Ingvar Sigurgeirsson og Magnús Eðvaldsson
Þú rekur ferðaskrifstofu og átt að skipuleggja útivistarferð.
Um er að ræða tveggja til þriggja daga ferð um Húnaþing vestra, þú ræður hvernig ferð þetta er. Þetta getur verið gönguferð, hjólaferð, jeppaferð, hestaferð eða hvað sem þér dettur í hug. Það á allt að vera innifalið í ferðinni til dæmis matur og gisting.
Það sem þarf að koma fram:
Nákvæm lýsing á ferðinni, ferðatilhögun; hvað er gert á hverjum degi í ferðinni?
Útbúnaður, hvað þarf að hafa með sér í ferðina?
Matur, hvað er í matinn í ferðinni?
Hvað kostar ferðin, hvað er innifalið í verðinu (sundurliðun á kostnaði)?
Svona hljóma fyrirmæli sem nemendur á valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra fá í upphafi námskeiðs um útivist sem þeim stendur til boða annað hvert haust. Námskeiðið, sem hefur verið kennt sjö sinnum, hefur verið sótt af 10‒15 nemendum hverju sinni. Kennarinn er Magnús Eðvaldsson. Magnús er virkur björgunarsveitarmaður og námskeiðið er haldið í góðu samstarfi við björgunarsveitina Húna. Námskeiðið stendur yfir í eina önn, 80 mínútur í hverri viku.
Í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga er boðið upp á fjölbreytt valnámskeið. Nefna má námskeið í smíðum, upplýsingatækni, heimilisfræði, myndmennt, þýsku, prjónaskap, um borðspil og hlutverkaleiki, Skólahreysti, heilsurækt, kvikmyndir, hestamennsku, rokksögu (þar sem farið er í tónlistarsögu og fjallað um helstu hljómsveitir síðustu ára, auk þess sem nemendum stendur til boða að stofna hljómsveit) og sviðslistir. Enn má nefna námskeið sem kennt er við skólavini og veitir nemendum tækifæri til að taka þátt í samfélagslegum verkefnum, til dæmis aðstoða nemendur í íþróttaskóla, styðja nemendur yngri bekkja, hjálpa til við lestrarþjálfun eða sinna öldruðum.
Aðalverkefnið á útivistarnámskeiðinu er, eins og fram kemur hér að ofan, að nemendur hugsa sér að þeir reki ferðaskrifstofu sem selur ferðir um Húnaþing vestra. Þeir þurfa að ákveða hvaða ferðir eru í boði. Nemendur mega vinna einir, í pörum eða litlum hópum. Ferðin verður að standa í tvo til þrjá daga og hana verður að selja þannig að allt sé innifalið (ferðir, matur, gisting). Gerð er krafa um nákvæma tímaáætlun, greinargerð um hvaða staði á að heimsækja og dagleiðir, sem og hvaða matur verður í boði hverju sinni. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um allan útbúnað og huga þarf að öryggismálum.
Áhersla er lögð á að nemendur skipuleggi ferðirnar í þaula. Þeir þurfa m.a. að reikna með öllum vistum og ganga þarf úr skugga um allan kostnað. Enginn afsláttur er gefinn af þessu. Allar kostnaðartölur verða að vera raunverulegar og nemendur afla þeirra gjarnan hjá verslunum og ferðaþjónustuaðilum í héraðinu. Þá þurfa nemendur að huga að samþættingu, til dæmis að kynna ferðina á íslensku, ensku og dönsku og tengja hana hreyfingu og náttúrufræði (náttúrufari á svæðinu sem farið er um).
Sem dæmi um ferðir sem nemendur hafa valið að skipuleggja eru göngu- og veiðiferð um Arnarvatnsheiði, hestaferð um Víðidalstunguheiði, hjólaferð um Vatnsnesið, gönguferð í nágrenni Vesturhópsvatns, fjórhjólaferð, jeppaferð þar sem fléttað var inn heimsóknum á sveitabýli og skoðunarferð með rútu á helstu ferðamannastaði.
