Árangursríkt samstarf Krikaskóla og Heilsugæslu Mosfellsbæjar

Þrúður Hjelm

 

Þegar Krikaskóli tók til starfa í nýbyggingunni  við Sunnukrika í Mosfellsbæ vorið 2010 voru mörkuð spor í samstarfi skólans og Heilsugæslunnar í Mosfellsbæ.

Í skólanum eru börn á aldrinum tveggja til níu ára – þar eru því leikskólabörn og svo börn á yngsta stigi grunnskólans í sama húsnæði og samnýta alla aðstöðu skólans.

Til stóð að skólahjúkrunarfræðingur hefði viðveru í skólanum til að sinna þeim grunnskólabörnum sem í skólanum væru hverju sinni.  Skólahjúkrunarfræðingurinn sinnir fræðslu og eftirliti með heilbrigði og heilsufari barna á aldrinum sex til níu ára.  Áætluð viðvera skólahjúkrunarfræðings var ekki löng  í hverri viku enda börnin ekki mörg á grunnskólaaldri.  Sú hugmynd kom því upp hvort einnig væri hægt að þjónusta leikskólabörnin innan skólans.

Greining var gerð á þeirri þjónustu sem heppilegt væri að veita af hendi Heilsugæslunnar og sá hluti ung- og smábarnaverndarinnar sem hægt væri að veita utan heilsugæslustöðvar var færður í skólann.  Í ljós kom að best væri að halda læknisskoðunum á Heilsugæslustöðinni en alla aðra þjónustu væri hægt að veita í skólanum.

Skólahjúkrunarfræðingur sinnir því bæði leik- og grunnskólabörnum í Krikaskóla og þjónustu við þau og fjölskyldur þeirra. Þroskamat og eftirfylgni í tveggja- og hálfsársskoðun og fjögra ára skoðun er framkvæmd í skólanum í samstarfi við foreldra sem það vilja. Foreldrar geta valið að sækja þessa þjónustu á Heilsugæslustöð ef þeir óska frekar en mjög fáir velja það. Þar er helst um að ræða foreldra barna sem fædd eru yfir hásumarið þegar skólahjúkrunarfræðingur er ekki við í skólanum.

Barnið hittir því hjúkrunarfræðing sem það þekkir í því umhverfi sem það dvelur í á hverjum degi. Börnunum líður vel í þessum aðstæðum og ekki hefur komið til þess að endurtaka þurfi komu barna til að ljúka mælingum. Öllu er hægt að ljúka í einni heimsókn til hjúkrunarfræðingsins  og hagræðið fyrir alla gríðarlegt.

Ef á þarf að halda er hægt að kalla til kennara viðkomandi barns, með mjög stuttum fyrirvara, eða sérkennara með skólahjúkrunarfræðingi og foreldri til að ræða inngrip eða áframhaldandi könnun á þroskaþáttum barna í skólanum. Slíkt hefur einnig flýtt fyrir og auðveldað ákvörðun um að koma málum í rétt ferli, barninu til hagsbóta. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum fyrir barnið og því teljum við að allt sem flýtir fyrir inngripi sé af hinu góða.

Þessi leið í Krikaskóla hefur fækkað þeim skiptum þar sem hjúkrunarfræðingur þarf að bóka endurkomu hjá barni til að halda áfram með þroskamat sem ekki náðist að ljúka í einni heimsókn. Foreldrar telja mikið hagræði af þessu fyrirkomulagi enda gott að koma í skólann til barnsins og hitta þar fyrir skólahjúkrunarfræðing. Barnið þekkir hjúkrunarfræðinginn sem starfsmann í skólanum og tengsl myndast. Kennarar hafa einnig snúið sér beint til hjúkrunarfræðingsins og beðið um að fylgst sé sértaklega með ákveðnum þáttum við þroskamatið í samstarfi við foreldra.

Við teljum að þetta samstarfsverkefni hafi umtalsverða kosti og höfum lagt áherslu á að viðhalda því. Það hefur því þróast hjá okkur á sama tíma og skólinn hefur stækkað en bæði starfsmenn Krikaskóla og heilsugæslunnar eru sammála um gæði þess.


Þrúður Hjelm er skólastjóri Krikaskóla
„Við erum öll eitt lið“ – samrekstur leik- og grunnskóla

Ingvar Sigurgeirsson

 

Fyrir nokkrum árum kom ég að málum í sveitarfélagi þar sem áform voru uppi um nýja leikskólabyggingu. Hugmyndin var að reisa leikskólabygginguna við grunnskólann og að byggja um leið við grunnskólann, en þar vantaði m.a. náttúrufræðistofu, sal og aðstöðu fyrir bókasafn.

Í sveitarfélaginu hefur um skeið verið nokkur óstöðugleiki í stjórnun og nýr meirihluti skipaður þrisvar á kjörtímabilinu. Þetta hefur m.a. bitnað á áformum um leikskólabyggingu, en í vor ákvað sá meirihluti sem nú ræður málum að hætta við að byggja leikskólann við grunnskólann, og ráðast þess í stað í nýbyggingu leikskólans á núverandi stað. Rökin sem sett voru fram fyrir þessari breytingu voru öðru fremur fjárhagsleg, þ.e. að það væri ódýrara, en einnig skipulagsleg, þ.e. að ekki hefði fundist góð lausn á staðsetningu nýbyggingarinnar við grunnskólann. Eins var bent á umferðarmál og vísað til veðurfars – að skjólsælla væri á gamla staðnum. Rétt er að halda því til haga að meirihlutinn tók þessa ákvörðun án samráðs við starfsfólk skólanna og málið kom heldur aldrei fyrir fræðslunefnd. Talsverð ólga varð í kjölfar þessarar ákvörðunar og í nóvember 2017 var ákveðið að efna til íbúafundar til að ræða þessi mál og kynna hin nýju áform.

Til mín var leitað um að fjalla um samrekstur leik- og grunnskóla á fundinum. Ég hafði áður eindregið stutt það að ný leikskólabygging yrði reist við grunnskólann og sá fyrir því ýmis fagleg og rekstrarleg rök. Til að undirbúa ávarp mitt á fundinum ákvað ég að kanna hvernig samskipan leik- og grunnskóla hefur gengið, en ég þekkti til á nokkrum stöðum þar sem ákveðið hefur verið að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu. Raunar höfðu sveitarstjórnarmenn og skólafólk í umræddu sveitarfélagi heimsótt nokkrar aðrar byggðir þar sem leik- og grunnskólar eru í sömu byggingu þegar hugmyndir um þetta komu fyrst upp. Þessar heimsóknir höfðu styrkt þáverandi sveitarstjórn í ráðagerðum um að hafa skólana í nábýli.

Til að undirbúa framlag mitt á íbúafundinum ákvað ég að skrifa stjórnendum í skólum, þar sem ég vissi að leik- og grunnskóli væru í sama húsi og spyrja þá um kosti þess og galla. Alls brugðust níu skólastjórar við þessu erindi mínu og sex þeirra sendu mér all ítarleg svör (sjá hér á eftir). Fyrirfram átti ég vissulega von á því að fá langa lista yfir bæði kosti og galla. Niðurstaðan varð önnur, þ.e. að kostirnir reyndust miklu fleiri en gallarnir. Þessi niðurstaða var svo afgerandi að ég ákvað að skrifa þessa grein. Ég giska á að svipuð mál verði í deiglunni í fleiri sveitarfélögum og því gagnlegt að halda öllum rökum til haga. Fyrir fámennt sveitarfélag er skynsamlegt, bæði af rekstrarlegum og faglegum ástæðum, að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu, sé þess kostur. Margt bendir líka til þess að ávinningurinn af þessu fyrirkomulagi sé mestur þegar bæði stigin lúta sömu stjórn.

Auk þess að leita álits skólastjóranna rak á fjörur mínar tvær lokaritgerðir þar sem höfundar höfðu ráðist í athuganir á samrekstri leik- og grunnskóla. Hilmar Björgvinsson (2013) ræddi við tíu starfsmenn og stjórnendur í tveimur samreknum leik- og grunnskólum. Annar skólinn var í fjölmennu sveitarfélagi, hinn í fámennu sveitarfélagi. María Pálmadóttir (2015) skoðaði þrjá samrekna leik- og grunnskóla og ræddi við 13 viðmælendur. Niðurstöður rannsóknanna eru mjög á einn veg.

Allir viðmælendur Hilmars (2013) reyndust mjög hlynntir samrekstri leik- og grunnskóla og sáu ýmsan ávinning með rekstri slíkra skóla. Markviss samvinna fimm ára leikskólanemenda og sex ára grunnskólanemenda stuðlaði að samfellu í námi þeirra og var þá auðveldara að færast á milli skólastiga. Mat viðmælenda Hilmars var að menning samreknu skólanna einkenndist af jákvæðni, virðingu, vináttu og miklu samstarfi nemenda, starfsmanna og foreldra. Starfsmannahópurinn varð öflugri þar sem fleiri komu saman með ólíka reynslu, menntun og færni. Fjárhagslegur ávinningur var einhver og þá sérstaklega ef skólinn er í einni byggingu þar sem hægt er að samnýta alla aðstöðu. Hindranir fólust einkum í ólíkum kjarasamningum starfsmanna og eins ef skólinn var í fleiri en einni byggingu.

Viðhorf viðmælenda Maríu Pálmadóttur (2015) til samrekstrar reyndust einnig jákvæð. Helstu kostir voru: Betri nýting húsnæðis, aukin hagkvæmni, betri nýting upplýsinga milli skólastiganna, meiri samfella í námi, styttri boðleiðir, aukin þekking starfsfólks á því skólastigi sem fer á undan og á eftir og einfaldari samskipti foreldra við skólakerfið. Ókostir samrekstrar fólust að mati viðmælenda hennar einkum í ólíkum kjarasamningum og ólíkum starfstíma leik- og grunnskólakennara. Þá gætti tortryggni milli leik- og grunnskólakennara sem engu að síður mætti draga úr með aukinni samvinnu fagstéttanna. María birtir í grein sinni SVÓT-greiningu á samrekstri, sjá töflur neðst í þessari grein.

Mat þeirra skólastjórnenda sem ég hafði samband við reyndist mjög í samræmi við niðurstöður þeirra Hilmars og Maríu.

Jóna Björg Jónsdóttir (tölvupóstur, 8. nóvember, 2017), skólastjóri Kerhólsskóla í Grímsnesi svaraði erindi mínu með því að senda mér töflu yfir helstu kosti og galla þess að hafa leikskóla og grunnskóla í sömu byggingu (sjá Töflu 1).

Tafla 1 Kostir og gallar þess að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu að mati Jónu Bjargar Jónsdóttur, skólastjóra Kerhólsskóla í Grímsnesi, en skólastigin þar eru samrekin.

KOSTIR

GALLAR

 • Samstarf á milli deilda eykst
 • Meiri nánd á milli nemenda, aldursbilin verða minni
 • Leikskólanemendur þekkja til þegar þau koma upp í grunnskólann
 • Grunnskólabörnin geta ennþá hitt sína leikskólakennara þrátt fyrir að vera komin annað í húsið
 • Systkinahópar stækka innan skólans þar sem aldursbilið breikkar, 1-16 ára.
 • Meira samstarf í kennsluháttum á milli deilda
 • Sama uppeldisstefnan á báðum deildum
 • Ein sameiginleg kaffistofa þar sem allt starfsfólk hittist
 • Faglega starfið verður betra og breiðara þar sem auðveldara er að halda teymisfundi þvert á deildir (leik- og grunn) sameiginleg teymi eru um íslensku, stærðfræði, útinám o.fl.
 • Meiri stuðningur frá starfsfólki til hvers annars þar sem hægt er að ræða hvað er að ganga vel og hvað má betur fara, hvernig hægt sé að leysa þessi og hin vandamálin.
 • Stærri hópur nemenda og starfsfólks.
 • Stórar samverustundir, söngstund, útinám, réttarferðir o.s.frv.
 • Við erum öll eitt lið og ein stór fjölskylda.
 • Ákvarðanir eru teknar jafnt fyrir leik- og grunnskóladeildina varðandi ýmis kaup á húsgögnum, tækjum, bókum og öðru slíku sem hægt er að samnýta.
 • Kjaramál starfsmanna leik- og grunnskóla ekki þau sömu þannig að þegar grunnskólinn er í vetrar-, páska- og jólafrí þá eru leikskólastarfsmenn í vinnu.
 • Þetta getur skapað togstreitu á milli starfsfólks.
 • Þegar yngstu börnin í leikskóladeildinni sofa eru nemendur grunnskóladeildar að fara í frímínútur og getur það skapað læti sem getur truflað svefn yngstu barnanna.
 • Stundum ekki skilningur deilda á verksviði hvors annars, en með góðu samtali og teymisvinnu hefur okkur tekist að minnka það verulega. Þannig verður til aukin skilningur á milli deilda og því spurning hvort það sé í raun neikvætt (held ekki).
 • Stjórnunarlega séð væri, að ég tel mun „auðveldara“ að vera með eitt skólastig = færri skýrslur að fylla út. En í svona litlu sveitarfélagi þá væri hvor eining svo lítil að ekki næðist eins öflugur starfsmannahópur = væri ekki eins gaman í partýunum, það skiptir líka máli.

 

Þegar vel er að gáð má sjá að Jóna tilgreinir alls 14 kosti við að hafa leik- og grunnskóla saman. Gallarnir eru í raun aðeins þrír að hennar dómi, þ.e. ólíkir kjarasamningar, skortur á gagnkvæmum skilningi milli skólastiganna og hugsanleg truflun á hvíldartíma litlu barnanna. Öll þessi atriði er væntanlega hægt að leysa. Eftir standa yfirgnæfandi faglegir kostir og betra faglegt starf.

Þess má geta að Jóna Björg er leikskólakennari að mennt. Elfa Birkisdóttir, skólastjóri Bláskógaskóla á Laugarvatni, er einnig með leikskólakennaramenntun og á Laugarvatni eru leik- og grunnskóli einnig samreknir. Elfa sendi mér ítarlegt svar við spurningu minni um kosti og galla samrekstrar (Elfa Birkisdóttir, tölvupóstur, 5. nóvember 2017).  Mat Elfu er að kostirnir …

… séu ótvírætt fleiri en ókostir“ … Við getum nýtt sömu rými til kennslu ef þarf. Verk og listmenntastofur eru leikskólans af og til og elsti árgangur leikskólans fer í smiðjutíma með 1. og 2. bekk tvisvar í viku. Einnig kemur grunnskólinn, 1.‒3. bekkur eina kennslustund í viku í leikskólann þar sem þau leiðbeina og fá að njóta sín í frjálsum leik, spila eða fá í raun að hverfa aftur í tímann og rifja upp tengsl við leikskólann. Mjög vel hefur líka gefist að hafa skipulagðar stundir grunnskólanemenda í leikskólanum og í raun betur en okkur óraði fyrir en slíkt starf höfum við verið að þróa undanfarin tvö ár.

Þá leggur Elfa áherslu á að sér þyki sem leikskólakennara …

… vera mörg tækifæri í því að horfa til valdeflingar leikskólakennara með því að stuðla að frekari samskiptum kennara á leik og grunnskólastigi. Það hafa verið búin til teymi sem vinna saman í hringekju á skilum leik- og grunnskóla og einnig er einn kennari á leikskólastigi með í útikennsluteymi skólans þar sem vinna þeir kennarar sem koma að þróun útináms við skólann. Við erum að reyna að brjóta niður múrana sem liggja á milli þessarar tveggja skólastiga og í leiðinni að horfa til að leikskólastigið sé alltaf jafn mikilvægt og grunnskólastigið ef ekki mikilvægara …

Elfa telur að stærsti kosturinn við samreksturinn sé samfellan í námi barnanna. Ókostina telur hún, líkt og Jóna Björg, liggja í ólíkum kjarasamningum og segir m.a. um þetta að það sé „í raun óþolandi að við séum ekki komin nær hvort öðru þar, þ.e. leik- og grunnskólastigið. Ég trúi því að það sé ekki langt í að það lagist.“

Á Súðavík á samstarf leik- og grunnskóla sér langa sögu, en skólastigin þar eru nú samrekin í sömu byggingu. Anna Lind Ragnarsdóttir (tölvupóstur, 6., 7. og 8. nóvember 2017), skólastjóri Súðavíkurskóla, sagðist nánast eingöngu sjá kosti við þessa skipan:

Við erum með samkennslu 5 ára nemenda með 1.‒4. bekk eða með yngsta stigi. Þá erum við einnig með allar uppákomur sameiginlegar eins og í stærri viðburðum, t.d. þorrablót, árshátíð, jólagrín o.s.frv. Einnig í samsöng á sal, gróðursetningu, skólagörðum, norræna skólahlaupinu o.s.frv. og alltaf eru allir með, eins árs til 16 ára. J Starfsmenn leikskólans hafa aðgang að öllum skólastofum sem eru lausar hverju sinni, t.d. ef það á að vera myndmennt hjá leikskólanemendum og laus myndmenntastofa grunnskólann, þá er farið þangað og sú stofa notuð. Allt notað sem hægt er og hjálpar. Einnig er stutt fyrir unglingstigið okkar að leysa af í leikskólanum þegar á þarf að halda, en ég er að hugsa um að bjóða unglingunum upp á það sem val næsta vetur, að fara inn á leikskóla og vinna. 

Sama á við um öll gögn, tól og tæki, allt samnýtt. Starfsmannafundir eru sameiginlegir hálfsmánaðarlega, tveir sameiginlegir starfsmannadagar á skólaárinu, og ekki gleyma starfsmannagleðinni eða partýunum. 

Allt þetta gerist og getur gerst af því að það er sameiginlegt húsnæði. Virkar vel (betur) til þess að láta alla stefna í sömu átt, sameiginlega!

Aðspurð um ókostina nefndi Anna Lind eins og þær Jóna Björg og Elfa, kjarasamningana, sem og vandkvæði við að ná starfsfólki á báðum stigum saman á fundi. Eins taldi hún að ekki væri nægilega vel komið til móts við stjórnendur samrekinna skóla. Í seinna svari sínu áréttar Anna Lind kostina og segir það „snilld að sameina … ég fer aldrei ofan af því, ef fólk er almennt tilbúið til þess þá er ekki það ekki spurning í mínum huga“.

Ingveldur Eiríksdóttir (tölvupóstur, 10. nóvember, 2017) er skólastjóri Laugargerðisskóla, sem er lítill sveitaskóli í Eyja- og Miklaholtshreppi, segir kosti þess að hafa leik- og grunnskóla saman ótvíræða, en þessir séu helstir:

 • Samfella leik og grunnskóla verður ,,alger“ og nemendur koma vel undirbúnir í 1. bekkinn og starfsfólk grunnskóladeildar þekkir stöðu þeirra vel. Samfella er góð í námi þeirra og kennslu og nemendur virðast vera öruggir þegar þeir færast á milli.
 • Sérfræðiþjónusta er sameiginleg og ýmislegt er gott við að svo sé, t.d. sparast tími, auðveldara er að sæta lagi og aðgangur að starfsfólki skólans er auðveldari á einum stað en tveimur.
 • Það styrkir jafnframt smærri skólana að starfsfólk vinni saman og njóti samvista sem og aðstöðunnar.
 • Nemendur nýta sama mötuneyti og borða allir saman.
 • Nemendur eru 1x á dag allir saman úti í frímínútum og nýtast þá starfsmenn sem eru í gæslu f. báða hópana. Eldri nemendur leika við þá yngri og öfugt.
 • Nemendur leikskóladeildar og 1.–4. bekkur eru saman úti í lok dags og gengur það mjög vel.
 • Nemendur nýta allir sama bókasafnið og stutt er fyrir alla að fara þangað. Starfsmaður nýtist báðum deildum.
 • Nemendur leikskóla eru með í ýmsum verkefnum grunnskóladeildarinnar og yngsta deildin fer einnig í leikskólann og sýnir verk sín, les og syngur.
 • Allir nemendur koma fram saman á tónlistardögum og skemmtunum. Tónlistarkennsla nýtist í báðum deildum.
 • 4 – 6 ára nemendur fara 1 klst. á viku saman í íþróttir.
 • Aðstaða grunnskóladeildar nýtist vel þegar létta þarf á leikskólanum, eða hópavinna krefst þess. Starfsmenn og kennara grunnskóladeildar taka til sín nemendur leikskóladeildar í vinnu ýmiskonar og hópastarf. Efniskaup til myndlistar og hönnunarvinnu ýmiskonar eru einföld og efni og þekking nýtist betur. Augljóst er að öll kennslurými standa leikskólanum til boða og eru nýtt. Skólalóðin er sameiginleg.
 • Foreldrafélag er sameiginlegt.
 • Skólabílar aka leikskólabörnum í leikskólann sé þess óskað.

