 af www.teachers.ab.ca

Evrópusambandið. (2006). Lög Evrópusambandsins. Key competences for lifelong learning. Sótt 4.12.15 af http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=URISERV%3Ac11090

Kennarasamband Íslands.  Ýmislegt, hvítbókarvinna. Sótt 6.11.15 af http://ki.is/skolamal/ymislegt/hvitbokarvinna

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013. Reykjavík: Höfundur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2014). Hvítbók um umbætur í menntun. Reykjavík: Höfundur. Sótt 2.11.15 af http://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir/Hvitbik_Umbaetur_i_menntun.pdf

Páll Skúlason. (1987). Menntun og stjórnmál. Pælingar. Reykjavík: Ergo.

Patrick Hernwall. (2010). Mediatekniken i dag och barns forandrada vilkor.  Sótt 4.12.15 af http://www.slideshare.net/hernwall/nordsprk-20101030

Sahlberg, P. (2012). Global educational reform movement is here! Sótt 30.11.15 af  http://pasisahlberg.com/global-educational-reform-movement-is-here/

Murgatroyd, S. (2014, mars). Rethinking equity a great school for all (Myndband). Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=0jgf-gU2EkQ


Sævar Þór Helgason er skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði. Lauk B.Ed. frá KHÍ 2000 og meistaraprófi frá HÍ 2016. Varð skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði haustið 2016. Greinin var skrifuð undir handleiðslu Jóns Torfa Jónassonar prófessors á námskeiði á Menntavísindasviði.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp