Að tala um kennslu á íslensku! Um orðasmíði og skilgreiningar á hugtökum í menntunarfræðum
Ingvar Sigurgeirsson: Viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur
Ég hef stundum spurt kennara hverjar séu helstu kennsluaðferðir sem þeir beiti í kennslu sinni og beðið þá að nefna þær. Satt best að segja verður stundum fátt um svör. Staðreyndin er líklega sú að við kennarar höfum ekki komið okkur nægilega vel saman um heiti kennsluaðferða. Þegar ég skrifaði bókina Litróf kennsluaðferðanna vakti það m.a. fyrir mér að reyna að leggja grunn að sameiginlegum orðaforða kennara um kennsluaðferðir en margt bendir til þess að sú tilraun hafi ekki skilað miklum árangri.
Stundum verður þessi orðavandi nánast vandræðalegur. Sem dæmi um þetta má nefna kennsluaðferð sem sumir nefna verkefnavinnu. Þessi aðferð er raunar nefnd nokkrum sinnum í Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013 og einnig í Aðalnámskrá framhaldsskóla, þó sjaldnar sé. Mér hefur alltaf þótt þetta orð ankannalegt, og er þar líklega undir áhrifum Ögmundar Helgasonar cand. mag. fyrrum forstöðumanns Handritadeildar Landsbókasafns, sem las flest handrit mín um árabil. Hann gerði oft góðlátlegt grín að óþekktum höfundi þessa orðs fyrir að hafa látið sér detta í hug að setja bæði verk og vinna, sem merkja nánast það sama, í eitt og sama orðið. Hér er alltaf hægt að nota orðið verkefni í staðinn, sagði Ögmundur og hafði auðvitað mikið til síns máls. En vandinn við þetta heiti er þó kannski fremur að það merkir ekki það sama í hugum kennara – vísar til margra ólíkra kennsluaðferða. Ég hef heyrt kennara nota orðið um það þegar nemendur leysa verkefni í vinnubókum eða á vinnu- eða verkefnablöðum, en hjá öðrum merkir það þegar nemendur afla sér upplýsinga upp á eigin spýtur, vinna úr þeim og miðla öðrum. Með öðrum orðum: Sama heitið er notað um gjörólíkar kennsluaðferðir.
Annað dæmi er að við íslenskir kennarar eigum ekkert sameiginlegt heiti yfir þá aðferð sem á ensku eru kölluð brainstorming. Sumir kalla þessa aðferð hugstorm eða hugstormun, aðrir þankahríð, þankaregn eða hugarflug og heitin eru áreiðanlega fleiri. Sami vandræðagangurinn er uppi þegar nefna á þá aðferð sem á ensku heitir project eða project method. Ég gerði í Litrófi kennsluaðferðanna tilraun til að nefna þessa aðferð efniskönnun, en það heiti hefur ekki festst í sessi. Leikskólakennarar nota margir orðið könnunaraðferð sem mér finnst koma vel til greina. Þá þekki ég kennslufræðinga sem vilja kenna þessa aðferð við þemavinnu eða þemanám, en ég hef ekki verið sáttur við það því þema getur tengst mörgum ólíkum kennsluaðferðum, jafnvel fyrirlestrum.
Þeir eru fleiri en ég sem hafa velt þessum orðavanda fyrir sér. Í Kennaraskólanum gamla og Kennaraháskólanum störfuðu gjarnan orðanefndir sem leituðust við að samræma þessa orðanotkun og um nokkurt skeið hefur starfað íðorðanefnd sem er samstarfsverkefni Félags um menntarannsóknir (FUM), Kennarasambands Íslands og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Í nefndinni eru nú Gerður G. Óskarsdóttir, formaður (FUM), Baldur Sigurðsson, dósent (Mvs. HÍ), Jón Ingi Hannesson, framhaldsskólakennari (KÍ), Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent (FUM) og Þuríður Jóhannsdóttir, dósent (Mvs. HÍ).
Ritstjórn Skólaþráða lék forvitni á að vita meira um þetta starf og sneri sér því til formanns nefndarinnar, Gerðar G. Óskarsdóttur, og varð hún góðfúslega við því að svara nokkrum spurningum um starfið.
Hvert er hlutverk íðorðanefndarinnar?