Segja má að aðalnámsefnið á námskeiðinu sé útivistarkort sem Ferðamálafélag Vestur-Húnavatnssýslu gaf út (er nú ófáanlegt). Kortið hangir uppi í stofunni meðan á námskeiðinu stendur og nemendur skoða það mikið og velta fyrir sér möguleikum.
Nemendur sækja upplýsingar einnig mikið af netinu. Þá er stuðst við efni úr bókinni Góða ferð – Handbók um útivist eftir Helenu Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur og Útilíf eftir Helga Grímsson en þangað er meðal annars sótt námsefni fyrir bóklega tíma. Þá leysa nemendur fjölda verkefna, m.a. um notkun landakorta og áttavita. Sum verkefnanna hafa verið gerð í samstarfi við björgunarsveitarmenn.
Ferðina þurfa nemendur vitaskuld að kynna í lok námskeiðsins, þ.e. þeir þurfa að selja öðrum nemendum ferðina og stundum hafa aðrir gestir verið viðstaddir kynningarnar. Að sjálfsögðu þarf að búa til kynningargögn. Nemendur hafa lagt sig mjög fram við þessar kynningar. Dæmi hafa verið um nemendur, sem ekki hafa þótt mjög áhugasamir um bóknám, en hafa skilað frábærum úrlausnum á þessu námskeiði – hafa beinlínis blómstrað við að skipuleggja ævintýraferðir sínar.
Auk þess að fást við þetta verkefni fá nemendur tækifæri til að glíma við fjölbreyttar æfingar sem valdar hafa verið í samstarfi við Björgunarsveitina Húna. Nefna má köfunaræfingar í sundlauginni, siglingu á björgunarsveitarbátnum, gönguferðir og sigæfingar. Inn í námskeiðið er að sjálfsögðu fléttað kynningu á starfsemi björgunarsveitarinnar.
Sérstaklega er vandað til lokadaganna á námskeiðinu. Annar lokadagurinn er kynningardagurinn, en hinn byggist á ferðalagi. Sem dæmi má nefna ferð þar sem nemendur áttu að ganga eftir korti að Laugarstapa og bera einn í sjúkrabörnum hluta leiðarinnar. Þegar komið var að Laugarstapa fengu nemendur að æfa sig við að síga. Eftir að hafa borðað grillaðar pylsur var farið í siglingu!
Vart þarf að taka fram að nemendur eru hæstánægðir með að eiga kost á námskeiði sem þessu og gaman er að segja frá því að þegar námskeiðið hafði verið kennt í fyrsta sinn, var meðbyrinn nýttur og til varð unglingadeild í Björgunarsveitinni sem starfaði í nokkur ár.
Þetta valnámskeið er gott dæmi um námskeið þar sem kennari byggir á þekkingu sinni og áhugamáli, tengir það nærumhverfi nemenda og býður þeim raunveruleg og áhugaverð verkefni sem hafa tilgang. Ekki verður betur séð en að vinnubrögð sem þessi séu í góðu samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Í skólanum er lögð mikil áhersla á tengsl við atvinnulífið. Skólinn hefur til dæmis lengi verið svokallaður GERT skóli (sjá http://gert.menntamidja.is/#pricingtable) og þróað öflugt samstarf við fyrirtæki og háskóla. Þar má nefna þriggja ára háskólakynningaráætlun þar sem nemendur í 8.–10. bekk heimsækja tækni- og nýsköpunarfyrirtæki og háskóla með áherslu á verklega vinnu og þátttöku í raunvísindum og tækni. Fyrsta árið er farið tvo daga í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, annað árið í Háskóla Íslands og fyrirtæki í Reykjavík og þriðja árið er farið í Háskólann á Akureyri og fyrirtæki þar. Að vori og hausti fá nemendur um það bil viku í starfsnám eftir áhugasviðum hjá fyrirtækjum, stofnunum og bændum allan skóladaginn.
Ingvar Sigurgeirsson er prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.
Magnús Eðvaldsson er kennari við Grunnskóla Húnaþings vestra þar sem hann kennir m.a. íþróttir og ýmsar valgreinar.