Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að kynnast umhverfi sínu – átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar

í Greinar


Svanborg Tryggvadóttir

 

Í dag, 20. apríl, eru ánægjuleg tímamót hjá okkur í Grunnskóla Snæfellsbæjar þegar við opnum nýja heimasíðu um átthagafræði.   Átthagafræðin hefur verið fastur liður í skólastarfi okkar í 1.– 10. bekk síðastliðin átta ár.

Forsaga þess að átthagafræði varð námsgrein við skólann er sú að þegar unnið var að skólastefnu Snæfellsbæjar árið 2009 vaknaði áhugi meðal starfsfólks Grunnskóla Snæfellsbæjar á  að auka þekkingu nemenda á heimabyggð sinni. Skipuð var nefnd sem vann að því að innleiða námsgreinina átthagafræði við grunnskólann. Skólinn fékk styrk úr Vonarsjóði 2009 til að vinna að gerð námskrárinnar og tilraunaútgáfa kom út í janúar 2010. Síðan þá hefur námskráin verið í stöðugri þróun.  Þó svo að námskráin hafi í upphafi verið unnin áður en núgildandi aðalnámskrá grunnskóla kom út hefur hún sterka tengingu í innihald hennar eins og grunnþættina læsi, sjálfbærni og sköpun.

Átthagafræði er fræðsla um nærsamfélagið og eru lykilþættir hennar náttúra, landafræði og saga bæjarfélagsins. Hún  snýst einnig  um að nemendur kynnist samfélagi nútímans og þeim tækifærum sem það býr yfir.   

Átthagafræði gefur möguleika á uppbroti hefðbundins náms með áherslu á upplifun nemenda í eigin samfélagi. Vettvangsferðir eru ríkur þáttur í náminu; þannig er stuðlað að jákvæðum samskiptum og samstarfi skólans við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir í Snæfellsbæ. Með þessu móti byggir Grunnskóli Snæfellsbæjar upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengir nám nemenda veruleikanum í bæjarfélaginu og eykur um leið fjölbreytni í námi.

Eitt af þeim verkefnum sem unnið er undir merkjum átthagafræðinnar tengist Búðum á sunnanverðu Snæfellsnesi og nemendur 8. bekkjar vinna á hverju vori. Þetta verkefni er unnið í samstarfi við Soroptimistaklúbb Snæfellsness og koma að því hverju sinni nokkrar félagskonur klúbbsins, þar á meðal er Ragnhildur Sigurðardóttir umhverfisfræðingur. Á Búðum kynnast nemendur sögu kirkjunnar og þeim listaverkum sem þar má sjá. Nemendur ganga um Búðahraun og að fornum búðum sem þar eru og tengjast búskap og sjómennsku fyrr á tímum. Á göngu sinni segir Ragnhildur nemendum frá ýmsu sem tengist staðnum, t.a.m. örnefnum og sögum sem meðal annars tengjast hinum alræmda Axlar-Birni. Á heimleiðinni ganga nemendur með fjörunni og tína upp rusl sem á vegi þeirra verður og alltaf kemur á óvart hve miklu nemendur safna. Að lokum býður Hótel Búðir nemendum upp á ljúffengar veitingar áður en haldið er heim.

Í átthagafræðinni gefst tækifæri til að samþætta námsgreinar. Verkefnið um Búðir er gott dæmi um samþættingu þar sem námsgreinarnar íslenska, saga, umhverfisfræði, náttúrufræði og list-, og verkgreinar tengjast. Þarna fá nemendur fræðslu um sögu staðarins, upplifa náttúruna og  vinna að umhverfisvernd til framtíðar.

Við lok grunnskólagöngu er markmiðið að námið í átthagafræðinni hafi skilað nemendum okkar góðri þekkingu á heimabyggð sinni og kennt þeim vinnubrögð sem munu nýtast þeim í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi eða þátttöku í atvinnulífi.

Eins og áður segir eru vettvangsferðir mikilvægur þáttur í námi nemenda í átthagafræði og við höfum átt því láni að fagna að mæta mikilli velvild og góðum móttökum þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem við höfum leitað til. Fyrir það er vert  að þakka. Að öðrum ólöstuðum þökkum við LákiTours Grundarfirði fyrir að gera okkur fært að fara með nemendur í hvalaskoðun á Breiðafirði og Summit Adventure Guides Gufuskálum fyrir hellaskoðun í Vatnshelli og ferð með nemendur upp á Snæfellsjökul.

Áhugasamir geta kynnt sér átthagafræðina á vefsíðunni okkar sem við erum afar stolt af. Þar er hægt að skoða námskrá átthagafræðinnar en í henni eru  markmið hvers námsárs sett fram og viðfangsefni skilgreind. Námskráin er  fjölbreytt og gefur möguleika á ólíkum útfærslum í kennslu.  Einnig er hægt að skoða verkefnabanka þar sem hægt verður að sjá með hvaða hætti hin ýmsu verkefni voru unnin og mun hann stækka með tímanum.

Vefstjóri síðunnar er Hugrún Elísdóttir. Merki átthagafræðinnar var hannað af Antoni Jónasi Illugasyni í samstarfi við átthagafræðiteymið. Vitinn í merki átthagafræðinnar er táknrænn fyrir það að hann vísar veginn og litir merkisins kallast á við merki skólans því það er í sömu litum. Stefán Ingvar Guðmundsson tók forsíðumyndina auk fleiri mynda á síðunni.

Slóðin á síðuna er: https://www.atthagar.is/

Nemendur á Snæfellsjökli

Um höfund

Svanborg Tryggvdóttir lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 2006. Hún hóf störf við Grunnskóla Ólafsvíkur vorið 1998 sem stuðningsfulltrúi og starfaði sem leiðbeinandi  við skólann þar til hún lauk kennaranámi. Í dag vinnur hún sem náttúrufræðikennari við Grunnskóla Snæfellsbæjar á starfsstöðinni í Ólafsvík. Svanborg hefur í nokkur ár leitt starf átthagafræðiteymis við skólann og unnið að þróun átthagafræðinnar.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp