Nám og meðnám
Hafþór Guðjónsson, dósent
Skólastarf, frá og með miðstigi grunnskóla, snýst að verulegu leyti um að kenna ákveðnar námsgreinar. Þá koma námsbækurnar inn með fullum þunga og námið felst einkum í því að tileinka sér það sem stendur í námsbókunum og kunna það til prófs. Dewey (1938/2000) víkur að þessu í bókinni Experience and Education, gagnrýnir þar hefðbundið skólastarf fyrir að vanrækja að taka með í reikninginn það sem lærist óbeint og er hvass í máli:
Ef til vill er hin mesta af öllum kennslufræðilegum villum fólgin í þeirri hugmynd að maður læri einungis þann sérstaka hlut sem hann er að læra um þá stundina. Það sem lærist óbeint eins og t.d. myndun varanlegra viðhorfa, jákvæðra og neikvæðra, getur verið og er oft langtum mikilvægara en sú lexía í stafsetningu, landafræði eða sögu sem lærð var. Því þessi viðhorf koma til með að skipta mestu máli í framtíðinni. Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra (bls. 58).
Hér styðst ég við þýðingu Gunnars Ragnarssonar eins og hún birtist í íslensku útgáfunni af Experience and Education en hún ber heitið Reynsla og menntun og kom út árið 2000. Gunnar notar orðalagið „það sem lærist óbeint“ og forðast þannig að þýða beint orðasambandið „collateral learning“ sem Dewey (1938) notar í Experience and Education (bls. 48). Að minni hyggju er þetta hins vegar svo mikilvægt hugtak að það verðskuldar beina þýðingu. Ég legg hér til að við köllum það „meðnám“.
Hugtakið meðnám hjálpar okkur, sýnist mér, að sjá skólastarf nýjum augum; gefa gaum að öðru en því sem er kennt með beinum hætti, öllu „hinu“ sem nemendur læra með óbeinum hætti, til dæmis viðhorfum eins og Dewey nefnir en líka ýmiss konar færni sem nemendur öðlast með því að taka þátt í margs konar athöfnum.
Guy Claxton (2008) tekur í svipaðan streng í bókinni What´s the Point of School? – Rediscovering the Heart of Education. Menntun, segir Claxton (2008) snýst ekki bara um „innihald“ eða námsefni heldur líka og ekki síður um starfshætti í skólastofunni og það sem af þeim hlýst, til dæmis námsvenjur, hugsun, og viðhorf nemenda. Ef skólaganga þín, segir Claxton, snerist að mestu leyti um að taka glósur og muna þær til prófs þá varstu kannski fyrst og fremst að læra að tileinka þér ákveðna verkhætti, námshætti og viðhorf. Þú lærðir mest af öllu að glósa og leggja hluti á minnið, varðst kannski góður í því og fórst jafnvel að trúa því að nám gengi út á það að glósa og að leggja hluti á minnið. Hafir þú á hinn bóginn, bætir Claxton við, gengið í skóla þar sem áhersla var lögð á samstarf, samræður og verkefni af ýmsu tagi má ætla að þú búir að því. Þú fékkst þá þjálfun í að vinna að verkefnum, vinna með öðrum og ræða við aðra; og fórst jafnvel að trúa því að nám í skóla fælist fyrst og fremst í að læra að gera hluti með öðrum, rækta með sér nýjar hugmyndir og læra að hugsa. Menntun, bætir Claxton (2008) við, má skoða sem þjálfun í að hugsa, skrifa, athuga og tala saman. Hún er, bætir hann við, með tilvísun í Albert Einstein, „það sem situr eftir þegar allt annað er gleymt og grafið“ (bls. vii). Og það sem situr eftir, sýnist manni, er meðnámið: Vinnulag, námsvenjur, kannski ný orð og talshættir, ef til vill ný hugsun og viðhorf; allt þetta „hitt“ sem maður lærði óbeint í gegnum störfin sem maður vann og þátttöku í athöfnum með öðrum og varð með tímanum hluti af manni sjálfum, hluti af sjálfsmyndinni.
Claxton hefur ekki látið sitja við orðin tóm. Hann hefur hrint af stað skólaþróunarverkefni sem nefnt hefur verið Building Learning Power (BLP) og náð til þúsunda skóla, bæði á Bretlandi og í öðrum löndum. BLP snýst, eins og nafnið gefur til kynna, einkum um að hjálpa ungu fólki að verða betur hugsandi og öflugri námsmenn, bæði í skólum og utan þeirra. Skólar nú á tímum, segir á heimasíðu BLP, þurfa að gera meira en að undirbúa nemendur fyrir próf. Þeir verða líka að undirbúa þá fyrir lífið. Mestu máli skiptir að þróa skólamenningu og námsumhverfi sem „ræktar með ungu fólki venjur og viðhorf sem auðvelda því að takast á við erfiðleika og óvissu á yfirvegaðan hátt“ eins og það er orðað hjá BLP (2012). Lykilatriðið, segja talsmenn BLP, er að efla með nemendum vilja til að takast á við hlutina og færni til að takast á við hvers kyns viðfangsefni, bæði einir og í samvinnu við aðra; kenna þeim til dæmis að hugsa sig vel um, rýna í eigin viðhorf og endurskoða þau ef þörf krefur. Þjálfa þá í að spyrja gagnrýninna spurninga, ímynda sér hluti, hlusta á aðra, sýna tillitssemi og gefast ekki upp þó móti blási. Kjörorð BLP eru seigla (resilience), ráðsnilld (resourcefulness), íhygli (reflectiveness) og gagnkvæmni (reciprocity). Þessir þættir, fullyrða talsmenn BLP, ráða miklu um það hvernig nemendum gengur í skóla og þeir ráða líka miklu um það hvernig fólki farnast í lífinu.
Í þessu myndskeiði segja þrír kennarar við Hallbankgate skólann í Cumbria héraði á Englandi frá reynslu sinni af því starfa við skóla sem hefur hugmyndafræði Building Learning Power að leiðarljósi. Meðan kennararnir segja frá fáum við svipmyndir úr skólanum sem eru ekki síður athygli verðar. Hér er heimasíða skólans, en þar er að finan fleiri myndskeið sem sýna vinnubrögð í anda PBL og viðhorf nemenda og kennara til þeirra.
Skólar sem kenna í anda BLP leggja áherslu á þessa þætti. Ekki svo að skilja að námsefninu sé varpað fyrir róða. Síður en svo. En kennslan verður tvíhliða (dual focus). Annars vegar beinist hún að innihaldinu (námsefninu) hins vegar starfsháttunum í skólastofunni. Starfsháttunum er nú gefinn sérstakur gaumur í ljósi þeirrar sannfæringar að hvernig unnið er í skólastofu sé ekki síður mikilvægt en það sem verið er að læra um þá stundina. Ef vel er að verki staðið má gera ráð fyrir að nemendur standi sig ekki bara vel á prófinu heldur líka að þeir verði betri námsmenn og um leið betur í stakk búnir að takast á við lífið.
Meðnámið er sett í öndvegi, við hliðina á náminu.
Heimildir
Building Learning Power. (2012). Heimasíða verkefnisins Building Learning Power. Sótt af https://www.buildinglearningpower.com/
Claxton, G. (2008). What‘s the point of school? Rediscovering the heart of education. Oxford: Oneworld Publications.
Dewey, J. (1938/2000). Reynsla og menntun. Íslensk þýðing Gunnars Ragnarssonar á Experience and education sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1938. Reykjavík: Rann-sóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.