Hlutverk nefndarinnar er að taka saman orð og hugtök sem notuð eru á fræðasviðinu og gera aðgengileg með þýðingum og ekki síst skilgreiningum. Tilgangurinn er að treysta þar með grundvöll faglegrar umræðu á íslensku um menntun og skólastarf. Markmið okkar er að allt að 1.000 íðorð á öllum helstu sviðum menntunarfræða sé að finna í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar, en hugtakið íðorð er notað yfir sérfræðiorð á ákveðnu sviði. Við leggjum orð og skilgreiningar sem við erum að vinna að jafnóðum inn í bankann sem er aðgengilegur á netinu (sjá á þessari slóð www.ordabanki.hi.is). Við höfum skilgreint og þýtt tæplega 200 orð. Markhópurinn er fræðimenn, starfendur og nemendur á sviði uppeldis- og menntunarfræða, þar með taldir allir starfsmenn og stjórnendur í skóla- og menntastofnunum.
Fræðigreinin okkar, menntunarfræði, er ört vaxandi grein hér á landi og erlendis, það bætast stöðugt við ný hugtök, og mikilvægt er að geta rætt og skrifað um fræðin á íslensku.
Nefndin var stofnuð til að mæta brýnni þörf fyrir að samræma merkingu og notkun íðorða sem lengi hafa verið í umferð og bregðast við ákalli um að finna heppileg íslensk orð fyrir hugtök sem efst eru á baugi.
Getur þú gefið okkur einhver nýleg dæmi um þau álitamál sem þið hafið verið að klást við?
Við höfum t.d. verið að vinna með orð á sviði fjölmenningar. Á því sviði er ekki síst mikilvægt að skilgreina þau hugtök sem eru í gangi, hvað er t.d. fjölmenningarsamfélag? Hvað er fjölmenningarleg menntun?
Annað dæmi má nefna sem við veltum fyrir okkur. Það var skilgreining á orðinu útikennsla. Sumir nota það aðeins yfir það sem gert er úti í náttúrunni eða utan dyra, en aðrir nota það í víðari merkingu. Við völdum hana og skilgreindum orðið sem nám og kennsla sem skipulögð er utan veggja skólans og náttúran eða samfélagið er nýtt sem námsumhverfi.
Loks má nefna að það eru mörg hugtök til um ýmiss konar nám og menntun. Því þurftum við að skilgreina þessi hugtök fyrst áður en við gátum farið að huga að tilteknum gerðum náms og menntunar og það var nokkuð snúið.
Ég held að skilgreiningar okkar á hugtökum sem við vinnum með sé í raun mikilvægasti þáttur starfsins. En það skiptir líka máli að velja þýðingu sem okkur finnst passa vel við skilgreininguna og enska orðið ef margar eru í gangi, sem all oft er, eða búa til nýtt orð.
Hvernig starfar nefndin?
Nefndin hittist að jafnaði hálfsmánaðarlega yfir vetrartímann. Verklagið byggir á útgefnum leiðbeiningum um íðorðastörf og starfsreglum nefndarinnar. Starfið felst í að velja flokk skyldra orða til að vinna með í ákveðinn tíma. Við byrjum á því að leita að og skrá hjá okkur orð á ensku og stundum íslensku í viðkomandi flokki, gjarnan eftir sérfræðingi á sviðinu sem við höfum kallað til. Því næst leitum við að efni á netinu, s.s. í greinum, fræðiritum og orðasöfnum, og semjum skilgreiningar upp úr því. Oft endurskoðum við þær aftur og aftur. Fyrst þegar skilgreining liggur fyrir leitum við að íslenskri þýðingu, veljum þýðingu ef fleiri en ein liggur fyrir eða búum til nýtt orð. Stundum fáum við skilgreiningar frá sérfræðingum eða fólk sendir okkur enskt orð og biður okkur að taka það fyrir. Við reynum að verða við slíkum óskum. Gjarnan biðjum við sérfræðinga að fara yfir skilgreiningar okkar. Við göngum frá efninu jafnóðum í orðabankann. Þegar opnað er á orð í bankanum sést innan hvaða fræðigreinar það hefur verið þýtt eða skilgreint, t.d. stendur: Úr orðasafninu Menntunarfræði.
Í menntunarfræðisafninu eru orðin flokkuð í sex meginsvið. Þau eru stjórnun og skipulag (þ.m.t. lög, námskrár, skipulag skóla og stjórnunarhættir), kennsla og mat (s.s. kennsluaðferðir, námsmat og mat á skólastarfi), nám og þroski, félagslegt og menningarlegt umhverfi, námsumhverfi (s.s. kennslustofur, tækni og skólahúsnæði almennt) og loks straumar og stefnur (s.s. kenningar, hugmyndafræði og fræðasvið). Við vinnum með ákveðin undirsvið þessara meginsviða eða klasa hverju sinni, t.d. höfum við unnið með kennsluaðferðir, mismunandi tegundir námskráa, námsmats og prófa og hugtök um mismunandi stjórnunarhætti skóla. Þá vísum við milli skilgreininganna innan klasans í orðabankanum.
