Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar aðgengileg á heimasíðu Menntavísindastofnunar

í Ýmsar fréttir

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor


Á árunum 2009‒2013 var gerð umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í grunnskólum. Rannsóknin er gjarnan nefnd Starfsháttarannsóknin en meginmarkmið  hennar var að veita yfirsýn yfir starfshætti í íslenskum grunnskólum. Meðal annars vakti fyrir rannsakendum að kanna áhrif stefnumörkunar fræðsluyfirvalda um einstaklingsmiðað nám. Rannsóknin mun vera ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á skólastarfi hér á landi. Verkinu stýrði Gerður G. Óskarsdóttir fv. fræðslustjóri í Reykjavík, en fjöldi annarra fræðimanna kom að verkinu. Einnig tengdust því meistara- og doktorsnemar og fleiri aðilar (alls um 50 manns).

Aflað var umfangsmikilla gagna í 20 grunnskólum, sextán þeirra voru í Reykjavík, tveir á Akureyri, einn í Reykjanesbæ og loks einn sveitaskóli. Gerðar voru vettvangsathuganir, spurningakannanir lagðar fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra og viðtöl tekin.

Í árslok 2014 voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í  bókinni : Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Þar er gerð ítarleg grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og helstu niðurstöðum. Fjallað er um viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skóla til fjölmargra þátta í skólastarfi. Einnig má nefna skólabyggingar og námsumhverfi, stjórnun og skipulag, kennsluhætti, námsmat, heimanám, þróunarverkefni, þátttöku og samskipti nemenda, samstarf heimila og skóla, tengsl skóla og grenndarsamfélags, útikennslu, list- og verkgreinar og notkun tölvu og upplýsingatækni í skólastarfi. Í lokakafla bókarinnar eru niðurstöður teknar saman og ræddar.

Bókin var gefin út í rúmlega 500 eintökum og er nánast uppseld. Nýlega var ákveðið að birta bókina í rafrænu formi og má sækja hana án endurgjalds á þessa slóð:

https://opinvisindi.is/bitstream/handle/20.500.11815/228/starfshaettir_heild_m_kapu_02102015_lr.pdf

Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar er öðru fremur heimild um starfshætti í grunnskólum í upphafi nýrrar aldar, en það var einnig von rannsakenda að kennarar og annað starfsfólk skóla gæti nýtt  niðurstöðurnar í innra mati skóla og til að meta eigið starf.

Þá er athygli vakin á því að opnaður hefur verið aðgangur að gögnum rannsóknarinnar fyrir fræðimenn og háskólanema, en vinna má fjölmargar fleiri rannsóknir á skólastarfi úr gögnunum. Gagnasafnið er varðveitt hjá Menntavísindastofnun og er hægt að sækja  um aðgang að vettvangslýsingum, afrituðum viðtölum og niðurstöðum spurningakannana, sjá nánar  á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/gogn_fraedimanna_menntavisindasvids

Loks er þess að geta að nú stendur yfir rannsókn á starfsháttum í framhaldsskólum. Safnað hefur verið gögnum í níu framhaldsskólum víða um um land með vettvangsathugunum og viðtölum við nemendur, kennara og stjórnendur. Úrvinnsla er í gangi og hafa þegar birst greinar með niðurstöðum um ákveðna þætti rannsóknarinnar. Stefnt er að útgáfu bókar, gjarnan í rafrænu formi, um meginniðurstöður. Sjá má  markmið og framkvæmd rannsóknarinnar á þessari slóð: http://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/starfsh_frhsk_skyrsla_19.2.2016.pdf

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp