1

Ný bók: Leikum, lærum, lifum – Um nám, leik og grunnþætti menntunar

Fréttatilkynning


Árið 2012 gerði RannUng (Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna) samstarfssamning við sveitarfélögin í Kraganum; Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes, um rannsóknarverkefni í leikskólum með það að markmiði að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi.

Markmið verkefnisins var að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum út frá námsviðum aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Skoðað var hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn studdu við leik barna og nám. Gengið var út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna var framkvæmd í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, þar sem ein deild tók þátt úr hverjum þeirra.

Sérfræðingar og meistaranemar við Menntavísindasviði Háskóla Íslands unnu með starfsmönnum leikskólanna og leiðbeindu um framkvæmd rannsóknarinnar.

Leikskólakennarar og annað starfsfólk deildanna sem tóku þátt ákváðu hvaða áherslur og leiðir voru farnar í samráði við meistaranema og sérfræðing. Það aflaði sér upplýsinga um eitt námsvið, gerði vettvangsathuganir og hélt dagbækur. Starfsfólkið skráði og ígrundaði eigið starf og þróaði með því móti starfsaðferðir í anda núgildandi stefnumótunar aðalnámskrár. Í lok verkefnisins höfðu viðhorf starfsfólksins gagnvart börnum og námi breyst, og leitt til samskipta í leikskólanum þar sem börnum var í ríkara mæli gefinn kostur á að velja sér leikföng, leikefni og leikfélaga og þeim séð fyrir tíma og rými til að vera virk í eigin námi og leik.

Nú hafa niðurstöður rannsóknarinnar verið birtar í bókinni: Leikum, lærum, lifum. Þar er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og helstu niðurstöðum. Fjallað er um birtingarmynd námssviða leikskóla og grunnþátta menntunar í leikskólastarfi. Meðal annars má þar helst nefna vellíðan barna í leikskóla, flæði í leik og námi, sköpun og leik, læsi og leik, lýðræði, jafnrétti og sjálfbærni og vísindi. Að lokum er fjallað um gildi rannsóknarinnar fyrir stefnumótun og starfshætti í leikskólum.

Í bókinni er enn fremur að finna umfjöllun um gildi þess að setja fram námsmarkmið og huga að hlutverki kennara og annars starfsfólks í að móta leik sem aðferð í námi og kennslu, í þeim tilgangi að stuðla að námi barna og auka áhrif þeirra á eigið nám og námið hvert hjá öðru.

Bókin er ætluð kennaranemum, kennurum og starfsfólki í leik- og grunnskólum, þeim sem móta stefnu í skólamálum og öðrum sem láta sig menntun yngstu borgaranna varða.

Ritstjórar bókarinnar eru Kristín Karlsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir.

Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og RannUng.