Hér í inngangi nefni ég nokkur dæmi um vandræðagang í orðanotkun kennara. Hefur nefndin eitthvað fjallað um þessi heiti sem ég nefni?
Já, við höfum unnið með flokkinn kennsluaðferðir og þá kom Litróf kennsluaðferðanna að góðu gagni. Við völdum þaðan orð til að vinna með og unnum síðan skilgreiningar upp úr bókinni og öðru efni sem við fundum. Sem dæmi völdum við þýðinguna þankahríð fyrir brainstorming. Hin orðin eru svo nefnd sem samheiti. Ég get einnig nefnt að við höfum skilgreint orðið verkefni innan menntunarfræði sem skilgreint og afmarkað viðfangsefni í skólastarfi sem kennari leggur fyrir og gerir ráð fyrir að nemendur leysi. Þetta er dæmi um almennt orð sem verður að íðorði í menntunarfræði, en er jafnframt skilgreint á ýmsan annan hátt innan annarra fræðigreina í orðabankanum.
Grunnskólakennarar nota margir orðið innlögn um stutta fyrirlestra og raunar um hvers konar kynningar. Ég hef aldrei getað sætt mig við þetta og reynt að útrýma þessu en ekki tekist. Hefur orðanefndin fjallað um þetta orð?
Já, í bankanum er orðið kynning haft yfir enska orðið presentation en orðin innlegg og innlögn skráð sem samheiti. Við erum með tvær skilgreiningar á orðinu, þ.e. 1. Kennsluaðferð sem felst í að kennari kynnir eða útskýrir efni fyrir nemendum, yfirleitt í stuttu máli. 2. Aðferð við verkefnaskil þar sem nemendur segja formlega frá verkefni sínu fyrir framan skólafélaga.
Þú nefndir að stundum smíðið þið sjálf ný orð? Dæmi?
Það er erfitt að greina hvort við höfum heyrt þýðingu á orði eða samið nýyrði. En ég get nefnt orð sem við höfum nýlega unnið með. Við ákváðum t.d. að nota sítekning fyrir drill.
Sítekning er í bankanum skilgreind sem kennsluaðferð þar sem lögð er áhersla á kerfisbundna endurtekningu á hugtökum, athöfnum eða færniþáttum. Þetta er skýrt svona:
Sítekning er notuð til að kenna og fullkomna færni eða þekkingu, til dæmis í tungumálanámi. Í tungumálanámi felst aðferðin í að sítaka orð, beygingar, setningargerðir og önnur mynstur í málinu og stuðla þar með að sjálfvirkni í að beita þeim. (Sbr. orðin endurtekning og endurtaka.)
Þá má nefna að við ákváðum að nota orðið stoðgrind (samheiti: aðhæfður stuðningur, námsstuðningur) fyrir enska orðið scaffolding og netslór, sem við höfðum heyrt, fyrir cyberslacking eða cyberloafing.
Til viðbótar get ég nefnt orðið makerspace sem er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og þjálfa þar með sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Okkur datt í hug orðið gervöllur sem okkur fannst skondið, en leggjum til að notað sé orðið nýsköpunarsmiðja. Settum þó orðið gervöllur inn sem samheiti.
Hvernig er þetta starf fjármagnað?
Þetta er ansi mikið sjálfboðastarf og því gengur okkur hægt. Sumir fá greitt fyrir fundasetu, en aðrir ekki. Ljóst er að áhugahópi sem vinnur án fjárframlags að íðorðasmíði miðar hægt fram. En tvisvar á starfstímabili sínu hefur nefndin hlotið styrk úr Málræktarsjóði og hefur þá getað ráðið starfsmann í hálft starf í um þrjá og hálfan mánuð í hvort skipti til að undirbúa fundi nefndarinnar. Það skipti okkur miklu máli og okkur fannst mikið gerast á þessum mánuðum.
Hvert eiga þeir að snúa sér sem vilja beina erindi til nefndarinnar?
Endilega senda erindi á nefndarmenn í tölvupósti og við reynum að bregðast við þeim. Við fögnum að sjálfsögðu þátttöku sem flestra í þessu starfi. Netfangið mitt er ggo(hjá)hi.is.
Fjölmörg orðasöfn í menntunarfræðum eru á Netinu – hér eru nokkur dæmi:
- Oxford Dictionary of Education, sjá á http://www.oxfordreference.com/view/10.1093/acref/9780199212064.001.0001/acref-9780199212064
- Wikipedia – Glossary of educatioan terms, sjá á https://en.wikipedia.org/wiki/Glossary_of_education_terms_(A%E2%80%93C)
- A Lexicon of Learning (ASCD), sjá á http://www.ascd.org/Publications/Lexicon-of-Learning.aspx
- The Glossary of Education Reform, sjá á http://edglossary.org/