1

Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð

Nýlega kom út hjá Háskólaútgáfunni bókin Byrjendalæsi: Rannsókn á innleiðingu og aðferð. Í bókinni eru birtar niðurstöður rannsóknar á Byrjendalæsi sem staðið hefur undanfarin ár. Að rannsókninni stóð hópur rannsakenda af hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri og Menntavísindasviði Háskóla Íslands, ásamt sjálfstætt starfandi fræðimönnum. Verkefnisstjóri rannsóknarinnar var Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild HA og ráðgjafi rannsóknarhópsins var dr. Sue Ellis, prófessor við University of Strathclyde í Glasgow. Ritstjórar bókarinnar eru Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson.

Á þessari slóð má nálgast yfirlit um efni bókarinnar: https://www.unak.is/is/moya/news/bok-um-byrjendalaesi

Byrjendalæsi er þróunarverkefni á sviði læsismenntunar í 1. og 2. bekk grunnskóla sem staðið hefur íslenskum grunnskólum til boða í samvinnu við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri síðan haustið 2006. Í þróunarstarfinu er Byrjendalæsi sem aðferð við læsiskennslu fléttað saman við starfsþróun og leiðsögn kennara á vettvangi. Í aðferðinni sjálfri er leitast við að samþætta þekkingu á læsi og læsiskennslu, kennslufræðilega sýn á nám sem hugsmíðar, samvinnu nemenda og nám án aðgreiningar. Innleiðingarlíkanið miðar síðan að því að gera aðferðina að veruleika með skipulegri starfsþróun og leiðsögn kennara til að efla faglega samvinnu og teymisvinnu, faglegt sjálfstraust og forystu. Markmiðið er að efla hæfni kennara til læsiskennslu og til að bera ábyrgð á alhliða læsisnámskrá þar sem tekið er mið af margbreytilegum þörfum nemenda. Einnig er lögð áhersla á að foreldrar séu virkir aðilar að læsisnámi barna.

Í samræmi við framangreinda þætti í þróunarstarfinu var rannsókninni skipt í þrjá meginhluta: Í fyrsta lagi beindist rannsóknin að námi og kennslu undir merkjum Byrjendalæsis. Sjónum var beint að aðferðinni sjálfri,  fræðilegum stoðum hennar og hvernig hún samrýmist rannsóknum á skilvirkri læsiskennslu. Einnig var gaumgæft hvernig Byrjendalæsi samrýmist  íslenskri menntastefnu um læsi sem einn af grunnþáttum menntunar, lykilhæfni og nám án aðgreiningar. Í öðru lagi beindist rannsóknin að því hvað einkenndi innleiðingu Byrjendalæsis og hversu góð skilyrði hún skapaði fyrir vöxt og viðgang aðferðarinnar. Í þessum þætti rannsóknarinnar beindist athyglin sérstaklega að starfsþróun og leiðsögn kennara, teymisvinnu og þróun forystu. Þriðji þáttur rannsóknarinnar beindist síðan að samstarfi skólanna við heimili barnanna, heimavinnu, viðhorfum foreldra til læsiskennslunnar og þekkingu þeirra á þeim aðferðum sem beitt var í skólunum.

Bókin skiptist í 14 kafla auk inngangs. Að loknum kafla um snið rannsóknarinnar og gagnaöflun (1. kafla) eru sjö kaflar (2.–8. kafli) um fyrsta þátt rannsóknarinnar – nám og kennslu. Í þessum hluta bókarinnar er Byrjendalæsisaðferðin sjálf og innleiðarlíkanið kynnt og hvort tveggja sett í samhengi við fræðilegt baksvið og rannsóknir, bæði íslenskar og alþjóðlegar. Þá koma sex kaflar um nám og kennslu í Byrjendalæsi (3.–8. kafli). Markmið þeirra er lýsa því hvernig kennararnir sem þátt tóku í rannsókninni útfæra þrjú þrep kennslulíkans Byrjendalæsis, hvernig þeir standa að kennslu tæknilegra þátta læsis og vinna með orðaforða, lesskilning og ritun. Í þessum hluta eru enn fremur kaflar um námsaðlögun og hvernig kennslan svarar til áherslu Aðalnámskrár grunnskóla (2013) á læsi í grunnþáttum menntunar og lykilhæfni.

Þessu næst eru fjórir kaflar (9.–12. kafli) þar sem greint er frá innleiðingu Byrjendalæsis. Markmið þeirra er að gefa heildarmynd af helstu þáttum í þróunarstarfi skólanna og draga af því lærdóm sem gæti gagnast við innleiðingu annarra verkefna. Í þessum köflum er fyrst fjallað um innleiðingarferlið í heild og því næst um einstaka þætti þess: Starfsþróun, leiðsögn kennara og forystu þeirra sem tengjast verkefninu innan og utan skóla.

Síðasti kaflinn (13. kafli), þar sem greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar, fjallar um þann hluta rannsóknarinnar sem sneri að samstarfi skóla og foreldra um læsisnám barnanna. Markmið hans var að kanna hvernig samstarfið fer fram og hvaða þekkingu og sjónarmið foreldrar hafa um læsiskennsluna, gildi hennar og framkvæmd.

Í lokakafla bókarinnar (14. kafla) eru heildarniðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman og ræddar með hliðsjón af rannsóknarspurningum. Jafnframt er horft til framtíðar og rætt hvernig niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst við stefnumótun um læsismenntun,  frekari rannsóknir og þróunarstarf á sviði hennar.

Í rannsóknarhópnum störfuðu háskólakennarar í mennta- og félagsvísindum, ásamt fræðimönnum með langa reynslu af kennslu og ráðgjöf, þróunarstarfi í skólum og samstarfi við foreldra. Þessi fjölbreytti bakgrunnur rannsakendanna, ásamt samstarfi þeirra við erlendan sérfræðing, stuðlaði að því að niðurstöður rannsóknarinnar veiti heildstæða sýn á þróun læsismenntunar sem dregur fram órjúfanlegt samhengi hennar, starfsþróunar, forystu í skólum og samstarfs við foreldra. Í bókinni eru víða færð fyrir því rök að þetta samhengi sé nauðsynleg forsenda fyrir þróun læsismenntunar og eflingu læsis nemenda á öllum skólastigum – og til lengri tíma litið – efldu læsi þjóðarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna skýrt hve flókið slíkt þróunarstarf er en þær benda þó til þess að Byrjendalæsi og innleiðingarlíkan þess sé meðal þess sem getur gagnast við þau margvíslegu úrlausnarefni á sviði læsismenntunar sem fjallað er um í bókinni. Í ljósi þessarar meginniðurstöðu rannsóknarinnar er þess vænst að niðurstöður hennar verði mikilvægt framlag til þekkingar á læsismenntun í íslenskum grunnskólum og þróunar hennar og skili niðurstöðum sem skipta máli í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

Bókin var kynnt á málþingi sem haldið var í Háskólanum á Akureyri 9. mars. Upptöku af málþinginu má nálgast á slóðinni: https://www.unak.is/is/samfelagid/upptokur-og-utsendingar?r=97234e20-3697-477a-879b-a89e00dd0b5c