Í Reykhólaskóla er samrekinn leik- og grunnskóli. Valgeir Jens Guðmundsson skólastjóri tekur í sama streng og hinir skólastjórarnir og segist ekkert sjá …

… nema jákvætt við það að hafa þetta fyrirkomulag. Það auðveldar skipulag og samvinnu og þá sérstaklega umskiptin úr leikskóla yfir í grunnskóla … . Leikskólakrakkarnir eru fljótari að aðlagast heldur en aðkomukrakkar sem koma í skólann og það er meiri samhugur í grunnskólanemendum gagnvart leikskólanum þar sem hann er innan veggja skólans.

Einn gallinn sem Valgeir nefnir í svari sínu er að stundum valdi það óþægindum þegar foreldrar leikskólabarna vinni í grunnskólanum. Það geti verið erfitt vegna nálægðarinnar.

Samrekstur leik- og grunnskóla eða það fyrirkomulag að hafa þá í sömu byggingu, undir aðskilinni stjórn, er ekki bundið við skóla í fámennum sveitarfélögum. Nefna má að í Norðlingskóla í Reykjavík er leik- og grunnskóli í sömu byggingu og hið sama gildir um Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Í báðum tilvikum eru stjórn skólanna aðskilin. Aðspurður um kosti þess og galla að hafa þessa skipan sagði Lars Imsland (tölvupóstur, 9. nóvember 2017) skólastjóri Hraunvallaskóla: „Fleiri kostir. Enginn vafi. Mörg vannýtt tækifæri hjá okkur. Ætlum að skoða það saman á næsta ári.“ Enn má nefna að Garðbæingar hafa ákveðið að hafa nýjan skóla sinn, Urriðaholtsskóla, fyrir nemendur á aldrinum eins til sextán ára.

Mosfellsbær hefur líklega gengið lengst fjölmennu sveitarfélaganna í samskipan leik- og grunnskóla. Krikaskóli er samrekinn fyrir tveggja til níu ára börn og nýjasti skólinn, Helgafellsskóli, verður samrekinn fyrir fyrir bæði stiginn upp í 10. bekk.

Ég sendi Þrúði Hjelm, skólastjóra Krikaskóla þessa sömu spurningu um kosti og þess og galla að samreka leik- og grunnskóla. Svör hennar (tölvupóstur, 15. nóvember 2917) voru mjög eindregin og ég leyfi mér að gera þau að lokaorðum ásamt því að lýsa von minni um að þessi samskipan verði rannsökuð betur:

Stærsti kosturinn er samfella í nám og líf barnanna. Hvernig hægt er að gera þeirra yfirfærslu milli skólastiga eins „þægilega“ og hægt er. Ef það er samfella í náminu ‒ í aðferðum og leiðum þá leiðir það til öruggari barna og betri árangurs. Samfella nýtist einnig þar sem ekki þarf að „uppgötva“ ákveðin börn í 1. bekk ‒ við þekkjum þau vel og getum komið til móts við þau. Börnin eru einnig á „heimavelli“ þekkja allt starfsfólk skólans vel ‒ hafa aðgengi að mörgum einstaklingum sem þau geta leitað til ‒ námslega og persónulega. Sama á reyndar við um foreldrahópinn.

Annar stór kostur eru aðstæður ‒ húsnæði sem býður upp á öll tækifæri grunnskólans og allt leikefni leikskólans. Gott útileiksvæði sem nýtist öllum aldurshópum. Sandkassi ‒ sleðabrekkur og rassaþotur fyrir alla aldurshópa skólans sem dæmi. List – og verkgreinakennsla sem samnýtir mannauð og aðstæður. Íþróttaaðstaða og kennsla sem nýtist öllum börnum. Útikennsla sem er sérgrein í leikskólastarfi sem nýtist öllum börnum. Þannig mætti lengi telja.

Þriðji kosturinn sem ég vil nefna er mannauður. Þegar við erum með leik- og grunnskólakennara í nánu samtali lærum við hvert af öðru. Við sjáum nýjar lausnir og leiðir ‒ við fáum fleiri sjónarhorn á málin og getum brugðist fljótt við. Fundir eru haldnir, t.d. um samræmt próf í 4. bekk með öllum kennurum skólans. Þar koma fram ákveðnir styrkleikar og veikleikar í starfi skólans sem gott er fyrir alla aldurshópa að vita. Við höfum lengi séð styrk í, t.d. reikniaðgerðum og þar teljum við okkur vera að vinna markvissa vinnu með þrautir og þrautalausnir barna frá 4ra ára aldri. Við sáum einnig eitt árið að við þurftum að vinna meira með rúmfræði og höfum tekið það markvisst fyrir ‒ frá leikskóla til grunnskóla.

Nemendur í Krikaskóla staddir uppi á Lágafelli (útikennsla) Börnin eru að benda hvert öðru á heimili sín. Myndina tók Ágústa Óladóttir aðstoðarskólastjóri.

Tafla 2 Samrekstur leik- og grunnskóla: Styrkleikar og veikleikar. Taflan er úr ritgerð Maríu Pálmadóttur (2015).

Tafla 3 Samrekstur leik- og grunnskóla: Ógnanir og tækifæri. Taflan er úr ritgerð Maríu Pálmadóttur (2015).

Heimildir

Hilmar Björgvinsson. (2013). „Það græða allir“: viðhorf starfsmanna tveggja skóla til samreksturs leik- og grunnskóla (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/16884/1/Hilmar%20Bj%C3%B6rgvinsson.pdf

María Pálmadóttir. (2015). Samrekstur leik- og grunnskóla: Verkefnamat (óútgefið lokaverkefni til MPA-gráðu). Háskóli Íslands, Reykjavík. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/20278/1/María%20Pálmadóttir.pdf


Höfundur er prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi. Hann þakkar skólastjórunum sem lögðu af mörkum til greinarinnar.


 
Undirstaðan er traustið – Þankar um samstarf heimilis og skóla varðandi börn í vanda

Kristín Lilliendahl

 

Á ráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun 3. nóvember sl. kom í minn hlut að tala fyrir hönd samtakanna Erindis um samstarf heimila og skóla. Erindi er þjónustumiðstöð sem býður foreldrum og skólum aðstoð í málum sem varða samskipti og líðan barna upp að átján ára aldri. Hjá Erindi starfar fagfólk sem þekkir innviði grunnskólastarfs og hefur menntun og reynslu á sviði ráðgjafar og kennslu. Einnig hafa samtökin  sálfræðing, félagsráðgjafa og fjölskyldufræðinga á sínum snærum sem koma að starfseminni eftir þörfum. Á þeim tíma sem Erindi hefur starfað hafa samtökin komið að fjölmörgum málum víða um land með ráðgjöf og fræðslu. Einnig hefur færst í aukana að foreldrar og skólar leiti til Erindis eftir talsmanni eða óháðum fagaðila til að sitja fundi þar sem úrlausna er þörf í samskiptum heimila og skóla. Þá hafa samtökin tekið að sér verkefni fyrir fræðsluyfirvöld svo sem ítarlegar athuganir, heildstæðar úrlausnir í eineltismálum og umbætur varðandi skólabrag svo eitthvað sé nefnt. Það er á grunni ofangreindrar reynslu sem hér er skrifað. Starfsemi Erindis hvílir á þeim manngildissjónarmiðum sem birtast í gildandi lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, barnaverndarlögum, Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna ásamt þeim áherslum sem fram koma í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 um ábyrgð og skyldur nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Þrátt fyrir að ekki hafi verið unnin nákvæm rannsókn á eðli þeirra mála sem Erindi hefur sinnt, hafa ákveðnir þættir varðandi samskipti og skólastarf vakið oftar athygli okkar ráðgjafa en aðrir og verða þeir reifaðir hér. Til dæmis má nefna að flest þau mál sem Erindi hefur komið að, bæði að beiðni foreldra og skóla, varða börn á miðstigi. Allmargir skólastjórnendur, kennarar og aðrir fagaðilar sem við höfum átt samvinnu við hafa nefnt að samskiptavandi á miðstigi sé mun meiri nú en fyrir nokkrum árum. Það er í okkar huga verðugt rannsóknarefni að skoða hvort það sé reynslan í skólum landsins almennt og hvað hugsanlega veldur.

Í störfum okkar höfum við orðið vitni að framgöngu kennara og skólastjórnenda í samskiptum við nemendur og foreldra sem sýnir hvað starfsmenn skóla eru tilbúnir að seilast langt út fyrir skyldur sínar af umhyggju fyrir nemendum. Og sama gildir um framgöngu margra foreldra sem vitnar um áhuga og virðingu þeirra fyrir skólastarfinu. Það virðist þó sem formleg samskipti heimilis og skóla séu almennt frekar lítil og fari helst fram með kynningarfundi í upphafi skólaárs, með rafrænum upplýsingum á viku eða hálfs mánaðar fresti og með stuttum foreldraviðtölum einu sinni á misseri. Þetta er auðvitað ekki algilt og ónefnd þau óformlegu samskipti sem eiga sér stað í einstökum tilvikum. Þetta bendir þó til þess að heimili og skóli séu nokkuð aðgreindir heimar þrátt fyrir að gildandi lög um grunnskóla og aðalnámskrá undirstriki mikilvægi samstarfs þar á milli. Þetta getur komið sér illa þegar eitthvað bjátar á hjá nemendum og ekki er hægt að byggja á trausti sem búið er að festa í sessi með öflugu samstarfi. Þegar upp kemur vandi sem varðar nám, hegðun eða líðan barna er hætt við tortryggni og varnarháttum í samskiptum skóla og heimilis og jafnvel ásökunum sem geta valdið því að foreldrar hafna samstarfi við skólann. Og þá er stutt í að óvarlega sé talað á báða bóga. Þegar samskipti verða erfið milli heimilis og skóla er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvað börn þeirra heyra um skólann heima. Á sama tíma er jafn mikilvægt að kennarar gæti vel að viðhorfum sínum gagnvart þeim foreldrum og nemendum sem eiga í hlut. Það er gott að minnast þess að börn koma með fleira í farteskinu í skólann en bækur og nestið sitt. Hvert barn á sína sögu sem kennarinn hefur takmarkaða vitneskju um. Það kemur með fjölskyldu sína í skólann og það fer líka með kennarann heim. Sú hugmynd hefur komið fram í starfshópi Erindis að hvetja til þess að öll heimili og skólar í landinu geri með sér heiðursmannasamkomulag um að tala vel um skólann í návist barna. Það styrkir öðru fremur viðhorf barna til menntunar og um leið til sjálfra sín. Sé illa talað um skólann  getur það ögrað öryggiskennd barna, skaðað traust þeirra til kennara og dregið úr námsáhuga.

Starfsmenn Erindis verða æ meira varir við allskyns vandamál sem spretta af umræðum á samfélagsmiðlum, til dæmis á Facebook-síðum sem foreldrahópar halda gjarnan úti. Þar eiga foreldrar samskipti sín á milli um hin ýmsu mál sem varða skólagöngu barna þeirra. Slíkar síður geta verið afar gagnlegar en geta líka valdið skaða ef ekki er varlega farið. Ef foreldrar telja sig ekki fá viðunandi úrlausnir fyrir barn sitt í skólanum eða eru ósáttir við ákvarðanir eða vinnubrögð skólans, leita þeir gjarnan álits innan foreldrahópsins, deila reynslu sinni og kalla eftir reynslu annara foreldra. Við það verður til umræða sem erfitt er að stjórna. Þrátt fyrir að slíkar síður eigi einungis að vera aðgengilegar foreldrum bekkjarins eða árgangsins orkar það verulega tvímælis ef barn eða börn eru til umræðu án vitundar þeirra eða upplýsingar veittar sem varða önnur börn en eigið barn. Umræðan, hver sem hún er, getur hæglega borist út fyrir hópinn og það getur verið erfitt að greina hvenær hún er farin að vega að orðspori kennara, skólastjórnenda eða jafnvel farin að snúast gegn öðrum foreldrum eða börnum þeirra. Þetta getur haft í för með sér ásakanir um trúnaðarbrot, ærumeiðingar eða jafnvel einelti. Það er í okkar huga afar mikilvægt að skapa umræðu meðal skólafólks og foreldra um notkun slíkra samskiptamiðla og að báðir aðilar séu meðvitaðir um nauðsyn þess að notkunin samrímist lögum um persónuvernd og því siðferði sem almennt ætlast er til af þeim aðilum sem koma að uppeldi og skólagöngu barna. Hér er gagnlegt að skoða viðmið Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um samstarf heimilis og skóla sem finna má á vefsíðu Reykjavíkurborgar, sjá hér.

Svo virðist sem almennt sé lagður sá skilningur í samvinnu heimilis og skóla að þar sé átt við samstarf foreldra og kennara eða skólastjórnenda. Nemendur virðast með öðrum orðum standa að miklu leyti utan við umfjöllun og ákvarðanir um eigin málefni þrátt fyrir að þess sé vænst í gildandi lögum um grunnskóla frá 2008 að þeir taki meiri ábyrgð á skólagöngu sinni en lögin áður gerðu ráð fyrir. Nemendur eru hluti af hvoru tveggja, heimili og skóla og eru þess vegna mikilvægir þátttakendur í samstarfi þessara aðila. Skólar reikna vissulega með þátttöku nemenda í skipulegum foreldraviðtölum og vafalaust eru nemendur víða kallaðir til ábyrgðar í málum sem þá varða í einhverjum mæli og er jafnvel innbyggt í þeirri hugmyndafræði sem sumir skólar starfa eftir. En hér má hugsanlega gera betur. Eitt af leiðarljósum Erindis er að hafa tiltrú á lausnarfærni barna, sýna hana í verki með því að virkja þau í lausnarferlinu og byggja á styrkleikum þeirra. Séu börn óvirk í eigin málum eru tekin frá þeim mikilvæg tækifæri til að glíma við raunverulegar þrautir undir leiðsögn sem tekur mið af aldri þeirra og þroska.

Í störfum okkar hefur komið berlega í ljós hversu óljóst er fyrir foreldrum og kennurum hver bera eigi ábyrgð á hverju þegar upp kemur vandi varðandi skólahegðun nemenda.  Kennarar tjá okkur gjarnan að það sem þeim finnist erfiðast í kennslunni sé að glíma við persónuleg mál nemenda svo sem samskiptamál og hegðunarvanda og hafa áhyggjur af þeim tíma sem fer í slíkt á kostnað kennslunnar. Kennarar segja að það sé erfitt að átta sig á hvenær og í hvaða mæli þeir geti vísað til ábyrgðar foreldra í slíkum málum. Þrátt fyrir að lögin um grunnskóla skilgreini sérstaklega ábyrgðarhlutverk foreldra og starfsfólks skólans, eru þau ekki leiðbeinandi um hvar einu hlutverki sleppir og annað taki við í einstökum málum. Það er umhugsunarvert hversu fúslega foreldrar hafa á stundum látið uppeldishlutverk sitt af hendi til skólans og hversu fúslega skólinn hefur tekið við því. Í samtölum okkar við kennara kemur fram að þessi viðfangsefni eru ein erfiðasta áskorunin sem þeir telja sig mæta í störfum sínum. Það er að okkar mati brýnt að skilgreina nánar hlutverk skóla og foreldra og styðja þannig báða aðila við að  gera heilbrigðar væntingar hvor til hins. Með því móti væri samstarfi heimilis og skóla búin betri skilyrði í tilfellum allra barna.

Erindi leggur  áherslu á að líta ávallt á hvers kyns hegðunarvanda nemenda sem einkenni einhvers fremur en ásetning. Með því að horfa á hegðunarvanda barna með þeim augum og leita skýringa er hægt að leysa vandann í sameiningu. Algengar úrlausnir þegar hegðun barna brýtur í bága við skólareglur er að veita þeim tiltal og víst er að sum börn eiga langa reynslu af samtölum við kennara, skólastjórnendur og námsráðgjafa vegna hegðunar sinnar og fá endurtekið efnið heima. Þótt samtal við barn í hegðunarvanda sé afar mikilvægt virðist nokkuð vanta á að því fylgi aðgerðir í kjölfarið þar sem barnið getur æft sig við að tileinka sér hjálplegri hegðun og leiðrétt það sem fór úrskeiðis á áþreifanlegan hátt. Hér er kjörið að leita eftir eigin lausnarhugmyndum barnsins sem í hlut á og styðja það við að láta á þær reyna. Foreldrar barna með hegðunarvanda hljóta að leggja traust sitt á skóla sem lítur á óæskilega hegðun barna fyrst og fremst sem námstækifæri og hjálpar þeim að komast frá aðstæðum sínum með reisn.

Þá langar mig að víkja nokkrum orðum að skólabrag. Það hefur verið sérlega skemmtilegt að kynnast því hvernig margir skólar vinna með samskipti nemenda út frá einkunnarorðum skólans og halda þeim þannig lifandi og sýnilegum í daglegu skólastarfi. Að byggja upp skólabrag er jafnan samvinnuverkefni skólastjórnenda, kennara og nemenda og þar er að mörgu að hyggja. Hér er mikilvægt að gleyma því ekki að foreldrar eru hluti af skólabrag hvers skóla þótt þeir séu ekki á staðnum og að framlag þeirra og þátttaka er mikilvæg við að skapa það andrúmsloft og viðhorf í skólastarfi sem stuðlar að vellíðan og starfsgleði nemenda og starfsmanna. Hér er að okkar mati kjörin vettvangur til að styrkja samvinnu heimilis og skóla. Við leggjum til að það verði árviss viðburður innan allra grunnskóla að unnið sé að völdum umbótum á skólabrag á öllum stigum í samvinnu við foreldra.

Þátttaka foreldra í skólastarfi getur orðið viðkvæm þegar foreldrar vita ekki hvar þátttaka þeirra er best þegin og hvaða frumkvæði þeir mega taka. Til dæmis er ekki alltaf ljóst undir hvaða kringumstæðum þeim er heimilt eða óheimilt að koma inn í kennslustundir, fylgjast með í fríminútum eða taka börn sín úr skólanum. Af þessari óvissu hafa skapast erfiðleikar í samskiptum foreldra og starfsmanna skóla sem bendir til þess að hér mætti skýra hlutverk beggja betur. Samkvæmt umfjöllun skóla- og frístundasviðs á vefsíðu Reykjavíkurborgar um samskipti heimilis og skóla, berast sviðinu í æ meira mæli ábendingar um of mikil afskipti foreldra af skólastarfinu sem trufli nám og kennslu. Það er að okkar mati kjörið að virkja foreldra til samstarfs í áhugaverðum öruggum verkefnum eins og að vinna að betri skólabrag og að tryggja að öllum sé ljóst hvar mörkin liggja milli hefðbundins skólastarfs og aðkomu foreldra. Eftir heimsóknir í skóla úti á landi virðist okkur enn meiri ástæða til að undirstrika þessi mörk í smærri byggðum. Það getur skólastjórnendur við að halda úti metnaðarfullu skólastarfi og eðlilegu samstarfi við foreldra í óhjákvæmilegri nánd fólks í fámennum bæjarfélögum.

Eflaust hefur margt sem hér að ofan er nefnt verið ígrundað og stundað í starfi grunnskóla landsins. Þetta eru einungis þankar sem vaknað hafa í þeim verkefnum sem Erindi hefur komið að á þeim tveimur árum sem samtökin hafa starfað. Það er óhætt að segja að það hafi vakið aðdáun okkar ráðgjafa hve margbreytileg og áhugaverð starfsemi á sér stað í skólunum og almennt faglega unnið með foreldrum þegar kemur að hegðunar-og samskiptavanda nemenda. Samskipti heimils og skóla verða hinsvegar aldrei að fullu skipulögð eða fagleg og engar aðferðir eða áætlanir tryggja gott samstarf. Þau eru tilfinningahlaðin og aðstæðubundin og háð innsæi, samkennd og lausnarfærni allra viðkomandi. Undirstaðan er traustið sem þarf að huga að frá fyrsta skóladegi, næra og hlúa að til þess síðasta – af hálfu beggja.

 


Kristín Lilliendahl er starfandi aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ og er jafnframt umsjónarmaður ráðgjafar samtakanna Erindis (sjá hér: https://www.erindi.is/). Hún er menntaður fjölskyldufræðingur og náms-og starfsráðgjafi ásamt með menntun í kennarafræðum. Kristín var fagstjóri sérkennslu við unglingastig grunnskólanna í Mosfellsbæ til margra ára.